Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Fram 24-24 | Jafn­tefli í há­dramatískum leik

Smári Jökull Jónsson skrifar
Leó Snær tryggði Stjörnunni stig í kvöld.
Leó Snær tryggði Stjörnunni stig í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Stjarnan og Fram gerðu jafntefli í leik sem bauð upp á allt undir lok leiks eftir að hafa verið vægast sagt drepleiðinlegur framan af. Hádramatík undir lokin og lokatölur 24-24 í Garðabæ. Umfjöllun og viðtöl á leiðinni.

Leikurinn í kvöld var sá seinni af tvíhöfða þessara liða í Olís-deildunum því Stjarnan vann góðan sigur á Fram í Olís-deild kvenna áður en leikurinn sem um er skrifað er hér um hófst.

Það var jafnt á með liðum í upphafi leiks í kvöld. Bæði lið voru nokkuð mistæk sóknarlega og markverðir liðanna vörðu ágætlega í upphafi leiks. Stjarnan tók frumkvæðið um miðbik fyrri hálfleiks og var það góðri vörn og fínni markvörslu frá Adam Thorstensen að þakka.

Framarar bitu þó frá sér og voru sterkari undir lok fyrri hálfleiks. Þeir skoruðu síðasta mark hálfleiksins sem kom þeim í forystu, staðan í hálfleik 13-12 gestunum í vil.

Stjarnan skoraði fyrstu tvö mörk síðari hálfleiks og það tók langan tíma fyrir gestina að koma sér á blað eftir hléið. Þá skoruðu þeir hins vegar þrjú í röð og náðu tveggja marka forystu.

Áfram var sóknarleikur liðanna fremur slakur og leikmenn að gera klaufaleg mistök. Framarar komust fjórum mörkum yfir þegar um sjö mínútur voru eftir og virtust vera með leikinn í hendi sér.

En lið Patreks Jóhannessonar eru ekki þekkt fyrir að gefast upp. Stjörnumenn komu til baka en þegar þeir misstu tvo menn útaf með skömmu millibili þegar um þrjár mínútur voru eftir héldu eflaust flestir Framarar að björninn væri unninn, því forystan var þrjú mörk þar að auki.

Lokamínúturnar voru ótrúlegar. Adam í marki Stjörnunnar varði í tvígang í dauðafærum og Pétur Árni Hauksson jafnaði þegar um mínúta var eftir. Framarar tóku þá leikhlé og sóknin í kjölfarið endaði með marki frá Stefáni Darra Þórssyni þegar 15 sekúndur voru á klukkunni.

Stjarnan geystist hins vegar í sókn. Pétur Árni Hauksson átti skot sem Lárus Helgi Ólafsson í marki Fram varði en Framarar gleymdu að það þyrfti að taka frákast. Það nýtti Leó Snær Pétursson sér og jafnaði andartökum áður en flautan gall. Lokatölur 24-24 í hádramatískum leik.

Af hverju varð jafntefli?

Framarar hentu þessum leik frá sér í lokin. Þeir fengu tvær sóknir með sex sóknarmenn gegn fjórum varnarmönnum Stjörnunnar en nýttu færin ekki vel. Adam gerði auðvitað frábærlega í að verja í markinu en þetta voru ofboðslega dýr færi sem fóru forgörðum.

Ekki nóg með að nýta ekki færin þá slepptu þeir inn mörkum sömuleiðis og Stjörnunni tókst á einhvern ótrúlegan hátt að jafna. Síðasta markið var svo auðvitað grátlegt fyrir Framara því Lárus Helgi, sem var virkilega góður í leiknum, virtist vera að tryggja sigurinn með vörslunni frá Pétri Árna.

Stjarnan þakkar fyrir stigið en Framarar fara ósáttir á koddann.

Þessir stóðu upp úr:

Leó Snær Pétursson var markahæstur hjá Stjörnunni og skoraði auðvitað markið sem færði þeim stigið. Adam Thorstensen á svo sinn þátt í því stigi með vörslunum frábæru en hann átti heilt yfir fínan leik í kvöld. 

Hjá Fram var Lárus Helgi frábær í markinu með um 50% markvörslu. Luka Vukicevic skoraði góð mörk og Alexander Már Egan átti góðan kafla í seinni hálfleik þar sem hann skoraði þrjú mörk á skömmum tíma.

Hvað gekk illa?

Sóknarlega geta bæði lið betur. Þau gerðu mikið af mistökum, köstuðu boltanum frá sér á klaufalegan hátt og markverðirnir tóku mikið af dauðafærum. Ég veit ekki hvort þau hafa verið eitthvað sjálfsörugg eftir sigrana í fyrstu umferðinni en sóknarlega fá þau falleinkunn í kvöld.

Þá geta Framarar auðvitað gert betur en þeir gerðu í lokin, á ansi mörgum augnablikum. En eins og Einar Jónsson þjálfari sagði í svekkelsinu í leikslok þá þarf að læra af þessu. Framara vegna gera þeir það vonandi.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eru með þrjú stig að loknum tveimur leikjum í Olís-deildinni. Stjarnan fer á Seltjarnarnesið í næstu umferð þar sem þeir mæta Gróttu en Framarar taka á móti Aftureldingu á sínum heimavelli í Úlfarsárdal.

Patrekur: Þýðir ekkert að spila handbolta svona

Patrekur Jóhannesson var sáttur með jafnteflið í kvöld miðað við þá stöðu sem Stjarnan var komin í undir lokin.Vísir/Hulda Margrét

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, viðurkenndi í leikslok að hann hefði tekið stigið ef honum hefði verið boðið það þegar þrjár mínútur voru eftir. Þá voru Stjörnumenn tveimur leikmönnum færri og þremur mörkum undir.

„Við tókum auðvitað séns, vildum fá þá inn úr hornunum og Adam ver mikilvæga bolta. Auðvitað var heppnisstimpill á þessu í lokin og Framarar kannski áttu að klára þetta. En ég sagði við mína menn að aldrei að gefast upp og ég er ánægður með það,“ sagði Patrekur þegar Vísir ræddi við hann eftir leik í kvöld.

„Varnarlega fannst mér við vera fínir, 6:0 vörnin í fyrri hálfleik og ekkert mál að fá á sig einhver tólf til fjórtán mörk og töluvert af þeim úr seinni bylgju. Ég skipti samt í 5:1 vörn í seinni hálfleik til að koma okkur í gang. Ég sagði fyrir leik að ég vildi ekki göngubolta en mér fannst við ekki góðir sóknarlega og að ég tali nú ekki um líka þegar Framarar spiluðu mjög flatir og leyfa skyttunum mínum að komast á átta metra. Þá eigum við að gera betur.“

Þegar um tíu mínútur lifðu leiks höfðu Stjörnumenn aðeins skorað sex mörk í síðari hálfleik og mikið um mistök í sóknarleiknum. Hvað þarf að laga sóknarlega?

„Hvað geri ég í þessu? Það er góð spurning. Við spiluðum dúndurleik gegn FH sóknar- og varnarlega. Nú vorum við fínir varnarlega og Adam stóð sig vel. Ég veit ekki hvort þetta var því þetta var fyrsti heimaleikur, ótrúlega vel mætt og ég þakka Garðbæingum fyrir að koma og Frömurum líka sem mættu.“

„Það þýðir ekkert að spila handbolta svona, það þarf meira bit í þetta og meira tempó eins og við höfum verið að gera á æfingum og annað. Ég held þetta hafi verið meira í kollinum á mönnum, að menn hafi ætlað að vanda sig of mikið.“

Adam Thorstensen var flottur í marki Stjörnunnar í kvöld en markvarslan hefur verið ákveðið vandamál hjá Stjörnumönnum á síðustu misserum.

„Adam er frábær markmaður og er núna á þriðja ári hjá okkur og er alltaf að bæta sig. Hann er núna að átta sig á því núna að það þarf að leggja mikið á sig til að ná langt. Hann hefur möguleika að fara alla leið, landslið, atvinnumennsku og allt þetta. Ég er ánægður með hann en hann þarf náttúrulega bara að halda áfram eins og við allir,“ sagði Patrekur Jóhannesson þjálfari Stjörnunnar við Vísi eftir leikinn í kvöld.

Einar: Vantaði aðeins meiri klókindi

Einar Jónsson var svekktur eftir að Framarar köstuðu frá sér einu stigi gegn Stjörnunni í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

„Hann ver rosalega bolta hér í lokin og svo síðasta markið þeirra, við þurfum að læra af þessu. Við vorum talsvert betri en þeir í þessum leik að mínu mati en við förum með þetta sjálfir,“ sagði Einar Jónsson þjálfari Fram eftir jafnteflið gegn Stjörnunni í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld.

Leó Snær Pétursson jafnaði fyrir Stjörnuna á síðustu andartökum leiksins eftir að Lárus Helgi Ólafsson í marki Fram hafði varið en Framarar misst fremur klaufalega af frákastinu. Lokatölur 24-24 en Framarar geta nagað sig í handarbökin því þeir voru þremur mörkum yfir og tveimur leikmönnum fleiri þegar um þrjár mínútur voru eftir af leiknum.

„Þegar það eru 2-3 sekúndur eftir þá verða menn náttúrulega bara að bíða og taka frákast, við þurfum að læra af þessu því þetta er dýrt. Það er hiti í leiknum og hátt spennustig og við viljum keyra og menn eru innstilltir á það, ég er svo sem ánægður með það, menn vilja alltaf keyra. Það vantaði aðeins meiri klókindi að sitja í horninu og taka frákast,“ sagði Einar við Vísi strax eftir leik í kvöld.

Bæði lið áttu langa kafla í leiknum þar sem þau voru í vandræðum sóknarlega, gerðu mikið af tæknilegum mistökum og misstu boltann klaufalega.

„Ég er sammála, mér fannst þetta bara ekkert sérstakur handboltaleikur að öðru leyti en því að hann var spennandi og margt að gerast. Það var lélegt tempó í þessum leik og höktandi sóknarleikur. Vörn og markvarsla var svo sem í lagi í dag en við getum spilað betur,“ sagði Einar að endingu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira