Handbolti

Valur fer til Slóvakíu, KA/Þór til Norður-Makedóníu og ÍBV til Grikklands

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Valur, KA/Þór og ÍBV eru fulltrúar Íslands í Evrópubikarkeppni kvenna í handbolta.
Valur, KA/Þór og ÍBV eru fulltrúar Íslands í Evrópubikarkeppni kvenna í handbolta. Vísir/Hulda Margrét

Dregið var í fyrstu umferð Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik í morgun og voru þrjú íslensk lið í pottinum. 

Það voru Valur, KA/Þór og ÍBV sem voru fulltrúar Íslands í drættinum þegar dregið var í morgun og ljóst er að öll liðin eiga fyrir höndum heldur langt ferðalag.

Bikarmeistarar Vals mæta HC DAC Dunajska Streda frá Slóvaíku, KA/Þór mætir norður-makedónska liðinu Gjoche Petrov-WHC Skopje og Eyjakonur mæta O.F.N. Ionas frá Grikklandi.

Fyrsta umferðin verður leikin aðra og þriðju helgina í október. Öll íslensku liðin hefja leik á útivelli, en undanfarin ár hefur allur gangur verið á því hvort liðin leiki bæði heima og að heiman. 

Hafi íslensku liðin betur í viðureignum sínum vinna þau sér inn sæti í 32-liða úrslitum keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×