Skoðun

Oln­boga­börn þjóð­fé­lagsins, þá og nú

Magnús Sigurðsson skrifar

Með lögum nr. 64/2010 var samþykkt að nýr Landspítali skyldi rísa við Hringbraut. Lengi hafði verið kallað eftir því að umönnun og aðbúnaður sjúklinga myndi færður til nútímahorfs með byggingu nýs hátæknisjúkrahúss enda húsakostur gamla Landspítalans óhagkvæmur og kominn til ára sinna.

Samkvæmt lýsingu á heimasíðu verkefnisins (www.nlsh.is) er hinu nýja sjúkrahúsi ætlað að „uppfylla nútímakröfur sem gerðar eru til heilbrigðisþjónustu“ og sem sjúkrahús fyrir nýja tíma „standa undir þeirri ábyrgð að vera sjúkrahús allra landsmanna“. Það er þó ljóst að Landspítalinn nýi mun aldrei geta staðið undir þeirri ábyrgð sinni, af einfaldri en dapurlegri ástæðu.

Sjúkrahús næstum allra landsmanna

Jarðvinnu vegna byggingaráformanna lauk vorið 2020 og uppsteypa spítalans hófst þá um veturinn. Það var mörgum fagnaðarefni að framkvæmdir skyldu loksins hafnar við þetta þjóðþrifaverkefni, eftir áralangar deilur um staðsetningu, hönnun og fyrirkomulag hins nýja spítala. En árið 2021 er engu líkara en menn hafi hrokkið upp við vondan draum. Þá um sumarið sendi Félag íslenskra sérnámslækna í geðlækningum frá sér yfirlýsingu um byggingaráformin og benti á að hvergi í hinni 80 milljarða króna áætlun væri gert ráð fyrir uppbyggingu á læknisþjónustu fyrir geðsjúka. Væri þó ítrasta ástæða til enda húsnæðisvandi geðsviðs Landspítalans alvarlegur og langvarandi. Í yfirlýsingunni segir að undanfarin ár hafi þingmenn keppst um að leggja áherslu á geðheilbrigðismál og mikilvægi geðheilsu. En nú sé sýnt að orðum fylgi ekki gjörðir. Húsakostur geðþjónustunnar – á Kleppi, sem sé ríflega aldargömul bygging, og á geðdeildinni við Hringbraut, sem byrjað var að reisa árið 1974 – sé svo úr sér genginn að bata sjúklinga sé beinlínis teflt í voða. Engu að síður sé hvergi reiknað með því að geðsviðið og skjólstæðingar þess muni hluti hins nýja þjóðarsjúkrahúss.

Í ljósi þess að árið 2013 hafði embætti landlæknis ráðist í heildarúttekt á geðsviði Landspítalans vekur úthýsingin síst minni furðu. Í skýrslunni segir að húsnæði sé víða ábótavant og það standist ekki alltaf nútímakröfur. Þá kemur fram að starfsmenn telji „niðurlægjandi fyrir sig og sjúklingana að vinna og dvelja í niðurníddu umhverfi“ (álits sjúklinganna sjálfra virðist ekki hafa verið leitað). Í kjölfar úttektarinnar benti landlæknir á 20 atriði sem betur mættu fara í starfi og þjónustu geðsviðsins. Það þarf þó að lesa lengi áður en kemur að húsnæðismálunum. Ofar á úrbótalista landlæknis er sem dæmi að „athuga hvort auka þurfi starfshlutfall gæðastjóra enn frekar vegna umfangs starfa hans“ (6. ábending); að „meta tölvukost og aðgengi starfsfólks að tölvum“ (8. ábending) og að „vinna markvisst að því að bæta starfsanda á sviðinu“ (16. ábending). Þá virðist landlækni sérlega umhugað um tölvukost geðsviðsins því sú ábending er ítrekuð í 19. tillögu embættisins: „Tryggja að starfsfólk hafi viðunandi vinnuaðstöðu og tölvubúnað.“ Það er ekki fyrr en í 20. og síðustu ábendingu sem vikið er að húsakostinum: „Gera nauðsynlegar úrbætur á húsnæði og húsbúnaði sem fyrst.“ En skömmu síðar segir í skýrslunni – og hugsanlegt að einhverjir hafi hnyklað brýrnar við þau orð: „Ekki fór fram sérstök úttekt á húsnæði en athugasemdir gerðar þar sem ástæða þótti til.“

Gagnrýni fagfólks

Aðrir áttu eftir að koma slíkum athugasemdum á framfæri með skýrari og skilmerkilegri hætti en landlæknir í skýrslu sinni. Árið 2021 birti Karl Reynir Einarsson, formaður Geðlæknafélag Íslands, til að mynda grein sína „Byggjum nýtt geðsjúkrahús“. Þar segir um geðdeildarhúsið við Hringbraut:

Tíminn hefur ekki farið ljúfum höndum um geðdeildina við Hringbraut, það þekkja allir sem þangað hafa komið og þeir sem þar vinna. Dimmir, þröngir gangar einkenna húsnæðið og það hefur yfir sér sterkan stofnanablæ og viðhald ekki verið gott. Sumir þurfa að deila herbergi með öðrum. Hvaða áhrif ætli svona aðstæður hafi á líðan og bata þeirra sem leggjast inn á geðdeild á sínum erfiðustu stundum? Svarið liggur í augum uppi.

Í grein sinni „Þjóðin þarf nýja geðdeild“ nokkrum mánuðum síðar tóku þær Halldóra Jónsdóttir og Lára Björgvinsdóttir í sama streng, en báðar höfðu starfað árum saman sem geðlæknar á geðdeild Landspítalans:

Þá verður ekki hjá því komist að benda á að öll þau hús sem hýsa geðþjónustu Landspítala eru gömul, úr sér gengin og sum eru einfaldlega ónýt. [...] Húsakosturinn eins og hann leggur sig hefur ekki fengið viðeigandi viðhald í gegnum tíðina og því fylgir ýmiss konar vandi, til dæmis snjóar inn á sjúklinga og starfsfólk í vetrarveðrum og mygla hefur greinst í sumum húsanna, nokkuð sem seint telst heilsubætandi. Þjónusta við sjúklinga hefur liðið fyrir þetta ástand.

Benda greinarhöfundar auk þess á að geðdeildin við Hringbraut sé umkringd bílastæðum og umferðarþungum götum „og standi í raun á bílastæði sjúkrahússins“. Þá sé ástandið á Kleppi ekki björgulegra:

Aðstaða til afþreyingar er af skornum skammti, helst sjónvarp, hugsanlega handavinna eða spil. Aðstaða til útiveru er enn bágbornari og í sumum tilfellum er ekki hægt að hleypa fólki út svo dögum skiptir þar sem ekki eru örugg svæði til útiveru. Hefur geðdeildin fengið ákúrur vegna þess frá pyntinganefnd Evrópuráðsins, sem telur þetta réttilega brot á mannréttindum. Við fullyrðum bæði út frá reynslu og rannsóknum að þrengri geðdeildir þar sem ekki er beint aðgengi að garði/útisvæði auka líkur á spennu, óróleika og ofbeldisatvikum og um leið því að sjúklingar séu í kjölfarið beittir þvingunum.

Grein þeirra Halldóru og Láru birtist í kjölfar áðurnefndrar yfirlýsingar Félags sérnámslækna í geðlækningum. Í henni hafði húsakostinum almennt verið lýst svo:

Í gegnum árin hefur húsnæði geðdeilda Landspítalans fengið litlar úrbætur. Húsnæðið einkennist af þröngum göngum, gráum steinveggjum, óheyrilegum fjölda tvíbýla, gegndræpum gluggum, afar takmörkuðu aðgengi að útisvæði svo ekki sé minnst á reykingarlykt þegar gengið er framhjá reykherbergjum sem virðast öll skorta viðunandi loftræstingu.

