Innherji

Kostnaður Festar vegna starfsloka Eggerts um 76 milljónir

Hörður Ægisson skrifar
Samkomulag náðist um starfslok Eggerts Þórs sem forstjóra í byrjun júní síðastliðinn.
Samkomulag náðist um starfslok Eggerts Þórs sem forstjóra í byrjun júní síðastliðinn.

Smásölufyrirtækið Festi, sem rekur meðal annars eldsneytisstöðvar undir merkjum N1 og verslanir Krónunnar og Elko, gjaldfærir hjá sér kostnað sem nemur samtals um 76 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi vegna samkomulags sem stjórn félagsins gerði í byrjun júní vegna starfsloka Eggerts Þórs Kristóferssonar, fráfarandi forstjóra.

Frá þessu er greint í skýrslu stjórnar með nýbirtu árshlutauppgjöri félagsins en Eggerti Þór var óvænt í reynd sagt upp störfum sem forstjóra 2. júní síðastliðinn.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar sama dag kom fram að Eggert hefði sagt starfi sínu lausu hjá Festi frá og með 1. ágúst næstkomandi en síðar sendi stjórn félagsins frá yfirlýsingu þar sem sagði að hún hefði vissulega haft „forgöngu að samtali við forstjóra um starfsloks hans. Við þær aðstæður óskaði forstjóri eftir að fá að segja upp störfum í stað þess að honum yrði sagt upp, með hagsmuni sjálfs síns og félagsins í huga.“

Fram kemur í skýrslu stjórnar með uppgjörinu að félagið hefði staðið á ákveðnum krossgötum, að mati stjórnarinnar, eftir farsælt tímabil uppbyggingar á undanförnum árum og að það hafi verið komið að þeim tímamótum að leitast eftir nýjum forstjóra til að leiða fyrirtækið þegar nýjar áskoranir blasa við.

Ákvörðun stjórnarinnar um að skipta út forstjóranum vakti sem kunnugt er miklar deilur innan hluthafahóps Festar og að lokum ákvað stjórnin, eftir þrýsting sumra stórra hluthafa, að boða til hluthafafundar sem fór fram fyrr í þessum mánuði. Niðurstaða stjórnarkjörs á þeim fundi var að þrír nýir einstaklingar voru kjörnir í stjórnina – Hjörleifur Pálsson, Sigurlína Ingvarsdóttir og Magnús Júlíusson – en þau Guðjón Karl Reynisson og Margrét Guðmundsdóttir héldu áfram sínum sætum í stjórninni. Þá var ákveðið að Guðjón Karl yrði enn stjórnarformaður félagsins.

Árslaun Eggerts í fyrra voru – að meðtöldum hlunnindum og árangurstengdum launagreiðslum – samtals tæplega 59 milljónir króna. Kostnaður Festar vegna starfsloka Eggerts nemur sem fyrr segir 76 milljónum en sú fjárhæð inniheldur einnig laungatengd gjöld sem er um fjórðungur af heildarkostnaðinum. 

Heildartekjur Festi á öðrum ársfjórðungi námu samtals tæplega 30 milljörðum króna og jukust um meira en 23 prósent frá sama tímabili í fyrra. Framlegð af vöru- og þjónustusölu var 7.325 milljónir króna og var framlegðarhlutfallið því um 24,5 prósent, sem er lækkun upp á 0,6 prósentur milli ára.

Hagnaður félagsins fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) jókst um 18,4 prósent og var 2.911 milljónir króna á tímabilinu.

Eggert Þór, fráfarandi forstjóri Festi, segir í afkomutilkynningu að reksturinn á öðrum fjórðungi hafi gengið vel og umfram áætlanir en félagið hefur hækkað EBITDA spá ársins um 400 milljónir, eða í 9.800 til 10.200 milljónir króna.

„Reksturinn á öðrum ársfjórðungi gekk vel og umfram áætlanir okkar. N1 eykur veltu sína og afkomu verulega á milli ára með fjölgun erlendra ferðamanna og auknum umsvifum hjá stórum viðskiptavinum félagsins. Rekstur ELKO og Krónunnar var einnig góður á öðrum ársfjórðungi. Hækkun á eldsneyti og matvöru eykur fjárbindingu í birgðum verulega miðað við sama fjórðung í fyrra, sem er afleiðing stríðsreksturs í Úkraínu og alþjóðlegrar verðbólgu,“ segir Eggert Þór.

Fréttin var uppfærð kl. 07:40.


Tengdar fréttir

Stjórnum ber ekki að lýsa starfslokum forstjóra í smáatriðum

Stjórnum skráðra fyrirtækja ber ekki að hafa samráð við hluthafa um starfslok forstjóra né að rekja í smáatriðum hvernig staðið var að starfslokunum. Þetta segir Helga Hlín Hákonardóttir, meðeigandi hjá ráðgjafafyrirtækinu Strategíu, sem hefur um árabil veitt stjórnum, fjárfestum og hinu opinbera ráðgjöf á sviði lögfræði og stjórnhátta.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.