Handbolti

Kári um Haukaeinvígið: „Eins og að vera með erfiðar hægðir“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
„En svo kom það!“
„En svo kom það!“ stöð 2 sport

Kári Kristján Kristjánsson var yfirlýsingaglaður þegar hann mætti settið hjá Seinni bylgjunni eftir að ÍBV tryggði sér sæti í úrslitum Olís-deildar karla með sigri á Haukum í gær, 34-27.

Kára gekk betur upp í skotunum í leiknum í gær en í þriðja leiknum sem Haukar unnu. Eyjamaðurinn segir að það hafi verið með ráðum gert.

„Það var eins og við vorum búnir að ákveða og plana. Við þurftum að fá annan heimaleik, þetta eru aurar í kassann og við hötum ekki „cash“, sagði Kári léttur.

Hann kom líka með áhugaverða samlíkingu þegar hann reyndi að lýsa einvíginu gegn Haukum sem ÍBV vann, 3-1.

„Þetta var mjög krefjandi á móti vel skipulögðu og rútíneruðu liði Hauka. Þetta var ógeðslega erfitt. Þetta var eins og að vera með erfiðar hægðir. Þú ert samt inni á salerninu, það er allt rétt, allar aðstæður réttar, með símann að horfa á eitthvað létt en það bara kemur ekki. En svo kom það,“ sagði Kári.

Klippa: Seinni bylgjan - Viðtal við Kára

Nokkrir ungir leikmenn hafa gert það gott með ÍBV í vetur og sérstaklega í úrslitakeppninni. Kári er ekki í þeim hópi enda á 38. aldursári.

„Var ekki einhver sem sagði vit er betra en strit. Ég er svolítið að vinna mig inn í það,“ sagði Kári.

„En það er helvíti gott fyrir starfið hjá okkur að við séum að skila af okkur ungum og efnilegum leikmönnum og sumir þeirra eru bara orðnir góðir. Það er hátt á okkur risið núna en við þurfum að halda einbeitingu.“

Stemmningin í Eyjum er einstök og Kári lagði til að húsið þar yrði bara gert að hinni margumtöluðu þjóðarhöll.

„Maður verður hálf óeðlilegur í þessum aðstæðum sem er bara gott. Svo er verið að tala um nýja þjóðarhöll. Takiði bara þakið af þessu, austur- og vesturhliðina, stækkiði draslið og haldiði landsleikina hérna. Þá fáiði fjögur til fimm þúsund á leiki,“ sagði Kári.

Allt viðtalið við Kára má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Góður gærdagur hjá Viðarssonum

Óhætt er að segja að gærdagurinn hafi verið góður fyrir handboltabræðurna úr Vestmannaeyjum, Elliða Snæ og Arnór Viðarssyni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.