Rafíþróttir

TripleG: Frístundaleiðbeinandi með yfir 8.000 klukkustundir í CS:GO

Snorri Rafn Hallsson skrifar
Triple G er leikmaður vikunnar í Ljósleiðaradeildinni í CS:GO
Triple G er leikmaður vikunnar í Ljósleiðaradeildinni í CS:GO

Gísli Geir byrjaði að spila Counter Strike: Global Offensive eftir að hann komst í tölvuna hjá eldri bróður sínum og á sérstakar lukkunærbuxur til að spila í.

Leikmaður vikunnar er nýr liður á Vísi þar sem lesendur fá að kynnast einum leikmanni í Ljósleiðaradeildinni í CS:GO í hverri umferð.

Það er hinn  24 ára Kópavogsbúi, Gísli Geir Gíslason, eða TripleG, sem ríður á vaðið, en auk þess að vera frístundaleiðbeinandi er hann leikstjórnandi LAVA í vetur. Gísli Geir nýtur stuðnings fjölskyldunnar á leikvellinum og unir sér vel norðan heiða.

Hvaðan kemur leiknafnið? 

Skammstöfunin mín er GGG of ef ég er að telja rétt þá eru það sennilega þrjú G.

Uppáhalds vopn? 

Gamli góði AK-inn bara.

Hversu mikið spilar þú CS:GO?

 Ég spila auðvitað á hverjum degi mismikið samt en ég veit ekki hvort þið séuð að pæla í hours played hjá mér það er um 8.000 klukkustundir í heildina komið núna.

Hvernig atvikaðist það að þú fórst að spila CS:GO?

Elsti bróðir minn var með CS:S í tölvunni sinni og ég varð bara að spila þennan leik og eftir eitt skipti var ekki aftur snúið.

Hvaða leikmanns lítur þú mest upp til? 

Patrik Lindberg eða f0rest bara vegna þess að hann er síkátur og ég held að hann sé mjög andlega sterkur og með mikinn tilfinningaþroska hann hefur verið minn uppáhalds frá byrjun CS:GO. Í Source var Ex6tTenZ minn uppáhalds bara svona af því að hann var með þeim bestu í þeim leik.

Hvernig kemur þú þér í gírinn fyrir leiki? 

Ég passa mig bara að sofa og borða vel fyrir leik en ekki of nálægt leik, fara í lukkusokka og nærbuxur, spila í treyjunni minni, hita upp mekanískt innan leiks. Það er þá bara vöðvaminnið þá en fyrst og fremst er þetta allt gert til að spennustigið mitt sé rétt stillt þegar kemur að leik og að mér líði vel meðan ég spila. 

Feel good play good.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í CS:GO? 

Ekkert sérstakt sem ég man eftir það hlýtur bara að hafa verið eitthvað glitch einhvern tímann sem mér fannst furðulegt en annars gerist ekkert oft margt skrýtið svosem.

Uppáhalds leikur fyrir utan CS:GO:? 

GeoGuessr.

Hvernig finnst þér best að slappa af: 

Líklegast að fara norður í land heim í sveitina þar sem ég ólst upp og vera í náttúrunni eða innan um sauðféið og hundana þar. Annars bara svona dags daglega þá er það að horfa á eitthvað með kærustunni eða útivera.

Áhugamál utan rafíþrótta? 

Fótbolti.

Hvað er eitthvað sem ekki margir vita um þig? 

Ég hef farið í fallhlífarstökk.

Horfir fjölskyldan þín á leikina? 

Já ég held það allavega mamma og elsti bróðir minn kannski duglegust að því en öll hin vita allavega af þessu og hvar er hægt að horfa.

Hægt er að fylgjast með Gísla Geir, eða TripleG á Instagram, Twitter og Twitch.

Næsti leikur TripleG með liði sínu LAVA fer fram í kvöld klukkan 20:30 en þá mætir liðið Rean og félögum í Þór. 

1. umferð Ljósleiðaradeildarinnar í CS:GO er sem hér segir:

  • TEN5ION – SAGA, þriðjudaginn  13.9 kl: 19:30
  • Þór – LAVA, þriðjudaginn 13.9 kl: 20:30
  • NÚ – Fylkir, fimmtudaginn 15.9 kl: 19:30
  • Ármann – Viðstöðu, fimmtudaginn 15.9 kl: 20:30
  • Dusty – Breiðablik, fimmtudaginn 15.9 kl: 21:30

Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×