Innherji

Íslandsbanki tók yfir rekstur gagnavers eftir 344 milljóna króna uppsafnað tap

Hörður Ægisson skrifar
Eigið fé félagsins sem rekur gagnaver á Korputorgi var orðið neikvætt um 116 milljónir þegar það var tekið yfir af Íslandsbanka í árslok 2021.
Eigið fé félagsins sem rekur gagnaver á Korputorgi var orðið neikvætt um 116 milljónir þegar það var tekið yfir af Íslandsbanka í árslok 2021.

Félagið Reykjavík DC, sem starfrækir hátæknigagnaver á Korputorgi, var rekið með tæplega 169 milljóna króna tapi á fyrsta heila starfsári sínu frá því að gagnaverið var tekið í notkun á árinu 2020. Vegna fjárhagsvandræða, sem mátti meðal annars rekja til þess að seinkun varð á opnun gagnaversins, var félagið hins vegar tekið yfir af Íslandsbanka, stærsta lánardrottni sínum, í árslok 2021.

Eigið fé Reykjavík DC var þá neikvætt um 116 milljónir króna, að því er fram kemur í nýbirtum ársreikningi félagsins, og gjaldfallin lán og áfallnir vextir námu um 878 milljónum króna.

Íslandsbanki, sem er í dag eigandi alls hlutafjár í gagnaverinu, vinnur nú að endurskipulagningu á fjárhag fyrirtækisins en Innherji greindi frá því í lok apríl á þessu ári að bankinn væri kominn í einkaviðræður um sölu á félaginu. Um er að ræða innlenda aðila sem njóta stuðnings frá erlendum fjárfestum en salan hefur hins vegar ekki enn klárast á þessum tímapunkti.

Tekjur Reykjavík DC í fyrra námu um 104 milljónum króna borið saman við 62 milljónir árið áður. Uppsafnað tap af rekstri félagsins frá því að það hóf starfsemi á árinu 2020 er um 344 milljónir króna.

Reykjavík DC var samstarfsverkefni Korputorgs ehf., sem er í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, aðaleigenda Ísfélags Vestmannaeyja, Opinna kerfa, og Sýnar, sem fóru hvert með 30 prósenta hlut, ásamt Reiknistofu bankanna sem átti 10 prósent. Samningar um uppbyggingu gagnaversins voru undirritaðir í byrjun árs 2018 og kom þá fram að fyrsti áfangi myndi kosta hátt í milljarð króna.

Í desember 2019 var tilkynnt um að samningar hefðu náðst við Landsvirkjun um afhendingu á allt að 12 MW af orku. Rekstur gagnaversins hófst í kjölfarið á fyrri hluta árs 2020, skömmu eftir að Covid-19 kom til sögunnar, en heimsfaraldurinn hafði töluverð áhrif á reksturinn. Í ársreikningi Reykjavík DC fyrir árið 2020 sagði í skýrslu stjórnar, eins og Innherji hefur áður fjallað um, að heimsfaraldurinn hefði valdið því að seinkun varð á opnun gagnaversins og á sama tíma varð helsti birgir þess gjaldþrota.

„Framkvæmdir við gagnaverið urðu dýrari en áætlanir gerðu ráð fyrir og tekjur voru seinar að koma inn, bæði vegna COVID og sölustarf náði ekki tilætluðum árangri,“ sagði jafnframt í skýrslu stjórnar.

Reykjavík DC tapaði 175 milljónum króna árið 2020 – tekjurnar námu 62 milljónum króna en rekstrarkostnaður og vaxtagjöld 237 milljónum – og í byrjun árs 2021 var staðan orðin sú að félagið gat ekki staðið í skilum á greiðslum af láni frá Íslandsbanka sem stóð í 750 milljónum. Svo fór því að Íslandsbanki tók yfir reksturinn undir árslok 2021.

Gagnaverið, sem spannar fimm þúsund fermetra, uppfyllir svokallaðan Tier III-staðal sem þýðir að það býr yfir nægum varabúnaður til að tryggja algert þjónustuöryggi. Á meðal þeirra sem gera kröfu um þennan staðal eru fjármálafyrirtæki, stjórnvöld, heilbrigðisstofnanir og raunar allir þeir sem vinna með viðkvæm og dýrmæt gögn.

Meirihluti gagnavera á Íslandi ratar hins vegar í öryggisflokkinn Tier I og hafa þau verið nýtt að miklu leyti til rafmyntaframleiðslu. Raforkusamningar sem byggjast á slíkri starfsemi eru jafnan mjög stuttir og Landsvirkjun hefur sagt að fyrirtækið hafi hafnað öllum nýjum beiðnum um raforkukaup vegna rafmynta.

Að undanförnu hafa gagnaverin hins vegar lagt áherslu á að leita til annarra viðskiptavina en þeirra sem eru í vinnslu rafmynta – hlutfallið er sagt núna vera komið undir 50 prósent – og horfa þess í stað til stórra alþjóðlegra fyrirtækja og stofnana sem þurfa á miklu reikniafli að halda.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×