Skoðun

Að taka kolin fram yfir bæjarlækinn

Herdís Sólborg Haraldsdóttir skrifar

Í raun fyrir ekki svo löngu síðan, var drengur sendur í sveit fyrir vestan. Hann var af fyrstu kynslóð borgarbarna, þeirri sem fór í rútum landshluta á milli og oftar en ekki til margra mánaða dvalar. Þessir flutningar eru ein birtingarmynd hjarðhegðunar Íslendinga þess tíma. Þetta tíðkaðist bara. Hugsunin að baki þessu var engu að síður margslungin, pólitísk og persónuleg.

Bærinn sem um ræðir var eins og margir bæir þess tíma, staðsettur ofarlega í hlíð við sjálfan bæjarlækinn. Öllu neðar var hver.

Drengurinn náði illa að tengjast öðrum á bænum og fylgir ekki sögunni hvort staðið hafi á þeim eða honum. Þar að auki komst hann seint og illa til verka.

Bændunum varð fljótt ljóst að drenginn gætu þau ekki tekið aftur. Það að vera verklaus var eitt, en að taka ekki þátt í samtali um störfin var svo annað. Jörðin bar ekki marga og þessum var sannarlega ofaukið. Um mitt sumar tekur annað þeirra tveggja af skarið og gengur til drengsins. Drengurinn, enn djúpt í sínum hugsunum, hvorki heyrði né meðtók tiltalið. Þvert á móti þá var hann heldur upp með sér yfir athyglinni og greip fegins hendi tækifærið sem í nærverunni fólst. Án óþarfa málalengina dró hann upp nákvæma teikningu, myndskreytta. Heilt sumar lá undir. Með sínu hugviti hafði honum tekist að leysa ráðgátuna um það hvernig nýta mætti hverinn og fallvatnið í læknum til þess að hita bæinn.

Það er skemmst frá því að segja að bændurnir bæði hlustuðu og treystu drengnum fyrir verkinu. Í lok sumars gátu þau lagt kolunum og hitað bæinn með þeim auðlindum sem þau höfðu aðgang að. Drengurinn hafði kannski ekki verið öflugur á hrífunni en hann breytti lífsskilyrðum ábúenda og þankagangi til framtíðar og fór sjálfur vel nestaður af reynslu og innsýn til borgarinnar.

Eins og í þessari sögu þá er það svo að þegar hugvitið verður að nýsköpun þá getur það fleytt okkur fram, en líka aftur. Hvoru tveggja getur tortímt og auðgað og það jafnvel á sama tíma.

Vel heppnaðri nýsköpunarviku er að ljúka og mikilvægt að halda áfram á lofti mikilvægi fjölbreytni og ólíkra sjónarmiða þegar kemur að því að þróa nýjar lausnir á viðfangsefnum nú og til framtíðar.

Sú nýsköpun sem við þurfum að vinna að í dag snýr að mörgu leyti að því bjarga okkur sjálfum. Ekki bara forréttindahópunum, heldur heildinni. Það felur í sér að við þurfum á köflum að hægja á okkur, hlusta og hleypa fleirum að, enda er ekki á allra færi að laga allt. Ólík sjónarmið þurfa að koma saman.

Í dæminu hér að ofan þá býr drengurinn við ákveðin forréttindi og var fljótur að frá traust frá ábúendum. Þetta er ekki alltaf svona. Við erum öll með okkar innbyggðu skekkjur og fordóma sem verða í vegi fyrir því að góðar lausnir nái fram að ganga. Hugvitið er ekki hindrun. Það er allstaðar og það er eins og annað, jafn fjölbreytt og við erum mörg. Hindrunin er hugarfar þeirra sem loka á tækifærin sem eru fólgin í fjölbreyttu hugviti, af því að þeir eru með sínu innbyggða skekkju og fordóma.

Því fylgir ábyrgð að skapa eitthvað nýtt og því fylgir ábyrgð að fjárfesta í og fjármagna nýsköpun. Það er óhagkvæmd, ósjálfbært og óskynsamlegt nú og til framtíðar að leyfa nýsköpun að þróast og vaxa í skjóli forréttindahópa. Það eru til ótal leiðir og sannreynd aðferðafræði sem getur hjálpað einstaklingum, fjárfestum og fyrirtækjum að viðurkenna og vinna með þessa innbyggðu skekkju sem býr í okkur öllum. Allt þetta krefst ígrundaðra vinnubragða og viðhorfsbreytinga sem gerast ekki af sjálfu sér.

Staðan er nefnilega sú í dag að ef ekkert er gert, komumst við ekki mikið lengra með hrífuna, en í kringum okkur sjálf.

Höfundur er framkvæmdastjóri Irpa ehf. og ráðgjafi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×