Viðskipti innlent

Controlant dreifði bólu­efnum um allan heim og tí­faldaði tekjurnar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Gísli Herjólfsson er forstjóri Controlant.
Gísli Herjólfsson er forstjóri Controlant. VÍSIR/VILHELM

Íslenska hátæknifyrirtækið Controlant óx gríðarlega á síðasta ári. Tekjur félagsins námu tæpum níu milljörðum króna, sem er tíföldun á milli ára.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu þar sem sagt er frá aðalfundi félagsins og ársreikningi fyrir síðasta ár.

Þar segir að tekjur félagsins hafi verið rúmar 68 milljónir dollara, tæpir níu milljarðar króna.

Rekstrarhagnaður félagsins nam 24 milljónum dollara eða um þremur milljörðum króna.

Alls var hagnaður félagsins á síðasta ári 10,6 milljónir dollara eða 1,4 milljarðar króna. Er það verulegur viðsnúningir á milli ára þegar félagið tapaði 10,2 milljónum dollara.

Starfsfólki fjölgaði um 225 á árinu og starfa nú um 370 manns hjá félaginu, þar af um 300 á Íslandi.

„Mikill tekjuvöxtur og vaxandi umsvif skýrast að stærstum hluta af þjónustu við lyfjafyrirtækið Pfizer, sem notar lausnir frá Controlant við dreifingu Covid-bóluefna um allan heim. Lausnir Controlant rauntímaskrá m.a. hitastig, staðsetningu og framgang í flutningi og greina frávik, svo bregðast megi við í rauntíma til að tryggja gæði, rekjanleika og lágmarka tjón og sóun. Alls kom Controlant að dreifingu og geymslu 3,5 milljarða bóluefnaskammta frá Pfizer á síðasta ári,“ segir í tilkynningu Controlant.

Einnig var greint frá því að fjárhagsstaða félagsins væri sterk og að erlendir fjárfestir sýni félaginu áhuga.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.