Körfubolti

Frá­bært ef ég get verið fyrir­mynd fyrir unga feður

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jayson Tatum, leikmaður Boston Celtics og faðir.
Jayson Tatum, leikmaður Boston Celtics og faðir. Ezra Shaw/Getty Images

Jayson Tatum, stjörnuleikmaður Boston Celtics í NBA deildinni, segir það frábært ef hann getur verið fyrirmynd fyrir unga feður.

Hinn 24 ára gamli Tatum hefur verið í NBA deildinni frá árinu 2017. Hann lét strax til sín taka og nú fer ekki á milli mála að um er að ræða einn besta leikmann deildarinnar í dag. Tatum er stór ástæða þess að Boston Celtics er loks komið aftur í úrslitaeinvígi deildarinnar en liðið mætir Golden State Warriors í þriðja leik liðanna í nótt.

Skömmu eftir að Tatum kom inn í deildina varð hann faðir. Þann 6. desember 2017 eignaðist hann soninn Jayson Tatum Junior eða einfaldlega Deuce eins og hann er nær alltaf kallaður. 

Í viðtali nýverið fór Tatum yfir það hvernig sonur hans hefur hjálpað honum undanfarin ár, haldið honum einbeittum og í raun gert hann að betri manni.

Hann viðurkenndi einnig að það hefði hins vegar verið erfitt að verða faðir aðeins 19 ára gamall. Tatum sér þetta þó jákvæðum augum og vonast til að geta haft áhrif á aðra unga feður.

„Ef ég er fyrirmynd fyrir aðra unga feður út í heimi þá er það frábært. Ég held að við þurfum fleiri slíkar fyrirmyndir. Við þurfum einfaldlega að fleiri feður séu til staðar,“ sagði leikmaðurinn nýverið en hann og móðir Deuce, Toriah Lachell, eru ekki saman í dag.

Það er hins vegar ljóst að Tatum leggur sig allan fram við að vera góður faðir sem og góður körfuboltamaður. Sem stendur virðist það ganga nokkuð vel og hver veit nema Deuce geti fagnað NBA meistaratitli með pabba sínum fyrr en síðar.

Staðan í einvígi Boston Celtics og Golden State Warriors í úrslitum NBA deildarinnar er 1-1 fyrir þriðja leik liðanna í kvöld. Upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 00.25 á Stöð 2 Sport 2 og leikurinn sjálfur klukkan 01.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×