Handbolti

Íslendingalið Kielce pólskur meistari eftir vítakastkeppni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kielce er pólskur meistari í handbolta.
Kielce er pólskur meistari í handbolta. DAX Images/NurPhoto via Getty Images

Íslendingaliðið Vive Kielce varð í kvöld pólskur meistari í handbolta í ellefta skiptið í röð eftir sigur í vítakastkeppni gegn Wisla Plock í lokaumferð deildarinnar.

Fyrir leikinn hafði Kielce þriggja stiga forskot á toppi deildarinnar, en Wisla Plock sat í öðru sæti. Gefin eru þrjú stig fyrir sigur í pólsku deildinni og því átti Wisla Plock enn möguleika á að ná Kielce að stigum.

Mikil harka var í leiknum og fyrsta rauða spjald leiksins fór á loft eftir aðeins 35 sekúndur. Rauðu spjöldin voru svo orðin fjögur þegar rétt tæpar 22 mínútur voru komnar á klukkuna og fimmta og seinasta rauða spjald leiksins leit dagsins ljós snemma í síðari hálfleik.

Liðin héldust í hendur stærstan hluta leiksins, en heimamenn í Wisla Plock voru skrefinu framar í fyrri hálfleik og leiddu með tveimur mörkum þegar gengið var til búningsherbergja.

Heimamenn náðu svo fimm marka forystu snemma í síðari hálfleik. Gestirnir í Kielce náðu að snúa taflinu við og jöfnuðu metin þegar síðari hálfleikur var rétt rúmlega hálfnaður og ekkert virtist geta skilið liðin að eftir það.

Liðin skiptust á að skora það sem eftir lifði leiks og niðustaðan eftir mínúturnar 60 varð jafntefli, 20-20.

Pólska deildin býður þó ekki upp á jafntefli og því þurfti að grípa til vítakastkeppni til að skera úr um sigurvegara. Þar reyndust gestirnir í Kielce sterkari og liðið skoraði úr öllum fimm vítaköstum sínum á meðan heimamenn skoruðu aðeins úr þrem.

Kielce er því pólskur meistari ellefta árið í röð, en liðið fór taplaust í gegnum tímabilið. Kielce hefur raunar ekki tapað deildarleik síðan 9. október 2019 og var þetta því sigurleikur númer 70 í röð hjá liðinu í deildinni.

Haukur Þrastarson og Sigvaldi Björn Guðjónsson eru á mála hjá Kielce, en þeir voru ekki í leikmannahóp Kielce í kvöld.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.