Viðskipti innlent

Fimm milljarða fjár­festing til málm­leitar á Græn­landi

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Frá einu af leitarsvæðum AEX Gold á Suður-Grænlandi
Frá einu af leitarsvæðum AEX Gold á Suður-Grænlandi Mynd/AEX Gold.

Nokkrir stærstu auðlinda- og vogunarsjóðir heims munu taka þátt í fimm milljarða króna fjárfestingu í leyfum AEX Gold á Suður-Grænlandi til að leita að og vinna efnahagslega mikilvæga málma, svo sem kopar, nikkel og aðra svokallaða tæknimálma. 

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá AEX Gold en fyrirtækið var stofnað árið 2017 með megináherslu á gullleit og -rannsóknir á Grænlandi. Eldur Ólafsson er stofnandi og framkvæmdastjóri AEX Gold sem mun taka upp nýtt nafn á aðalfundi félagsins 16. júní næstkomandi, Amaroq Minerals.

Samkvæmt tilkynningu hefur AEX Gold gert samkomulag við ACAM Investments um fjármögnun á rannsóknum og vinnslu málmanna næstu þrjú til fimm árin en auðkýfingarnir Louis Bacon og Tim Leslie standa á bakvið sjóðinn. Í heildina sé framlag AEX og ACAM metið á um 4,6 milljarða króna og gert ráð fyrir því að stórir fjárfestar komi að verkefninu á síðari stigum.

Í tilkynningu segir að þróunar og vinnsluleyfin séu í heildina sjö talsins, sem liggi öll á belti frá Kanada til Skandinavíu og í gegnum Grænland. Megi finna stórar námur á þessu svæðið til að vinna fyrrgreinda málma.

Ísland í lykilhlutverki orkuskipta

Fyrirtækið segir Ísland munu leika lykilhlutverk í vinnslu þeirra málma sem þurfi til orkuskipta.

„AEX er að skoða hvernig skandinavískum og íslenskum fjárfestum verður gefið færi að taka þátt í verkefnunum á Grænlandi, sérstaklega þar sem stór partur af þjónustunni mun koma frá Íslandi,“ segir í tilkynningu.

Eins sé mikilvægt að tryggja Íslendingum aðgang að auðlindum sem þessum.

Eldur Ólafsson, framkvæmdastjóri AEX, segist afar ánægður með samstarf við ACAM á leyfissvæðum þeirra.

„Þessi samvinna gerir okkur kleift að hraða rannsóknum og vinnslu og koma þessum mikilvægu málmum fyrr inn í hagkerfi heimsins. Samkomulagið gerir okkur einnig kleift að kanna stærra svæði til að finna meira af slíkum málmtegundum.“

Eldur Ólafsson, stofnandi og framkvæmdastjóri AEX Gold.Vísir/Egill

Hann segir hinn vestræna heim skorta efnahagslega mikilvæga málma til að knýja orkuskiptin.

„Sviptingar í alþjóðamálum hafa sett afhendingaröryggi á þessum málmum í mjög skarpan fókus og Suður-Grænland er eitt af fáum svæðum innan OECD sem enn er mögulegt að vinna þessa mikilvægu málma. Rannsóknarvinna okkar hingað til hefur styrkt okkur í þeirri trú að á Suður-Grænlandi sé að finna umtalsvert magn þessara málma.” sagði Eldur að lokum.


Tengdar fréttir

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.