Handbolti

Breyta Austur-Evrópudeildinni og nú taka aðeins rússnesk og hvít-rússnesk lið þátt

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
SEHA Gazprom League, Austur-Evrópudeildin í handbolta, n-mun aðeins innihalda lið frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi.
SEHA Gazprom League, Austur-Evrópudeildin í handbolta, n-mun aðeins innihalda lið frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi. Vísir/Getty

Austur-Evrópudeildin í handknattleik, SEHA Gazprom League, hefst á nýjan leik í haust, en þó með breyttu sniði. Í stað þess að sterkustu lið flestra Austur-Evrópuþjóða taki þátt munu aðeins lið frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi fá keppnisrétt.

Alls hafa 13 þjóðir átt lið í keppninni. Á seinasta tímabili tóku lið frá sjö þjóðum þátt, en þá tóku lið frá Hvíta-Rússlandi, Króatíu, Ungverjalandi, Norður-Makedóníu, Serbíu, Slóvakíu og Úkraínu þátt. Þá hafa Bosnía og Hersegóvína, Kína, Svartfjallaland, Rúmenía, Rússland og Slóvenía einnig átt fulltrúa í deildinni á undanförnum árum.

Nú verður deildin þó með breyttu sniði eins og áður segir og aðeins lið frá Rússlandi og Hvíta-rússlandi fá að taka þátt. Með þessu eru forsvarsmenn deildarinnar að svara evrópska handknattleikssambandinu, EHF, eftir að lið frá löndunum tveimur voru útilokuð frá þátttöku á mótum á vegum sambandsins vegna innrásar Rússa í Úkraínu.

Átta lið fá þátttökurétt í deildinni, fjögur frá hvoru landi fyrir sig. Rússnesku liðin Chekhov Medvedi, CSKA, Neva og Permeski Medvedi mæta til leiks ásamt Meshkov Brest, SKA-Minsk, Gomel og Masheka frá Hvíta-Rússlandi.

Eins og nafnið SEHA Gazprom League gefur til kynna er helsti bakhjarl deildarinnar rússneska stórfyrirtækið Gazprom.

Enn á þó eftir að klára deildina frá því á seinasta tímabili þar sem hún var sett á ís eftir innrás Rússa. Átta liða úrslitin hefjast um miðjan ágúst og stefnt er á að úrslitahelgin fari fram í byrjun september. Í kjölfarið mun svo ný útgáfa af Austur-Evrópudeildinni hefjast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×