Innherji

Stærsti einkafjárfestirinn selur sig út úr Íslandsbanka

Hörður Ægisson skrifar
Eftir útboð ríkissjóðs fyrr á þessu ári var útgerðarfélagið Jakob Valgeir í hópi stærstu hluthafa Íslandsbanka. Um miðjan síðasta mánuð var félagið skráð fyrir rúmlega eins prósenta hlut sem var metinn á rúmlega 2,5 milljarða.
Eftir útboð ríkissjóðs fyrr á þessu ári var útgerðarfélagið Jakob Valgeir í hópi stærstu hluthafa Íslandsbanka. Um miðjan síðasta mánuð var félagið skráð fyrir rúmlega eins prósenta hlut sem var metinn á rúmlega 2,5 milljarða. Vísir/Vilhelm

Útgerðarfyrirtækið Jakob Valgeir ehf. í Bolungarvík hefur á síðustu vikum selt nær allan eignarhlut sinn í Íslandsbanka fyrir vel á þriðja milljarð króna. Félagið var fyrir söluna stærsti einkafjárfestirinn í hluthafahópi bankans með rétt rúmlega eins prósenta hlut.

Salan á bréfunum kom í aðdraganda þess að fyrirtækið, sem er stýrt af Jakobi Valgeiri Flosasyni fjárfesti og útgerðarmanni, festi kaup á nærri fimmtungshlut í Hraðfrystihúsinu Gunnvör á Ísafirði undir lok síðasta mánaðar, eins og Innherji greindi fyrst frá.

Félagið Jakob Valgeir hóf að byggja upp stöðu í Íslandsbanka eftir frumútboð og skráningu bankans á markað í júní í fyrra. Í byrjun þessara árs var félagið þannig komið með um 0,8 prósenta hlut og bætti enn frekar við eignarhlut sinn í útboði ríkissjóðs fyrir meira en tveimur mánuðum þegar það keypti átta milljónir hluta að nafnvirði fyrir samtals 936 milljónir króna.

Í kjölfarið var Jakob Valgeir kominn í hóp umsvifamestu eigenda bankans og um miðjan síðasta mánuð átti félagið rúmlega 20,48 milljónir hluta, sem jafngilti 1,02 prósenta eignarhlut, sem skilaði því á opinberan lista yfir stærstu hluthafa Íslandsbanka. Samkvæmt lista yfir alla hluthafa bankans í fyrradag, sem Innherji hefur séð, hefur félagið selt nær öll þau bréf og er nú aðeins skráð fyrir tæplega 13 þúsund hlutum að nafnvirði, sem eru um 1,5 milljónir króna að markaðsvirði.

Jakob Valgeir er meðal annars einn stærsti hluthafi Iceland Seafood með tíu prósenta hlut. Hann situr einnig í stjórn félagsins.

Ætla má að söluandvirði bréfanna sem Jakob Valgeir hefur losað í Íslandsbanka – hlutabréfaverð félagsins var að jafnaði í kringum 122 krónur á hlut í síðasta mánuði – hafi verið um 2,5 milljarðar króna. Innherji hefur ekki upplýsingar um hvort félagið hafi til viðbótar átt hlutabréf í Íslandsbanka sem voru fjármögnuð í gegnum framvirka samninga hjá einhverjum af bönkunum og því skráðir undir nafni þeirra.

Á sama tíma og eignarhaldsfélagið Jakob Valgeir, sem er meðal annars einn stærsti hluthafi Iceland Seafood með tíu prósenta hlut, var að selja sig út úr Íslandsbanka í liðnum mánuði þá héldu lífeyrissjóðirnir áfram að stórauka við eignarhlut sinn í bankanum. Fimm lífeyrissjóðir – LSR, Gildi, LIVE, Brú og Stapi – bættu þannig við sig rúmlega 50 milljónum hluta að nafnvirði í maí fyrir meira en sex milljarða króna. Mestu munaði um kaup Gildis á 26 milljónum hluta í síðasta mánuði, sem má ætla að sjóðurinn hafi greitt rúmlega 3 milljarða króna fyrir, og er núna þriðji stærsti hluthafi Íslandsbanka – á eftir ríkissjóði og LSR – með 6,36 prósenta hlut.

