Gagnrýni

Til varnar Conversations With Friends

Heiðar Sumarliðason skrifar
Nick og Frances deila vandræðalegri þögn.
Nick og Frances deila vandræðalegri þögn.

Stöð 2 hefur nú hafið sýningar á írsku þáttaröðinni Conversations with Friends, sem byggir á samnefndri skáldsögu Sally Rooney. Ekki er langt síðan Stöð 2 sýndi aðra þáttaröð byggða á skáldsögu hennar, Normal People.

Conversations with Friends fjallar um háskólastúdínurnar Frances og Bobbi sem voru eitt sinn par en eru nú bestu vinir. Þegar Bobbi kynnir svo Frances fyrir vinkonu sinni Melissu og eiginmanni hennar Nick, verður fjandinn laus, því Frances og Nick hefja ástarsamband sem á eftir að koma róti á líf þeirra allra. 

Einkunnarugl

Ég verð að játa að þegar ég hóf áhorfið áttaði ég mig ekki á því að Conversations with Friends væri eftir sama höfund og hinir vinsælu Normal People, sem ég hafði ekki séð. Því horfði ég mögulega á þættina með öðrum augum en þeir sem þekktu fyrri þáttaröðina, sem var víst mjög vinsæl og er með háar einkunnir frá áhorfendum og gagnrýnendum.

Conversations with Friends er hins vegar með töluvert lægri einkunnir en Normal People, sem mér finnst ósanngjarnt. Líkt og sést hér að neðan munar næstum heilum tveimur á einkunnun þáttanna. 

Normal People er Must-watch samkvæmt Metacritic.
En Conversations with Friends er víst ekki Must-watch.

Ég er nú byrjaður að horfa á Normal People sem eru eilítið öðruvísi uppbyggðir en Conversations with Friends. Mér dettur helst í hug að þeir gagnrýnendur sem voru yfir sig hrifnir af þeirri fyrri hafi ekki fengið meira af því sama og því verið eitthvað fúlir. Ég get a.m.k. ekki fundið neina aðra rökræna ástæðu fyrir þessum muni á einkunnum. 

Conversations with Friends hefur verið gagnrýndur fyrir að það gerist ekkert í þáttunum. Ég held að slík túlkun segi hreinlega meira um þá sem hafa þá skoðun frekar en þáttaröðina sjálfa. Þessi nýi þáttur er að einhverju leyti meira af því sama og Normal People, en vinnur meira með það sem er undir niðri. Hann fjallar bókstaflega um fólk sem á bágt með að tjá sig og á yfirborðinu virðist því lítið vera í gangi, en spennan er allumlykjandi, og er augljós sé fólk á annað borð læst á hið kvikmyndaða form. 

Kringumstæðurnar sem Rooney skapar eru ótrúlega víraðar og það knýr þáttinn áfram, ekki endilega alltaf yfirborðsátök (þó svo þau séu auðvitað einnig til staðar). Persónulega finnst mér Conversations with Friends þroskaðara verk, þó þættirnir séu ekki endilega aðgengilegri.

Þessi náungi er augljóslega ekki 18 ára.

Ótrúlega vel er skipað í öll hlutverk, annað en í Normal People, þar sem unglingurinn Connell leit út fyrir að vera þrítugur. Ég trúði hverri einustu sekúndu með þessum bældu Írum (og einum Kana á útopnu). 

Persónurnar eru dásamlega óþolandi. Margoft hugsaði ég: „Hvað er eiginlega að þér!?“ og þá var sama hvert fjórmenninganna átti í hlut. Þau eru öll ótrúlega marglaga og raunveruleg á máta sem sjónvarpsþættir leyfa vart nú til dags. Ef það þarf að öllu leyti að mata þig sem áhorfanda, þá er Conversations with Friends kannski ekki þátturinn fyrir þig.

Þáttaröðin fjallar um þennan tíma í lífi okkar þegar við erum ekki lengur börn, en skortir samt þroska til að túlka lífið á þann margslungna máta sem það getur birst okkur. Það getur verið ótrúlega mikið högg þegar maður telur sig vera með allt á hreinu, en fær svo raunveruleikann andlitið. 

Alison Oliver leikur aðalpersónuna Frances, en hún er einstaklega heppilegur kostur í hlutverkið. Hún er fullkomin í að túlka þessa blöndu þess að vera að einhverju leyti þroskuð en þó ekki alveg tilbúin til þess að ganga inn í flókinn heim fullorðinna. Þegar hún hringir í Melissu til þess að ávíta hana en er svo gjörsamlega niðurlægð kjarnar þetta ferðalag hennar. 

Jemima Kirk leikur Melissu, en áhorfendur þekkja hana sumir hverjir sem Jessu úr Girls. Hún er á eilítið öðrum slóðum hér og er Melissa alls ekki jafn hörð persóna. Ég var reyndar búinn að sannfæra mig um að Kirk hefði ekki leikið neitt annað en Jessu og hefði ekki áhuga á leiklist, því kom mér á óvart að sjá hana hér. Við nánari athugun kom í ljós að hún hefur leikið heilan helling eftir að Girls lauk. Ég hafði ávallt séð hana sem eintóna, þar sem hún var ekki leikkona heldur vinkona Lenu Dunham, höfundar Girls. Hún er hins vegar frábær leikkona og vonandi sér maður meira af henni í framtíðinni.

Sasha Lane leikur Bobbi og taldi ég hana vera nýtt andlit, þar sem ég var viss um að ég hefði ekki séð hana áður. Þegar ég skoðaði Imdb.com-síðuna hennar varð ég eilítið vandræðalegur, því Lane lék aðalhlutverkið í hinni frábæru American Honey, frá árinu 2016. Ég skil ekki hvernig ég fór að því að gleyma henni, en það fennir víst hraðar yfir minningarnar en ég hélt. Bobbi er óþolandi persóna, yfirlætis- og dónaleg, og því fullkomin andstæða við Frances.

Ást á pöbbnum?

Joe Alwyn leikur Nick, sem einnig er óþolandi (þau eru öll voðalega óþolandi). Hann er það hins vegar á allt annan máta en Bobbi. Það er hversu ótrúlega dulur og innhverfur hann er sem gerir hann óbærilegan. Mig langaði oft að stíga inn í skjáinn og hrista vitleysuna úr honum. Vegna þessarar innhverfu Nicks hef ég ekki grænan grun um hversu góður leikari Alwyn er í raun og veru. Hann þjónaði sínu hlutverki hins vegar upp á tíu.

Ég er ekki alveg viss um hvort ég eigi að mæli með Conversations with Friends við þá sem eru aðdáendur Normal People. Þessi nýja þáttaröð er frábær og á betra skilið en að vera sífellt borin saman við fyrirrennara sinn. Við þá sem hafa hvoruga þáttaröðina séð mæli ég með að byrja á Conversations with Friends, því það að taka þær í réttri tímaröð virðist ekki vera vænlegt.

Niðurstaða:

Conversations with Friends er ekki framhald af Normal People en þarf að þola samanburðinn. Þetta er eilítið öðruvísi þáttaröð sem spilar aðra tóna en á engu að síður virðingu skilið fyrir það sem hún er, frekar en að vera tekin niður fyrir það sem hún er ekki.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×