Handbolti

Þreyttur á umræðunni um Gróttu: „Þetta eru ekki einhverjir gúbbífiskar“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Grótta er með fjögur stig af sex mögulegum í Olís-deild karla.
Grótta er með fjögur stig af sex mögulegum í Olís-deild karla. vísir/hulda margrét

Arnar Daði Arnarsson segir tíma til kominn að Grótta sé tekin alvarlega sem gott Olís-deildarlið.

Grótta vann góðan sigur á Stjörnunni, 29-28, á heimavelli á fimmtudaginn og er með fjögur stig í Olís-deildinni.

Arnar Daði þekkir Gróttuliðið vel enda þjálfaði hann það í þrjú ár áður en hann hætti í sumar. Við starfi hans tók Róbert Gunnarsson. Arnar Daði kveðst þreyttur á því hvernig umræðan um Gróttu er.

„Ég bíð bara eftir að þeir fái þá virðingu sem þeir eiga skilið. Þetta eru ekki einhverjir gúbbífiskar,“ sagði Arnar Daði í Handkastinu um helgina.

„Þeir eru enn í stríði við aðra að þurfa enn að sanna sig. Það er frábært stríð að fara í, þegar þú ert enn í þeirri baráttu að fólk talar þig niður þótt engin ástæða sé til.“

Benedikt Grétarsson, sem var gestur Handkastsins, benti á að umræðan um Gróttu litaðist kannski af því að Róbert væri á sínu fyrsta tímabili sem aðalþjálfari.

„Hann er að stíga sín fyrstu skref og maður vissi ekki hvernig hann kæmi inn í Olís-deildina,“ sagði Benedikt.

Næsti leikur Gróttu er gegn Aftureldingu í Mosfellsbænum á fimmtudaginn. Mosfellingar eiga enn eftir að vinna leik á tímabilinu.

Hlusta má á Handkastið í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×