Samanlagt eiga íslensku lífeyrissjóðirnir orðið meira en 30 prósenta hlut í bankanum.

Auk lífeyrissjóðanna þá bættu einnig sjóðir í stýringu bandaríska félagsins Capital Group, sem hefur verið einn stærsti eigandi Íslandsbanka frá skráningu hans á markað í fyrra, við eignarhlut sinn í liðnum mánuði. Keypti félagið, eins og Innherji hefur áður upplýst um, bréf í bankanum fyrir samtals um nærri 400 milljónir króna og fer núna með 5,22 prósenta hlut.

Hlutabréfaverð Íslandsbanka hefur, rétt eins og flestra annarra félaga í Kauphöllinni, lækkað talsvert á síðustu vikum. Það er nú á svipuðum slóðum – við lokun markaða í gær stóð gengið í 118,4 krónum á hlut – og þegar ríkissjóður seldi 22,5 prósenta hlut fyrir tæplega 53 milljarða króna í útboði undir lok marsmánaðar á genginu 117 krónur á hlut. Hlutabréfaverðið fór hæst upp í rúmlega 130 krónur á hlut í byrjun apríl á árinu en hefur frá þeim tíma lækkað um liðlega níu prósent.

Gagnrýndi útboð ríkissjóðs á Íslandsbanka

Jakob Valgeir, sem er framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins á Bolungarvík, hefur gagnrýnt framkvæmd hlutafjárútboðs ríkisins Íslandsbanka sem fór fram í mars á þessu ári. Í viðtali við Fréttablaðið í byrjun apríl sagði hann að ríkið hefði getað selt á hærra verði en 117 krónur á hlut. „Ég veit það fyrir víst að ríkið hefði getað selt á genginu 122 ef þeir hefðu einbeitt sér að þeim sem voru tilbúnir til að borga meira,“ var haft eftir honum.

Að sögn Jakobs Valgeirs, sem sagðist hafa óskað eftir að kaupa stærri hlut í útboðinu, hefði ríkið átt að selja til fárra en öflugra kjölfestufjárfeta. „Það var ekki gert. Í staðinn voru það aðallega lífeyrissjóðirnir sem pressuðu verðið niður í þessar 117 krónur á hlut,“ sagði hann.

Með kaupum Jakobs Valgeirs ehf. í síðustu viku á nærri 20 prósenta hlut í Hraðfrystihúsinu Gunnvör verður félagið annar stærsti hluthafi þess. Rekstrartekjur Gunnvarar, sem er með um 1,8 prósenta hlutdeild í úthlutuðum aflaheimildum á meðal íslenskra útgerðarfyrirtækja, á síðasta ári námu jafnvirði 5,7 milljarða króna og hagnaður félagsins var um 960 milljónir.

Jakob Valgeir ehf. er á móti með um 0,95 prósenta hlutdeild í úthlutuðum aflaheimildum. Eigið fé félagsins stóð í um 42 milljónum evra í árslok 2020 en skuldir við lánastofnanir voru þá um 52 milljónir evra.


Tengdar fréttir

Hærri vextir og meiri áhættufælni lækkar verðmat á Íslandsbanka

Gerbreytt vaxtaumhverfi ásamt aukinni áhættufælni fjárfesta þýðir að ávöxtunarkrafa á eigið fé Íslandsbanka hækkar talsvert, eða úr 11,3 prósentum í 12,3 prósent, og við það lækkar nokkuð verðmatsgengi bankans, að mati Jakobsson Capital.

Jakob Valgeir og Helgi Magnússon fjárfesta í Skeljungi

Tvö félög á vegum Jakobs Valgeirs Flosasonar, útgerðarmanns og fjárfestis, bættust við hluthafahóp Skeljungs fyrr í þessum mánuði þegar þau keyptu samanlagt um 1,55 prósenta hlut sem skilar honum í hóp tíu stærstu eigenda fyrirtækisins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×