Körfubolti

Real Madrid ekki í vandræðum með Barcelona í leik 3

Atli Arason skrifar
Brandon Davies, leikmaður Barcelona, og Gabriel Deck, leikmaður Real Madrid, í baráttu um boltann.
Brandon Davies, leikmaður Barcelona, og Gabriel Deck, leikmaður Real Madrid, í baráttu um boltann. Getty Images

Real Madrid er aftur komið í bílstjórasætið um spænska meistaratitilinn í körfubolta eftir 81-66 sigur á Barcelona í kvöld. Real vann alla fjóra leikhlutana í leiknum í kvöld og leiðir einvígið 2-1.

Real byrjaði betur á heimavelli og vann fyrsta leikhluta 21-16. Heimamenn bættu svo um betur í öðrum leikhluta og komust mest í 10 stiga forystu þegar skammt var til leikhlés. Barcelona gerðu þó síðustu þrjú stig leikhlutans og staðan í hálfleik var 46-39, Real í vil.

Barcelona tókst mest að minnka muninn niður í fimm stig í þriðja leikhluta en nær komust gestirnir ekki. Real Madrid var komið í 13 stiga forskot áður en þriðji leikhluti kláraðist, 66-53. Fjórði leikhluti var sá jafnasti í leiknum en heimamenn unnu hann líka, mest fór munurinn í 19 stig en minnst í 13 stig. Að lokum unnu heimamenn í Real Madrid þægilegan 15 stiga sigur, 81-66.

Stigaskor Real dreifðist vel yfir liðið en 11 af 12 leikmönnum liðsins komust á blað. Kyle Kuric, leikmaður Barcelona var þó stigahæsti leikmaður vallarins með 15 stig en Kuric tók einnig tvö fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×