Neytendur

Útskriftarnemar höfðu betur gegn Tripical

Eiður Þór Árnason skrifar
Eldsneytisverð hækkaði umtalsvert frá bókunartíma ferðarinnar fram að brottför til Krítar.
Eldsneytisverð hækkaði umtalsvert frá bókunartíma ferðarinnar fram að brottför til Krítar. Getty/David C Tomlinson

Ferðaskrifstofunni Tripical Travel var óheimilt að hækka verð pakkaferða útskriftarnema til Krítar með vísan til breytinga á eldsneytisverði. Þetta er niðurstaða Neytendastofu sem hefur borist fjöldi kvartana vegna ferðarinnar.

Í ábendingum til stofnunarinnar kom fram að Tripical hafi tuttugu dögum fyrir áætlaða brottför tilkynnt viðskiptavinum sínum um fimmtán þúsund króna verðhækkun. Allar pakkaferðirnar sem ábendingarnar vörðuðu voru þá að fullu greiddar.

Í ákvörðun Neytendastofu kemur fram að meginreglan sé sú að verð samnings um pakkaferð skuli haldast óbreytt. Heimilt sé að gera verðbreytingu meðal annars vegna hækkunar á eldsneytisverði samkvæmt lögum en slíkt sé skilyrðum háð.

Með heimild í bókunarskilmálum

Til þess að verðhækkun sé heimil þarf að vera heimild til verðbreytinga í skilmálum pakkaferðarinnar, tilgreint hvernig verð skuli reiknað út og ferðamanni í samningi veitt sambærileg heimild til verðlækkunar.

Þá skal verðhækkun tilkynnt eigi síður tuttugu dögum fyrir brottför og rökstuðningur og útreikningur hækkunar berast ferðamanni á varanlegum miðli innan sama frests.

Neytendastofa hefur bannað Tripical að hækka verð á umræddri pakkaferð. Verði ekki farið að banninu getur stofnunin beitt fyrirtækið sektum.Vísir/Hanna

Í skilmálum Tripical Travel vegna umræddrar ferðar var félaginu veitt heimild til hækkunar á verði meðal annars vegna breytinga á eldsneytiskostnaði en ferðamönnum ekki veitt heimild til verðlækkunar af sömu ástæðum. Af þeirri ástæðu voru ekki uppfyllt skilyrði laga til hækkunar á verði pakkaferðar og Tripical Travel því óheimilt að hækka verð ferðarinnar, samkvæmt ákvörðun Neytendastofu.

Eldsneytisverð hækkað um 76 prósent

Í svörum Tripical kom fram að hækkunin kæmi til vegna verulegra hækkana á eldsneytisverði sem félagið hefði ekki geta séð fyrir. Heimild til verðhækkunarinnar væri bæði í lögum og skilmálum ferðanna.

Að sögn félagsins var ferðin kynnt nemendum haustið 2021 og hún bókuð í janúar á þessu ári. Alls hafi 315 nemendur bókað sér far og hver greitt 209.990 krónur fyrir sitt pláss. Til hafi staðið að flytja nemendurna með leiguflugi og verð ferðarinnar miðast við aðstæður sem voru uppi þegar ferðin var bókuð. 

Elísabet Agnarsdóttir er annar eigandi Tripical ferðaskrifstofu.Stöð 2

Tripical segir að kostnaður við leiguflug taki ávallt mið af eldsneytisverði á þeim degi sem flogið er og flestir samningar kveði á um að félagið beri viðbótarkostnaðinn ef verð hækki um meira en fimm prósent frá undirritun samnings. Af þeim ástæðum sé Tripical með heimild til verðhækkunar í skilmálum sínum og allir hinna 315 útskriftarnema hafi samþykkt slíkt ákvæði við bókun ferðarinnar.

Í samskiptum sínum við Neytendastofu gerði Tripical grein fyrir verðbreytingum á eldsneyti fyrir viðkomandi verð og sýndi reikninga því til staðfestingar. Að sögn ferðaskrifstofunnar hafði eldsneytisverð hækkað um 76 prósent frá því að ferðin var bókuð í janúar fram að brottför í maí.


Tengdar fréttir

Tripi­cal mun ekki endur­greiða nem­endum MA vegna út­skriftar­ferðar

Ferðaskrifstofan Tripical mun ekki endurgreiða nemendum Menntaskólans á Akureyri vegna útskriftarferðar sem raskaðist vegna heimsfaraldurs. Formaður neytendasamtakanna segir að ferðaskrifstofunni beri að endurgreiða nemendum ferðina. Ferðafélag Menntaskólans á Akureyri hefur sett sig í samband við lögfræðing.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×