Golf

Vallarmet og sviptingar á toppnum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sigurður Bjarki Blumenstein jafnaði vallarmetið í Eyjum.
Sigurður Bjarki Blumenstein jafnaði vallarmetið í Eyjum. Mynd/seth@golf.is

Kristján Þór Einarsson, kylfingur úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar, er með tveggja högga forystu fyrir lokadaginn á Íslandsmótinu í golfi sem fram fer á Vestmannaeyjavelli. Sigurður Bjarki Blumenstein jafnaði vallarmetið í Eyjum á hring dagsins.

Birgir Guðjónsson, úr Golfklúbbnum Esju, var með forystuna fyrir daginn en hann lék á tveimur höggum yfir pari vallar í dag og féll niður í fjórða sæti sem hann deilir með þeim Kristóferi Karli Karlssyni, úr GM, og Böðvari Braga Pálssyni, úr GR, en allir eru þeir á þremur undir pari í heildina.

Þar fyrir ofan eru þeir Kristófer Orri Þórðarson, úr GKG, og Sigurður Bjarki Blumenstein, úr GR, á fjórum undir pari. Kristófer lék hrings dagsins á höggi undir pari en Sigurður Bjarki lék manna best á vellinum í dag og fór hringinn á átta höggum undir pari vallar. Hann fékk níu fugla og einn skolla á hringnum, en með spilamennsku sinni jafnaði hann vallarmetið á Vestmannaeyjavelli.

Kristján Þór Einarsson lék næst best í dag en hann fékk átta fugla á hringnum og einn skramba. Hann var því á sex höggum undir pari en það er einnig heildarskor hans, þar sem hann var á pari fyrir daginn.

Kristján er því með tveggja högga forystu fyrir spennandi lokadag á morgun.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.