Yfirlýsingin vakti talsverða athygli og var fjallað um efni hennar í fjölmiðlum. Um Klepp var sagt að húsakynnin einkennist af „æpandi gulum lit“ á lofti, hurðum og innréttingum. Þennan lit hefði einn sjúklinga kallað „geðrofsgulan“ og lagt fram formlega kvörtun enda vitað mál að gulur litur í miklu magni hefði slæm áhrif á andlega líðan. Þá sé mikið um gluggalaus rými og sumir gangar spítalans svo þröngir að fólk geti varla mæst. Manda Jónsdóttir, deildarstjóri sérhæfðu endurhæfingardeildarinnar á Kleppi, lýsti afleiðingunum af aðstöðuleysinu í viðtali:

Þetta getur skapað vissa spennu, að fólk sé saman í þessu þrönga rými í lengri tíma. Þetta getur valdið álagi á deildinni, álagi í samskiptum og félagslegum þrýstingi milli sjúklinga. Sem veldur því að þá þarf kannski að biðja fólk um að fara inn á herbergi. Þetta getur ýtt undir alls konar nauðung sem maður vill síður vera að beita.

Að sögn Möndu hafði þó orðið umtalsverð breyting til batnaðar með tilkomu afgirts útisvæðis fyrir nokkrum árum, eftir fyrrnefndar ákúrur frá pyntinganefnd Evrópuráðsins, sem hafði bent íslenskum heilbrigðisyfirvöldum á að það væri réttur sjúklinga að komast út undir bert loft. Í áðurnefndri skýrslu landlæknis má lesa hvernig reynt hafði verið að finna bráðabirgðalausn á þeim mannréttindabrotum á sínum tíma:

Enginn garður fylgir deildinni en hins vegar hefur verið útbúið afdrep á þaki bílskúrs sem hugsað var sem útivistaraðstaða fyrir sjúklinga deildarinnar en þetta er óhentug aðstaða og beinlínis hættuleg.

Á móti kemur að með tilkomu hins nýja útivistarsvæðis reyndist nauðsynlegt að fórna svæði innandyra og útgönguleiðir mættu vera betri, að sögn Möndu Jónsdóttur – sem og útsýnið: „Við erum vissulega við sjóinn, en gámarnir [á gámabryggju Eimskips] skyggja á. Það fer eftir því hvort það er góðæri eða ekki hversu margir gámarnir eru.“

Auðvitað umhugsunarefni“

Aðspurð haustið 2021 hvers vegna geðdeildin hefði orðið útundan í skipulagi hins nýja þjóðarsjúkrahúss svaraði þáverandi heilbrigðisráðherra því einu til að það væri „auðvitað umhugsunarefni“. Hins vegar lægi „alveg fyrir“ að ný geðdeild yrði ekki hluti af þeim meðferðarkjarna sem nú væri í uppbyggingu við Hringbraut „í samræmi við þær áætlanir sem hafa legið fyrir hér um árabil.“ Spurð hvenær mætti vænta nýrrar geðdeildar sagðist ráðherrann ekki geta svarað því. Hafði Félag íslenskra sérnámslækna í geðlækningum þó ítrekað í lokaorðum yfirlýsingar sinnar hversu „brýn þörf“ væri á „að hefja undirbúning nýrrar geðdeildar sem allra fyrst. Skjólstæðingar okkar, aðstandendur þeirra og starfsfólk á geðsviði væntir þess og á það skilið.“ Að sú brýna þörf hafi komið ráðherra í opna skjöldu, og engin áform uppi um að ráða bót á aðstöðuleysinu, er „auðvitað umhugsunarefni“ út af fyrir sig.

