Klinkið

Síldarvinnslan blæs til sóknar og samlegðar

Hörður Ægisson skrifar
Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Síldarvinnslunnar, Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, Baldvin Þorsteinsson, stór hluthafi í Samherja, og Pétur Hafsteinn Lárusson, framkvæmdastjóri Vísis og stærsti hluthafinn með rúmlega 20 prósenta hlut.
Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Síldarvinnslunnar, Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, Baldvin Þorsteinsson, stór hluthafi í Samherja, og Pétur Hafsteinn Lárusson, framkvæmdastjóri Vísis og stærsti hluthafinn með rúmlega 20 prósenta hlut.

Kaup Síldarvinnslunnar á Vísi eru um margt merkileg. Ekki aðeins vegna stærðargráðunnar – heildarkaupverðið nemur 31 milljarði að teknu tilliti til vaxtaberandi skulda að upphæð 11 milljarða – heldur eins að þau eru að meirihluta (70%) fjármögnuð með hlutabréfum í Síldarvinnslunni. Eigendur Vísis munu þannig verða fimmti stærsti hluthafinn í útgerðarrisanum fyrir austan með liðlega 8,5 prósenta hlut þegar viðskiptin klárast.

Aðeins eitt ár er liðið frá því að Síldarvinnslan varð annað sjávarútvegsfyrirtækið til að vera skráð í Kauphöllina – fyrir á markaði var Brim undir stjórn Guðmundar Kristjánsonar. Kostir þess að hafa nú þegar sýnt sig rækilega með því að nýta bréf félagsins sem greiðslumynt til að sækja fram og ná meiri stærðarhagkvæmni sem er íslensku fyrirtækjunum nauðsynleg í harðri alþjóðlegri samkeppni en um 98 prósent íslensks sjávarfangs er selt á erlenda markaði. Stærstu norsku sjávarútvegs- og fiskeldisfélögin velta meira en allur sjávarútvegurinn hér á landi samanlagt.

Nokkrum vikum áður en tilkynnt var um kaup Síldarvinnslunnar, sem er komið með markaðsvirði upp á um 173 milljarða eftir 75 prósenta hækkun á gengi bréfa félagsins frá skráningu, á Vísi hafði félagið fest kaup á rúmlega 34 prósenta hlut í laxeldisfyrirtækinu Arctic Fish Holding fyrir um 15 milljarða króna. Það félag er skráð á markað í Noregi og er eigandi samnefnds laxeldisfélags á Vestfjörðum sem hefur leyfi fyrir 27 þúsund tonna eldi í sjó.

Forstjóri Síldarvinnslunnar, Gunnþór Ingvason, hefur sagst binda miklar vonir við uppganginn í fiskeldi og að félagið sjái tækifæri í auknu samstarfi fiskeldisfyrirtækja á Vestfjörðum. Þrátt fyrir að fiskeldi og hefðbundin útgerð séu í eðli sínu ólíkar atvinnugreinar eru þær báðar að stórum hluta að selja fisk á sömu markaðssvæði og til sömu kaupenda með tilheyrandi mögulegum samlegðaráhrifum fyrir Síldarvinnsluna. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja og stjórnarformaður Síldarvinnslunnar í krafti rúmlega 34 prósenta eignarhlutar sjávarútvegsrisans fyrir norðan, hefur sjálfur bent á að það séu ekki mörg ár í að þrjú af stærstu sjávarútvegsfélögunum á Íslandi, mælt í veltu, verði laxeldisfyrirtæki en í dag eru þau öll að mestu í eigu Norðmanna.

Í báðum tilfellum voru því kaupin í Arctic Fish og á Vísi strategísk ákvarðanir og snúast öðrum þræði um áhættudreifingu auk þess að skapa Síldarvinnslunni fótfestu á nýjum og ört vaxandi markaði – fiskeldi – sem mun vega meira á komandi árum við að búa til ný verðmæti fyrir þjóðarbúið en hinar gamalgrónu veiðar.

Síldarvinnslan og Vísir eru tvö stór fyrirtæki á íslenskan mælikvarða í sjávarútvegi – aflahlutdeild Síldarvinnslunnar er um 9,4 prósent en í tilfelli Vísis er hún um 2,2 prósent – sem hafa sérhæft sig í ólíkum veiðum og vinnslu. Við kaupin aukast þorskígildistonn Síldarvinnslunnar um liðlega helming en félagið hefur einkum verið í veiðum á uppsjávarfiski á meðan Vísir er í botnfiskveiðum og vinnslu.

Í báðum tilfellum voru því kaupin í Arctic Fish og á Vísi strategísk ákvarðanir og snúast öðrum þræði um áhættudreifingu auk þess að skapa Síldarvinnslunni fótfestu á nýjum og ört vaxandi markaði.

Með kaupunum ættu að myndast talsverð tækifæri til hagræðingar. Bæði fyrirtækin starfrækja nú fyrir fjögur bolfiskskip hvort um sig og því má ganga út frá því sem vísu að þeim skipum muni fækka þegar fram í sækir. Þá rekur Vísir hátækni bolfiskvinnslu í Grindavík, sem stjórnendur félaganna hafa sagt að til standi að efla enn frekar með sameiningunni, og fastlega má gera ráð fyrir samlegðaráhrifum þegar vinnslan er sameinuð á einum stað í því skyni að hámarka sem mest afköst hennar. Staðsetning Grindarvíkur, skammt frá alþjóðaflugvelli, auðveldar einnig verulega útflutning á ferskum fiski.

Framlegðin af rekstri Vísis hefur nokkuð lakari en hjá Síldarvinnslunni, meðal annars vegna þyngri skuldsetningar, á undanförnum árum. Augljós tækifæri eru til að ná niður fjármagnskostnaði Vísis, sem var tæplega 500 milljónir á árinu 2020, þegar félagið er orðið hluti af samstæðu Síldarvinnslunnar sem ætti að skila sér í mun hagstæðari lánakjörum.

Kaupendur og seljendur í viðskiptunum, sem voru tilkynnt til Kauphallarinnar sunnudagskvöldið 10. júlí, héldu spilunum mjög þétt að sér. Fáir utanaðkomandi ráðgjafar voru fengnir að viðræðunum – lögmannsstofan LEX var sem fyrr hins vegar lögfræðilegur ráðgjafi Síldarvinnslunnar – eftir því sem næst verður komist, meðal annars ekkert fjármálafyrirtæki. Fjarvera Landsbankans sem ráðgjafi að þessum risastóru viðskiptum hjá viðskiptavini sínum hefur þannig vakið athygli sumra en fyrirtækjaráðgjöf bankans var umsjónaraðili við hlutafjárútboð og skráningu Síldarvinnslunnar í Kauphöllina í maí á liðnu ári.

Jakob Bjarnason, stjórnarformaður Vísis, leiddi viðræðurnar við Síldarvinnsluna fyrir hönd sjávarútvegsfyrirtækisins.

Viðskiptin kláruðust hratt og vel, að sögn kunnugra, þegar helstu aðalleikendurnir að þeim voru búnir ná saman um stóru atriðin um síðustu mánaðarmót. Á meðal þeirra sem léku þar lykilhlutverk var Baldvin Þorsteinsson, sonur Þorsteins Más og stór hluthafi í Samherja, en Jakob Bjarnason, stjórnarformaður Vísis og margreyndur bankamaður eftir störf sín fyrir meðal annars Landsbankann og Kaupþing, leiddi viðræðurnar fyrir hönd sjávarútvegsfélagsins í Grindavík en hann og Þorsteinn Már eru nánir vinir og ná tengsl þeirra langt aftur í tímann.

Líklegt er að kaup Síldarvinnslunnar á Vísi marki aðeins upphafið að frekari samþjöppun í íslenskum sjávarútvegi þar sem fyrirtækin leita leiða til að styrkja samkeppnisstöðu sína gagnvart stærri erlendum keppinautum. Með fyrirsjáanlegum kynslóðaskiptum sem eru að verða á eignarhaldi margra rótgróinna útgerðarfyrirtækja gætum við séð þá þróun gerast hraðar en ella.


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.


Tengdar fréttir

Verðlagning Vísis við samruna inn í Síldarvinnslunna

Forsvarsmenn Vísis og Síldarvinnslunnar virðast hafa náð lendingu um verð sem tekur bæði tillit til rekstrarvirðis fyrirtækisins, sem er töluvert lægra en upplausnarvirði aflaheimilda Vísis, og verðmætis aflaheimilda. Ef til vill er hér komin uppskrift að verðlagningu óskráðra sjávarútvegsfyrirtækja í þeirri samrunahrinu sem þarf að eiga sér stað á næstu árum.


×