Skoðun

Hjól í skjól og hollur morgunmatur

Þorbjörg Þorvaldsdóttir skrifar

Hin fullkomnu sveitarstjórnarmál. Einfaldar breytingar sem bæta líf íbúa, gera hversdagsleikann léttari og sem enginn vill vera án þegar þær hafa fest sig í sessi. Tillögur sem munu auðvelda líf Garðbæinga og sem Garðabæjarlistinn ætlar að koma til framkvæmda í samfélaginu okkar á næsta kjörtímabili.

Allir sem hafa verið á íbúasíðu Garðabæjar lengur en nokkra daga vita að sífellt er verið að stela hjólum og hlaupahjólum af íbúum bæjarins. Okkar samfélag er fjölbreytt samfélag og Garðabæjarlistinn leggur meðal annars áherslu á að fjölbreyttir ferðamátar séu raunverulegur valkostur fyrir íbúa. Í ljósi þess að æ fleiri kjósa að nota reiðhjól, rafhjól og rafmagnshlaupahjól til þess að fara á milli staða verður bærinn að bregðast við, rétt eins og gert er ráð fyrir bílastæðum fyrir einkabíla. Garðabæjarlistinn vill koma upp yfirbyggðum, öruggum og myndavélavöktuðum skýlum fyrir minni farartæki við alla skóla og íþróttamannvirki.

Margir foreldrar grunnskólabarna kannast líklega við að standa, allt of seint að kvöldi, í röð með pizzasnúða og epli á kassanum í Hagkaup daginn fyrir skóla. Með okkar tillögu væru slíkar skotferðir úr sögunni fyrir foreldra og kostnaðurinn fyrir barnaheimili sömuleiðis. Okkar samfélag er nefnilega barnvænt samfélag. Garðabæjarlistinn vill að börn bæjarins geti fengið hollan morgunmat í skólanum. Við viljum að gjaldfrjáls hafragrautur verði í boði í öllum grunnskólum Garðabæjar fyrir kennslu og að börn geti jafnframt fengið ávexti og grænmeti án endurgjalds í nestistímanum.

Þau tvö mál sem hér hafa verið nefnd eru einfaldar lausnir sem munu hafa jákvæð áhrif á allt samfélagið okkar. Þetta eru mál sem skipta máli fyrir Garðbæinga. Garðabæjarlistinn ætlar að koma þessum og mörgum fleiri mikilvægum málum til leiðar. Við óskum eftir stuðningi ykkar við það verkefni á kjördag, 14. maí.

Höfundur er oddviti Garðabæjarlistans, X-G.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.