Innherji

Rekstrarhagnaður Vísis tveir milljarðar og hélst nær óbreyttur í fyrra

Hörður Ægisson skrifar
Vísir gerir út fjögur skip í aflamarkskerfinu og tvo báta í krókaaflamarki auk þess að reka einnig saltfiskvinnslu og hátækni bolfiskvinnslu í Grindavík. Á fiskveiðiárinu 2022-2023 eru væntar aflaheimildir félagsins um 15 þúsund þorskígildistonn.
Vísir gerir út fjögur skip í aflamarkskerfinu og tvo báta í krókaaflamarki auk þess að reka einnig saltfiskvinnslu og hátækni bolfiskvinnslu í Grindavík. Á fiskveiðiárinu 2022-2023 eru væntar aflaheimildir félagsins um 15 þúsund þorskígildistonn.

Rekstrarhagnaður (EBITDA) sjávarútvegsfyrirtækisins Vísir í Grindavík, sem er verið að selja til Síldarvinnslunnar fyrir samtals um 31 milljarð króna, nam tæplega 13,4 milljónum evra, jafnvirði um tveggja milljarða íslenskra króna miðað við meðalgengi síðasta árs, á árinu 2021 og jókst um 0,2 milljónir evra frá fyrra ári.

Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Vísis en EBITDA félagsins, sem hlutfall af rekstrartekjum, var um 19,5 prósent og hélst það hlutfall nánast óbreytt á milli ára.

Heildartekjur samstæðu Vísis námu 68,7 milljónum evra og hækkuðu þær lítillega á milli ára þrátt fyrir minna magn til veiða og vinnslu en þorskkvótinn var meðal annars skertur um 13 prósent á fiskveiðiárinu 2021 til 2022.

Hagnaður félagsins eftir skatta tvöfaldaðist hins vegar á árinu 2021 og var tæplega 5,4 milljónir evra, eða liðlega 800 milljónir sé miðað við meðalgengi krónunnar gagnvart evru á síðasta ári. Sá afkomubati kemur meðal annars til vegna lækkunar fjármagnsgjalda, sem voru 2,8 milljónir evra borið saman við 3,4 milljónir evra á árinu 2020, sökum lægra vaxtastigs og niðurgreiðslu skammtímaskulda og þá bókfærði félagið einnig gengishagnað upp á um 600 þúsund evrur á liðnu ári.

Fram kemur í skýrslu stjórnar Vísis að á síðasta ári hafi verið tekið nýtt langtímalán að fjárhæð samtals 70,4 milljónir evra sem var notað til að endurfjármagna önnur eldri lán félagsins. Langtímaskuldir og skuldbindingar sjávarútvegsfyrirtækisins, sem var með yfir 250 manns í vinnu á síðasta ári, stóðu í 89,5 milljónum evra í árslok 2021. Þá nam eigið fé Vísis nam 48 milljónum evra og var eiginfjárhlutfall félagsins um 31,5 prósent.

Arðgreiðsla til hluthafa Vísis vegna rekstrarniðurstöðu síðasta árs er samtals ein milljón evra sem er sama fjárhæð og var greidd út í arð á árinu 2021. Vísir er sem kunnugt er í eigu sömu fjölskyldunnar en Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, er stærsti einstaki hluthafinn með rúmlega 20 prósenta hlut.

Heildareignir samstæðu Vísis námu um 152,5 milljónum evra í lok síðasta árs. Þar voru varanlegar aflaheimildir félagsins – Vísir var með um 2,16 prósent af úthlutuðum kvóta á síðasta fiskveiðiári – bókfærðar á tæplega 91 milljónir evra borið saman við 77 milljónir evra á árinu þar á undan.

Tilkynnt var um það í síðasta mánuði að Síldarvinnslan í Neskaupstað hefði náð samkomulagi um kaup á öllu hlutafé Vísis fyrir 20 milljarða króna. Að teknu tilliti til vaxtaberandi skulda Vísis, sem nema um 11 milljörðum, er heildarkaupverðið um 31 milljarður króna. Greitt verður fyrir hlutinn með bréfum í Síldarvinnslunni, sem var skráð á hlutabréfamarkað fyrir rétt rúmu ári og er með markaðsvirði upp á 176 milljarða, og reiðufé. Þannig er greitt með reiðufé vegna 30 prósent kaupverðs og með hlutabréfum í Síldarvinnslunni vegna 70 prósent.

Miðað við það mun Vísir eignast um 8,5 prósenta eignarhlut í Síldarvinnslunni sem gerir félagið að fimmta stærsta hluthafa útgerðarrisans á eftir Samherja, sem fer með þriðjungshlut, fjárfestingafélaginu Kjálkanes, Samvinnufélagi útgerðarmanna í Neskaupstað og Gildi lífeyrissjóði.

Síldarvinnslan og Vísir eru tvö stór fyrirtæki á íslenskan mælikvarða í sjávarútvegi – aflahlutdeild Síldarvinnslunnar er um 9,4 prósent en í tilfelli Vísis er hún sem fyrr segir um 2,2 prósent – sem hafa sérhæft sig í ólíkum veiðum og vinnslu. Við kaupin aukast þorskígildistonn Síldarvinnslunnar um liðlega helming en félagið hefur einkum verið í veiðum á uppsjávarfiski á meðan Vísir er í botnfiskveiðum og vinnslu.

Verði viðskiptin staðfest af hluthafafundi Síldarvinnslunnar, sem hefur verið boðaður til þann 18. ágúst næstkomandi, og Samkeppniseftirlitinu er útlit fyrir að núverandi fiskveiðiheimildir Síldarvinnslunnar verði lítillega yfir gildandi 12 prósenta viðmiðunarmörkum. Komi til þess hefur félagið sex mánuði til að laga sig að þessum viðmiðum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×