Að öllu þessu sögðu munu þó fáir efast um nauðsyn þess að ráðist sé í úrbætur á húsnæðisvanda íslenskrar geðheilbrigðisþjónustu. Þeim mun furðulegra er að í öll þau ár sem rætt var um hvernig hið nýja þjóðarsjúkrahús mætti sem best „standa undir þeirri ábyrgð að vera sjúkrahús allra landsmanna“ hafi sá alvarlegi og viðvarandi vandi aldrei komist á teikniborðið. Aldargamlar byggingar sem hefur verið illa haldið við, dimmir gangar, mygla, umferðarþungi, þrengsli, gluggaleysi, tvíbýli, „geðrofsvaldandi“ litaval, skortur á afþreyingu og einkasalernum, reykingarlykt, útivist á bílskúrsþökum inni á miðju athafnasvæði, húsnæði sem lekur og snjóar inn um – að ógleymdum mannréttindabrotum sem stappa nærri pyndingum: því miður hefur íslenskt heilbrigðiskerfi um árabil búið með svo forkastanlegum hætti að þeim sem leita sér lækninga vegna andlegra meina, þetta er veganesti þeirra sem kljást við geðrænar áskoranir þegar hið langa og stranga bataferli hefst. Þær Halldóra Jónsdóttir og Lára Björgvinsdóttir höfðu því ríka ástæðu til að tjá sig skýrt og skorinort í niðurlagsorðum fyrrnefndrar greinar:

Við förum fram á það við stjórnvöld að skjólstæðingar geðþjónustu Landspítala fái á sínum erfiðustu stundum einnig að njóta umhverfis sem er heilsueflandi og græðandi fyrir sál og líkama eins og aðrir skjólstæðingar spítalans. Að þar sé tækifæri til einkalífs, með persónulegum rýmum sem eru rúmgóð og björt. Að þar sé beint aðgengi í garð frá öllum deildum þar sem inniliggjandi sjúklingar dvelja. Að þar séu bjartar dagstofur og rými fyrir slökun og hreyfingu. Við krefjumst þess að strax verði hafist handa við undirbúning byggingar nýrrar geðdeildar.

Samhliða þessum brýningarorðum er vert að muna að kannanir sýna að andlegri heilsu ungmenna hefur hrakað á síðast liðnum árum. Á sama tíma hefur geðlyfjanotkun aukist. Því miður munu margir úr þessum hópi þurfa að reiða sig á þjónustu Landspítalans í framtíðinni. Í nýlega samþykktri aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum er þó hvergi minnst á uppbyggingu á húsakosti geðþjónustunnar. Og þegar málið var borið undir landlækni haustið 2021 gáfu viðbrögðin ekki tilefni til bjartsýni:

Húsnæði geðdeildar er barn síns tíma og brýnt að skoða hvernig það verður leyst til framtíðar. En þangað til finnst mér að það væri hægt að gera upp þessa deild ekki með miklum tilkostnaði og breyta litum og þess háttar.

Af þessum „uppbyggingaráformum“ að dæma kynni einhver að spyrja hvort embætti landlæknis hafi í raun meiri áhyggjur af tölvubúnaði geðsviðsins en aðbúnaði skjólstæðinga þess.

Mismunun eftir sjúkdómsflokkum“ þá og nú

Nú þegar ljóst er að læknisþjónustu við geðsjúka er ekki ætlaður staður innan hins nýja þjóðarsjúkrahúss er lærdómsríkt að líta til baka og rifja upp hvaða hugmyndafræði bjó að baki þegar geðdeildin við Hringbraut reis á sínum tíma. Því endaþótt tíminn hafi ekki farið mjúkum höndum um þá byggingu var hún talin mikið framfaraskref í upphafi. Fyrsta skóflustungan var tekin í ársbyrjun 1974 og af því tilefni efnt til kaffisamsætis þar sem ýmsir framámenn tóku til máls, þeirra á meðal Magnús Kjartansson heilbrigðisráðherra. Um hvers vegna það hefði dregist úr hömlu að ráða bót á því aðstöðuleysi í umönnun geðsjúkra sem þá ríkti var ráðherrann hreinskilinn:

Þessi mikli skortur á aðstöðu fyrir geðsjúka verður tæpast skýrður með öðru en því, að enn lifi með okkur nokkrir fordómar gagnvart geðveiki og tómlæti um hag þeirra sem hún þjáir. Má það heita næsta furðulegt þegar tillit er tekið til þess hve margir eru geðsjúkir og hve margir eru aðstandendur geðsjúkra. Menn deila að vísu um tíðni geðsjúkdóma, en flestir virðast hallast að því að 20—25% manna eigi á hættu að veikjast það mikið af geðrænum kvilla einhvern tíma á ævinni að leita þurfi sérfræðiaðstoðar.

