Skoðun

Niðurskornar Íslandsdætur

Einar Steinn Valgarðsson skrifar

Árið 2020 kom út hjá Sölku falleg og vegleg bók til heiðurs íslenskum afrekskonum og brautryðjendum, sem nefnist Íslandsdætur. Textinn er eftir Nínu Björk Jónsdóttur og myndirnar eftir Auði Ýr Elísabetardóttur. Þótti fjölskyldu minni sérstaklega vænt um umfjöllunina þar um ömmu mína, Jórunni Viðar tónskáld.

Það gladdi mig því í fyrstu í þegar ég sá nýverið í Pennanum Eymundsson að bókin væri komin út á ensku, einnig útgefin af Sölku. Það olli hins vegar nokkrum vonbrigðum að enska útgáfan er umtalsvert rýrari í roðinu og að umfjöllunin um Jórunni ömmu mína er til að mynda ekki í bókinni. Má þó segja að amma sé þar í góðum hóp, því það munar heilum 18 konum á bókunum. Konurnar sem sleppt var í ensku útgáfunni eru eftirfarandi:

Halldóra Guðbrandsdóttir, Látra-Björg, Vilhelmína Lever, Þóra Melsteð, Júlíana Jónsdóttir, Torfhildur Hólm, Ólafía Jóhannsdóttir, Frú Stefanía, Auður Auðuns, Jórunn Viðar, Margrét Guðnadóttir, Erna Hjaltalín, Guðrún Helgadóttir, Sigríður Sigurðardóttir, Sigríður Ásdís Snævarr, Katrín Jakobsdóttir, Vala Flosadóttir og Vilborg Arna Gissurardóttir.

Ástæðan fyrir þessari skerðingu þykir mér líklegust að sé að styttri útgáfa sé talin söluvænlegri. Það að íslenska útgáfan sé í harðspjaldi en sú enska ekki virðist líka styðja þá tilgátu. Engu að síður er þetta leitt að sjá. Hinir enskumælandi lesendur sitja uppi með rýrari bók, auk þess sem þetta er súrt í broti gagnvart öllum þeim góðu konum sem ekki fengu inni í ensku útgáfunni. Þess má svo geta að túristadeildin í Eymundsson er þegar með fjölda bóka sem eru mun þykkari og þyngri en þessi, og seljast þær þó ágætlega. Nú get ég vissulega ekki svarað fyrir erlenda ferðamenn, en hvað sjálfan mig varðar veit ég allavega að ef ég væri á ferðalagi og sæi áhugaverða bók, þá myndi ég síður vilja að hún væri skert í samanburði við frumútgáfuna, og kysi þá fremur meiri fróðleik en minni.

Höfundur er bóksali og þýðandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×