Innherji

Bandarískur fjármálarisi bætir enn við hlut sinn í Íslandsbanka

Hörður Ægisson skrifar
Markaðsvirði rúmlega 5,2 prósenta eignarhlutar Capital Group, sem er einnig í hópi stærstu hluthafa Marels, í Íslandsbanka er rúmlega tólf milljarðar króna.
Markaðsvirði rúmlega 5,2 prósenta eignarhlutar Capital Group, sem er einnig í hópi stærstu hluthafa Marels, í Íslandsbanka er rúmlega tólf milljarðar króna. Foto: Vilhelm Gunnarsson

Sjóðir í stýringu bandaríska félagsins Capital Group, sem hefur verið einn stærsti eigandi Íslandsbanka allt frá skráningu hans á markað í fyrra, juku enn frekar við eignarhlut sinn í bankanum fyrr í þessum mánuði með kaupum á bréfum fyrir samtals nærri 400 milljónir króna. Capital Group fer núna með 5,22 prósenta eignarhlut í Íslandsbanka.

Þetta er í fyrsta sinn sem Capital Group, eitt stærsta sjóðastýringarfyrirtæki heims með eignir í stýringu að fjárhæð samtals um 2,7 billjónir Bandaríkjadala, bætir við hlut sinn í Íslandsbanka eftir að hafa keypt fyrir um milljarð króna í útboði ríkissjóðs á 22,5 prósenta hlut í bankanum fyrir um tveimur mánuðum. Fyrir það var Capital Group næst stærsti hluthafi Íslandsbanka – á eftir ríkissjóði – með meira en fjögurra prósenta hlut en sjóðir félagsins voru á meðal hornsteinsfjárfesta í frumútboði og skráningu bankans í júní í fyrra.

Capital Group er núna skráð fyrir tæplega 104,4 milljónum hluta að nafnvirði, sem gerir eignastýringarrisann að fimmta stærsta hluthafa Íslandsbanka, og hefur félagið bætt við sig um 3,1 milljónum hluta frá því í byrjun síðustu viku, að því er lesa má út úr uppfærðum hluthafalista bankans.

Markaðsvirði eignarhlutar Capital Group, sem er einnig í hópi stærstu hluthafa Marels, í Íslandsbanka er rúmlega tólf milljarðar króna.

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, sagði í viðtali við breska tímaritið Euromoney í liðinni viku að hann hefði verið sérstaklega ánægður með þátttöku bandaríska félagsins í síðasta útboði ríkissjóðs – Capital Group keypti þá 9 milljónir hluta að nafnvirði á genginu 117 krónur á hlut – í ljósi þess að félagið hefur með markvissum og áberandi hætti selt sig niður í evrópskum bönkum að undanförnu, til dæmis Deutsche Bank og Commerzbank.

Ætla má að Capital Group hafi keypt bréfin sem félagið hefur nýlega bætt við sig í Íslandsbanka fyrir samtals um 380 milljónir króna sé litið til þess að hlutabréfaverð bankans var að jafnaði í kringum 122 krónur á hlut í liðinni viku. Hlutabréfaverðið stendur núna í 118 krónum á hlut – aðeins einni krónu hærra en þegar ríkissjóður seldi stóran hlut með tilboðsfyrirkomulag í mars síðastliðnum – og hefur lækkað um meira en níu prósent frá því í byrjun apríl þegar það stóð hvað hæst.

Á sama tíma og Capital Group var að auka lítillega við hlut sinn átti það sama við um íslensku lífeyrissjóðina, einkum Gildi og Lífeyrissjóð verslunarmanna, sem hafa stöðugt verið að bæta við sig í bankanum frá seinna útboði ríkissjóðs. Miðað við uppfærðan hluthafalista má ætla að lífeyrissjóðirnir tveir hafi aukið við hlut sinn með kaupum á bréfum fyrir samanlagt um 1.200 milljónir króna frá byrjun síðustu viku. Lífeyrissjóður verslunarmanna fyrir litlu meira en Gildi, eða um 750 milljónir, en sjóðurinn á núna 6,12 prósenta hlut. Gildi, sem er fjórði stærsti hluthafi Íslandsbanka, á 6,05 prósenta hlut en LSR er stærsti hluthafinn á meðal lífeyrissjóða með tæplega 6,7 prósenta hlut.

Samanlagður eignarhlutur lífeyrissjóða í Íslandsbanka er liðlega 30 prósent og hafa sjóðirnir – einkum LSR, Gildi og Lífeyrissjóður verslunarmanna – bætt við sig um sex prósentum frá útboði ríkissjóðs fyrir um tveimur mánuðum. Í því útboði keyptu samtals 23 lífeyrissjóðir, sem áttu fyrir það samanlagt um 16 prósenta hlut í bankanum, fyrir 19,5 milljarða króna, eða sem jafngilti liðlega 8,5 prósenta eignarhlut.

Í fyrrnefndu viðtali við sem birtist við Jón Gunnar í Euromoney í kom einnig fram að hann teldi að sala ríkissjóðs á 22,5 prósenta hlut í Íslandsbanka í útboðinu í mars hafi heppnast betur en frumútboð bankans í júní í fyrra.

„Við seldum meira en 300 daga magn í Íslandsbanka,“ sagði Jón Gunnar og vísaði þar til þess að salan hafi samsvarað um 300 daga veltu með bréf bankans í Kauphöllinni. Hann ber niðurstöðuna saman við sölu Kaupþings á tíu prósenta hlut í Arion banka árið 2019 sem var einnig framkvæmd með tilboðsfyrirkomulagi.

„Til að setja það í samhengi var 150 daga velta seld með 8 prósenta „afslætti“ í framhaldsútboði Arion banka árið 2019.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×