Í vígreifri ræðu við sama tækifæri boðaði Helgi Tómasson prófessor og formaður byggingarnefndarinnar að dagar slíkra fordóma og tómlætis væru liðnir. Með tilkomu nýrrar geðdeildar, sem væri nú í fyrsta sinn „áföst“ sjálfu þjóðarsjúkrahúsinu, myndi ekki lengur gerður sami greinarmunur og fyrr á andlegum og líkamlegum kvillum, oft með alvarlegum afleiðingum:

Í dag eygjum við virkilega þann tíma, að útskúfun hinna geðsjúku og mismunun sjúklinga eftir sjúkdómsflokkum muni hverfa. Með tilkomu geðdeildar Landspítalans munu sjúklingar, sem þurfa á geðlæknismeðferð að halda, væntanlega fá mjög bætta aðstöðu. Þeir komast fyrr til læknis en áður var, ekki aðeins vegna þess, að sjúkrahúsrými hefur aukist, heldur einnig vegna þess, að þeir munu fyrr leita aðstoðar á sjúkrahúsi, þegar þeir geta snúið sér til sama sjúkrahúss og aðrir sjúklingar. Það hefur háð mörgum, að þurfa að leita til einangraðs sjúkrahúss, sem fólk hefur oft veigrað sér við að leita til fyrr en fokið væri í flest skjól og þá jafnvel um seinan.

Í ræðu sinni getur Helgi þess að geðsjúklingar hafi löngum „átt sér fáa formælendur og þarfir þeirra mætt heldur takmörkuðum skilningi. Þeir hafa verið hálfgerð olnbogabörn þjóðfélagsins.“ En nú séu runnir upp nýir tímar. Og til marks um eldmóðinn sem ríkti í brjóstum manna þennan napra janúardag má hafa hin bröttu lokaorð í ræðu formanns byggingarnefndarinnar:

Sjúklingarnir, aðstandendur þeirra og allir sem vinna að geðheilbrigðismálum, fagna þeim áfanga, sem nú hefur náðst. Allir þessir aðilar munu lengi minnast þeirra ráðherra, ríkisstjórnar og Alþingis, sem urðu sammála um að hefja framkvæmdir við geðdeild Landspítalans þann 28.1. 1974 og binda þar með endi á einangrun geðsjúklinga og fordóma þá, sem þeir hafa orðið að búa við.

Tæpast hefði fáa grunað að aðeins hálfri öld síðar yrði aftur skilið á milli „andlegra“ og „líkamlegra“ sjúklinga með því að slíta geðheilbrigðisþjónustuna frá annarri starfsemi hins nýja Landspítala sem nú rís sunnan við Hringbraut. Sú „mismunun sjúklinga eftir sjúkdómsflokkum“ sem Helgi Tómasson fagnaði í ársbyrjun 1974 að myndi senn tilheyra fortíðinni hefur því í raun verið tekin upp að nýju. Og ekki reyndust sannspá þau orð hans að með skóflustungunni þennan janúardag yrði bundinn endi á „einangrun geðsjúklinga og fordóma þá, sem þeir hafa orðið að búa við.“ Þvert á móti, þá er margt sem bendir til þess að geðsjúkir séu enn sömu „olnbogabörn þjóðfélagsins“ og fyrr.[i]

Höfundur er rithöfundur.


[i] Hér má meðal annars nefna nýlega grein þeirra Héðins Unnsteinssonar og Sveins Rúnars Haukssonar, „Hættum að brjóta lög á fólki með geðrænar áskoranir“.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×