Innherji

Coripharma að sækja sér um 3 milljarða og boðar skráningu á markað á árinu

Hörður Ægisson skrifar
Alls starfa um 130 manns hjá Coripharma sem er til húsa í Hafnarfirði. Fyrirtækið tók yfir verksmiðju og þróunareiningu Teva (áður Actavis) fyrir fáeinum árum.
Alls starfa um 130 manns hjá Coripharma sem er til húsa í Hafnarfirði. Fyrirtækið tók yfir verksmiðju og þróunareiningu Teva (áður Actavis) fyrir fáeinum árum. Coripharma

Íslenska samheitalyfjafyrirtækið Coripharma, sem hóf sölu á sínu fyrsta lyfi í Evrópu sumarið 2021, er nú á lokametrunum með að ljúka við hlutafjáraukningu sem nemur vel á þriðja milljarð króna í gegnum lokað útboð.

Samkvæmt heimildum Innherja áformar Coripharma í kjölfarið síðar á árinu að efna til opins hlutafjárútboðs og skráningar á First North-markaðinn í Kauphöllinni hér á landi þar sem félagið hyggst sækja sér frekara fjármagn í reksturinn.

Bjarni Þorvarðarson, stjórnarformaður og einn af stærri hluthöfum lyfjafyrirtækisins, segir í samtali við Innherja að hlutafjáraukningin sem nú standi yfir ætti að klárast í næsta mánuði. Útlit er fyrir að sú fjármögnun muni tryggja félaginu samtals liðlega þrjá milljarða króna sem komi bæði frá nýjum fjárfestum og eins núverandi hluthöfum.

Að sögn Bjarna verður fjármagnið nýtt til að standa undir frekari lyfjaþróun og innri vexti Coripharma. „Það er ánægjulegt að sjá áhuga fjárfesta á félaginu og að þeir séu þá um leið tilbúnir að styðja við uppbyggingu lyfjaiðnaðarins hér á landi,“ segir hann.

Bjarni K. Þorvarðarson er stjórnarformaður og einn af stærri hluthöfum Coripharma.Vísir/fréttir Stöðvar 2.

Fyrirtækið hefur í framhaldinu sett stefnuna á Kauphöllina á þessu ári, með skráningu á First North, en nákvæm tímasetning og stærð hlutafjárútboðsins sem samhliða verður efnt til liggur ekki fyrir. Það mun meðal annars ráðast af markaðsaðstæðum. Það er Kvika banki, sem hefur haft umsjón með fjármögnun félagsins, sem verður ráðgjafi Coripharma við skráninguna á markað.

First North-markaðurinn er einkum hugsaður fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, sem sjá fram á mikinn vöxt, sem vilja skrá hlutabréf sín til viðskipta með einfaldari hætti og minni tilkostnaði en fylgir skráningu á aðalmarkað.

Það er ánægjulegt að sjá áhuga fjárfesta á félaginu og að þeir séu þá um leið tilbúnir að styðja við uppbyggingu lyfjaiðnaðarins hér á landi.

Tvö íslensk lyfjafyrirtæki áforma því skráningu á hlutabréfamarkað hér á landi á árinu. Alvotech, sem vinnur að þróun sjö líftæknilyfja, hefur áður boðað tvíhliða skráningu í Nasdaq kauphöllina í Bandaríkjunum og First North-markaðinn á Íslandi á fyrri árshelmingi 2022 eftir það kláraði fyrir skemmstu um 475 milljóna Bandaríkjadala fjármögnun með samruna við sérhæfða yfirtökufélagið Oaktree Acquisition.

Síðasta fjármögnun Coripharma var í ársbyrjun 2021 þegar félagið kláraði 2,5 milljarða króna hlutafjáraukningu sem var leidd af Iðunni, nýjum framtakssjóði í rekstri Kviku eignastýringar, en helstu hluthafar Iðunnar eru flestir stærstu lífeyrissjóðir landsins. Við það tilefni sagði Jónína Guðmundsdóttir, forstjóri félagsins, að Coripharma myndi verja um 9 milljónum evra, jafnvirði um 1,4 milljarði íslenskra króna á núverandi gengi, í rannsóknir og þróun á samheitalyfjum á þessu ári. Fyrirtækið áætlar að þróa og markaðssetja 5 til 6 samheitalyf árlega.

Starfsfólk Coripharma, sem tók yfir verksmiðju og þróunareiningu Teva (áður Actavis) fyrir fáeinum árum, telur um 130 manns. Gangi áætlanir Coripharma hins vegar eftir mun félagið velta um 75 milljónum evra innan þriggja ára og skapa 260 störf í þekkingargeiranum.

Auk Iðunnar, sem fer með um 19 prósenta eignarhlut, eru stærstu hluthafar félagsins framtakssjóðurinn TFII, sem er í stýringu Íslenskra verðbréfa, BKP Invest, sem er í meirihlutaeigu Bjarna K. Þorvarðarsonar stjórnarformanns Coripharma, Vátryggingafélag Íslands, Snæból og Eignarhaldsfélagið Hof.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.