Um­fjöllun og við­töl: Valur - Fram 27-26 | Vals­­konur jöfnuðu metin í úr­­slita­ein­víginu

Dagbjört Lena Sigurðardóttir skrifar
Spennan var óbærileg í kvöld líkt og í fyrsta leik einvígisins.
Spennan var óbærileg í kvöld líkt og í fyrsta leik einvígisins. Vísir/Hulda Margrét

Valur vann eins marks sigur á Fram í öðrum leik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn. Líkt og oft áður var um spennuleik að ræða en Valskonur unnu með eins marks mun, lokatölur 27-26. 

Allir þeir leikir sem liðin hafa spilað gegn hvort öðru í vetur hafa einkennst af miklu jafnræði og baráttu. Mátti því ekki við öðru búast en að þessi leikur yrði eins. Sem hann svo var.

Strax í upphafi, er leikurinn var flautaður á, skiptust liðin á að skora en eftir tæpar tíu mínútur var staðan orðin 3-3. Fram var þó á undan að ná meira en eins marks forystu en náðu þær ekki að auka muninn í meira en tvö mörk. Valuskonur voru ekki lengi að jafna leikinn á ný.

Um miðbik fyrri hálfleiks var komið að Val að taka forystuna og á 19. mínútu tókst þeim að koma sér í þriggja marka forskot. Fram gáfu þá í en náðu ekki að minnka muninn nema í eitt mark þar til fyrri hálfleikurinn var flautaður af. Hálfleikstölur voru 13-12 fyrir Val.

Valskonur hófu síðari hálfleikinn af krafti en þær skoruðu fyrstu tvö mörk hans. Framkonur voru aðeins lengur að finna sig eftir hálfleik. Eftir rúmar 35 mínútur var Valur kominn í fjögurra marka forystu 18-14. Fram kom þá með gott áhlaup og tókst á aðeins örfáum mínútum að jafna leikinn.

Þegar um stundarfjórðungur var eftir gáfu Valskonur enn og aftur í og tókst að auka muninn í tvö mörk. Fram tókst þó alltaf að jafna leikinn aftur en Valur hélt ákefð sinni og hélt sér í forystu er leikurinn var flautaður af. Valur með eins marks sigur, 27-26.

Af hverju vann Valur?

Valskonur héldu jafnt út alveg frá byrjun og til enda. Þær mættu virkilega sterkar til leiks og spiluðu heilt yfir góðan og agaðann bolta. Varnarleikur liðsins var frábær og var án efa lykilþáttur í þessum sigri. 

Hverjar stóðu upp úr?

Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst í liði Vals með átta mörk. Thea Imani Sturludóttir og Lovísa Thompson áttu báðar mjög góðan leik en þær voru með sitthvor sjö mörkin. Lovísa var einnig lykilmanneskja í vörn Vals. 

Hjá Fram voru Þórey Rósa Stefánsdóttir og Karen Knútsdóttir markahæstar með sjö mörk hvor.

Hvað gekk illa? 

Fram var langt frá því að vera upp á sitt besta. Valskonur lögðu áherslu á að stöðva Kareni Knútsdóttur, lykilleikmann Fram, og tókst þeim það að mestu. Vörn Vals reyndist Fram virkilega erfið en hátt hlutfall skota endaði í varnarveggnum. 

Hvað gerist næst?

Næsti leikur í einvíginu fer fram í Safamýrinni á fimmtudaginn. 

Thea Imani Sturludóttir: Þetta var góður liðssigur

Thea Imani Sturludóttir, leikmaður Vals.Vísir/Hulda Margrét

„Þetta var bara geggjað að ná að klára þennan leik. Þetta var gríðarlega spennandi. Það var mikið tempó. Þetta var góður liðssigur og ég er mjög ánægð með þetta.“ Sagði Thea Imani eftir sigurinn.

„Þetta var bara borðtennisleikur. Þetta var mikið hlaup fram og til baka. Mistökin sem við vorum að gera, við þurfum að halda áfram að minnka þau. Og hlaupa heim þegar við gerum það. Við náðum því svona nokkuð vel núna. Við getum alltaf bætt það meira.“

„Vörnin var lykillinn okkar. Og bara allur pakkinn, vörn og markvarsla. Fram eru svo rosalega góðar í að keyra upp. Það er oft sem við náum að skila okkur en þær eru samt að ná að finna næsta lausa mann. Markmiðið er að klára sóknirnar með skot á markið og þegar við missum boltann þurfum við að hlaupa heim og standa vörnina.“

„Við þurfum að undirbúa okkur eins og fyrir alla aðra leiki. Það er mjög gott að klára þetta núna, við fögnum því inni í klefa en síðan um leið og við löbbum út þá byrjar undirbúningur fyrir næsta leik,“ sagði Thea Imani að lokum. 


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira