Innherji

Stjórn Coripharma setti skráningaráform á ís

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Coripharma er til húsa í Hafnarfirði.
Coripharma er til húsa í Hafnarfirði. Coripharma

Íslenska samheitalyfjafyrirtækið Coripharma, sem hóf sölu á sínu fyrsta lyfi í Evrópu sumarið 2021, er ekki í virkum undirbúningi fyrir skráningu á hlutabréfamarkað eins og staðan er í dag, að því er kemur fram í svari fyrirtækisins við fyrirspurn Innherja. 

Í byrjun árs greindi Innherji frá því að Coripharma áformaði að efna til opins hlutafjárútboðs og skráningar á First North-markaðinn í Kauphöllinni síðar á þessu ári. Nákvæm tímasetning og stærð hlutafjárútboðsins myndu hins vegar ráðast af markaðsaðstæðum.

Á einu og hálfu ári hefur lyfjafyrirtækið sótt samtals 6 milljarða króna í nýtt hlutafjár, annars vegar 2,5 milljarða króna í mars 2021 og hins vegar 3,5 milljarða síðastliðnum mars. Eftir seinni hlutafjáraukninguna varð CP Invest, nýtt félag í eigu Iðunnar framtakssjóðs og lífeyrissjóða, stærsti einstaki hluthafinn með 32 prósenta hlut.

Aðrir stórir hluthafar í Coripharma eru framtakssjóðurinn TFII, sem er í stýringu Íslenskra verðbréfa, BKP Invest, sem er í meirihlutaeigu Bjarna K. Þorvarðarsonar, stjórnarformanns Coripharma, Vátryggingafélag Íslands og Eignarhaldsfélagið Hof, sem er í eigu bræðranna Jóns og Sigurðar Gísla Pálmasona.

Coripharma tapaði 12,5 milljónum evra, jafnvirði 1.760 milljóna króna, á síðasta ári samanborið við 11 milljóna evra tap á árinu 2020. Rekstrartekjur, samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins, námu 9 milljónum evra, eða um 1.270 milljónum króna, og jukust um ríflega 60 prósent milli ára.

Á síðasta ári voru fjögur fyrirtæki skráð á markað; Íslandsbanki og Síldarvinnslan á aðalmarkað en Play og Solid Clouds á First North-markaðinn. Viðskiptablaðið hafði eftir Magnúsi Harðarsyni, forstjóra Kauphallarinnar, í janúar að það yrðu vonbrigði ef skráningar, sem hafa verið einn stærsti drifkrafturinn að baki aukinni þátttöku almennra fjárfesta, yrðu færri í ár en þær voru í fyrra. Það sem af er ári hafa þrjú fyrirtæki verið skráð; Ölgerðin og Nova á aðalmarkað og Alvotech á First North-markaðinn.

Síðan þá hafa markaðsaðstæður versnað til muna, einkum vegna stríðsrekstrar Rússa í Úkraínu og hækkandi vöxtum til að stemma stigu við mikilli verðbólgu beggja vegna Atlantshafsins, og hefur úrvalsvísitala Kauphallarinnar lækkað um tæp 17 prósent frá áramótum.

Þá sagði Magnús í samtali við Innherja í apríl að uppfærsla íslenska hlutabréfamarkaðarins hjá vísitölufyrirtækinu FTSE Russell myndi stórauka innflæði í Kauphöllina og gera skráningu að enn álitlegri kosti.

„Eins og staðan er í dag erum við að telja allt upp í 10 félög sem gætu komið inn á markaðinn á þessu ári eða því næsta,“ sagði Magnús. Á meðal félaga sem hafa verið nefnd í þessu samhengi eru Coripharma, Arctic Adventures, Samkaup, Bluevest Capital og Íslandshótel.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×