Körfubolti

Boston fyrsta liðið til að vinna í Miami í úrslitakeppninni og allt jafnt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcus Smart missti af leik eitt en sýndi mikilvægi sitt í öðrum leiknum í nótt þar sem Boston Celtics vann stórsigur á Miami Heat í úrslitum Austurdeildarinnar.
Marcus Smart missti af leik eitt en sýndi mikilvægi sitt í öðrum leiknum í nótt þar sem Boston Celtics vann stórsigur á Miami Heat í úrslitum Austurdeildarinnar. AP/Lynne Sladky

Boston Celtics jafnaði úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar í 1-1 eftir sannfærandi 25 stiga útisigur á Miami Heat í úrslitakeppni NBA í nótt.

Jayson Tatum skoraði 27 stig þegar Boston Celtics vann 127-102 sigur en þeir Marcus Smart og Jaylen Brown voru báðir með 24 stig.

„Strákarnir eru stoltir, horfðu á gullna tækifærið sem við misstum af í leik eitt og vissu að þeir gætu gert betur. Við gerðum það í kvöld,“ sagði Ime Udoka, þjálfari Boston Celtics.

Jimmy Butler skoraði 29 stig á 32 mínútum fyrir Miami Heat sem tapaði í fyrsta sinn á heimavelli í þessari úrslitakeppni eftir að hafa unnið alla hina sjö leikina sína. Gabe Vincent og Victor Oladipo skoruðu báðir 14 stig.

Annan leikinn í röð voru Boston menn yfir í hálfleik en nú með 25 stigum eftir frábæran fyrri hálfleik. Miami sneri við fyrsta leiknum í leik eitt með frábærum þriðja leikhluta en það var ekkert slíkt í boði hjá Boston mönnum í nótt.

Marcus Smart missti af fyrsta leiknum og munaði vissulega mikið um það. Hann sýndi mikilvægi sitt með því að vera aðeins einni stoðsendingu frá þrennunni því auk 24 stiga var hann með 12 fráköst, 9 stoðsendingar og 3 stolna bolta.

Al Horford missti líka af leik eitt vegna kórónuveirusmits en fékk leyfi til að spila í nótt og skilaði 10 stigum.

Það merkilega við góðan fyrri hálfleik Boston liðsins að liðið var komið tíu stigum undir í upphafi leiks en vann síðan átján mínútna kafla 60-21 sem skilaði liðinu 70-45 hálfleiksforystu.

Brown gat tóninn í upphafi leiks með því að skora ellefu stig í fyrsta leikhlutanum en Boston liðið hitti þá úr 8 af 11 þriggja stiga skotum sínum.

„Þetta er bara einn sigur og það er það sem reyndir leikmenn átta sig á inn í klefa. Við erum ekki hrifnir af þessu. Þeir spiluðu rosalega vel. Þetta eru tvö mjög góð lið og við þurfum bara að finna einhverjar lausnir,“ sagði Erik Spoelstra, þjálfari Miami Heat.

Boston er nú búið að stela heimavallarréttinum en næstu tveir leikir eru í Boston og sá fyrri af þeim fer fram á sunnudaginn.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.