Handbolti

Tvöfaldir Evrópumeistarar settir í bann

Sindri Sverrisson skrifar
Aðeins þrjú ár eru síðan Vardar varð Evrópumeistari í annað sinn en nú má liðið ekki taka þátt í Meistaradeild Evrópu.
Aðeins þrjú ár eru síðan Vardar varð Evrópumeistari í annað sinn en nú má liðið ekki taka þátt í Meistaradeild Evrópu. EPA-EFE/SASCHA STEINBACH

Handknattleikssamband Evrópu, EHF, tilkynnti í dag að norður-makedónska meistaraliðið Vardar mætti ekki taka þátt í Evrópukeppnum á næstu leiktíð.

Vardar hefur síðastliðinn áratug verið á meðal helstu stórvelda í evrópskum handbolta og á árunum 2017-2019 komst liðið þrjú ár í röð í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu, og varð tvívegis Evrópumeistari.

Ástæðan fyrir banninu er fjárhagsvandræði Vardar. Í tilkynningu frá EHF segir að ákvörðun um bannið hafi verið tekin eftir nærri tveggja ára tilraunir EHF til að sjá til þess að Vardar gerði upp skuldir sínar. Félagið hafi hunsað að greiða samningsbundnum leikmönnum laun.

Í tilkynningu frá EHF segir jafnframt að allt hafi verið reynt til að Vardar gæti áfram keppt í sterkustu keppni Evrópu, með miklum bréfaskriftum, einkasamtölum og tímaáætlunum, en að forráðamenn Vardar hafi sífellt dregið lappirnar eða jafnvel ekki svarað. Þá hafi greiðslur aðeins verið greiddar að hluta.

Það var því einróma ákvörðun framkvæmdastjórnar EHF síðastliðinn föstudag að Vardar gæti ekki fengið keppnisleyfi fyrir næsta tímabil og fær félagið endurgreidd þau gjöld sem það hafði þó lagt fram í von um keppnisleyfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×