Innherji

Ná samkomulagi um fjárfestingu í vetnisframleiðslu fyrir um 20 milljarða

Hörður Ægisson skrifar
HS Orka á og rekur tvær jarðvarmavirkjanir, Orkuverið Svartsengi og Reykjanesvirkjun.
HS Orka á og rekur tvær jarðvarmavirkjanir, Orkuverið Svartsengi og Reykjanesvirkjun.

HS Orka og alþjóðlega orkufyrirtækið Hydrogen Ventures Limited (H2V) hafa náð samkomulagi um orkuverð og aðra skilmála vegna fyrirhugaðrar vetnisframleiðslu á Íslandi sem verður nýtt við framleiðslu metanóls í Auðlindagarði HS Orku. Áætluð fjárfesting er um 150 milljónir evra, jafnvirði um 21 milljarður íslenskra króna.

Orkuþörf H2V mun nema um 60 megavöttum úr jarðhita við framleiðslu á grænu metanóli auk þess sem meirihluti þess koldíoxíðs sem losnar frá vinnsluvæðum HS Orku verður nýtt í ferlinu. Áætlað er að framleiðsla geti hafist um áramótin 2025/2026, að því er segir í frétt á heimasíðu HS Orku, en íslenska orkufyrirtækið er í jafnri eigu lífeyrissjóða og breska sjóðastýringarfélagsins Ancala Partners.

Fyrirtækin skrifuðu undir viljayfirlýsingu í lok síðasta árs og er samkomulagið sem nú hefur verið undirritað því staðfesting á áframhaldandi vinnu fyrirtækjanna að því að koma framleiðslunni á fót.

Meira en 80 prósent af orkunotkun Íslands byggir nú þegar á endurnýjanlegum orkugjöfum, fyrst og fremst jarðhita og vatnsafli. Markviss uppbygging innviða fyrir framleiðslu græns vetnis og metanóls getur, að mati forsvarsmanna H2V, gert Ísland að leiðandi þjóð á sviði endurnýjanlegrar og hreinnar orku með að skipta út jarðefnaeldsneyti í samgöngum fyrir endurnýjanlega orkugjafa.

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, segir að samstarfið við H2V, sem er dótturfélag Climate Change Ventures og staðsett í Bretlandi, hafi verið „mjög gott og þær athuganir sem hafa verið gerðar staðfesta að þær auðlindir sem bjóðast í Auðlindagarðinum passa einstaklega vel við svona framleiðslu. Auk endurnýjanlegrar orku getum við séð H2V fyrir vatni og ekki síst koldíoxíði sem er nauðsynlegt við framleiðslu Metanóls.“

Horacio Carvalho, framkvæmdastjóri H2V sem vinnur nú að orkuverkefnum sem samsvarar 750 milljónum evra í fjárfestingarþörf, segir að frá því að félögin kynntu verkefnið undir lok síðasta árs hafi eftirspurn eftir metanóli sem eldsneytis aukist. „Ísland hefur sett sér metnaðarfull markmið um að draga úr kolefnislosun sinni og við teljum að nýting metanóls í sjávarútvegi geti gegnt lykilhlutverki í því.“

Auk endurnýjanlegrar orku getum við séð H2V fyrir vatni og ekki síst koldíoxíði sem er nauðsynlegt við framleiðslu Metanóls.

HS Orka á og rekur tvær jarðvarmavirkjanir, Orkuverið Svartsengi og Reykjanesvirkjun auk vatnsaflsvirkjunar á Brú í Tungufljóti. Í ársbyrjun 2021 hófust framkvæmdir við stækkun Reykjanesvirkjunar sem er áætlað að verði hægt að taka í gagnið á næsta ári. Stækkunin nemur um 30 megawöttum og er hún sögð styðja vel við stækkun Auðlindagarðsins sem hefur byggst upp í nágrenni HS Orku.

Á síðasta ári námu tekjur HS Orku rúmlega 9,2 milljörðum króna og jukust þær um meira en 600 milljónir frá árinu 2021. Þá tvöfaldaðist hagnaður af rekstrinum í fyrra og var hann samtals um 2.252 milljónir króna eftir skatta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×