Skoðun

Við erum á kross­götum

Sigurjón Andrésson skrifar

Sameininga-hamarinn er á lofti. Verkefni þeirra fulltrúa sem fá umboð til að stjórna í smærri sveitarfélögum í komandi kosningum verða því ólík því sem áður hefur verið. Kjósendur í þessum fámennu sveitarfélögum þurfa því að spyrja sig, hverjir munu gæta hagsmuna þeirra sveitarfélags og tryggja að ef til sameininga kemur, þá verði þjónusta og lífsgæði meiri en áður!

Sveitarfélög með færri en 1.000 íbúa

Í gildandi sveitarstjórnarlögum segir að ef íbúafjöldi sveitarfélags er undir 1.000 íbúum, er skylda, eftir sveitarstjórnarkosningar að: A) fara í sameiningarviðræður eða B) láta vinna álitsgerð. Álitsgerðin hefur þann tilgang að taka saman nægilegar upplýsingar fyrir sveitarstjórnarmenn og íbúa sveitarfélagsins svo að ákvörðun þeirra byggist á fullnægjandi upplýsingum.

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum þarf Flóahreppur því, strax eftir sveitarstjórnarkosningarnar 14. maí 2022, annað hvort að fara í formlegar viðræður um sameiningu eða vinna álit um stöðu sveitarfélagsins og getu þess til að sinna lögbundnum verkefnum og skoða hvaða tækifæri felast í sameiningu.

Í okkar huga er alveg skýrt hvað þarf að gera

Við sem stöndum að XT listanum í Flóahreppi höfum skýra sýn á hvernig við viljum vinna þessa vinnu eftir kosningarnar.

Við ætlum strax að hefjast handa við að skoða sameiningarkosti. Hverjir eru styrkleikar, veikleikar, ógnanir og tækifæri. Jafnframt því vinnum við álit sem metur stöðu okkar og getu til að sinna okkar lögbundnu verkefnum.

Samráð og íbúalýðræði

Að því loknu, eigi síðar en vetur 2022-23 munum við kynna niðurstöðurnar fyrir íbúum Flóahrepps. Við munum leita sjónarmiða með opnum íbúafundum sem einnig eru í streymi með rafrænu samráðskerfi. Þannig tryggjum við að allir eigi jafnan aðgang að fræðast og koma sínum áherslum að.

Spurt verður annars vegar hvort Flóahreppur eigi yfir höfuð að hefja sameiningarviðræður og ef svo er, hvaða valkostir ættu að vera í forgangi og hver eru áhersluatriði okkar í samningaviðræðunum.

Ég hef velt þessum sameiningarmálum mikið fyrir mér. Flóahreppur á landamæri við sex önnur sveitarfélög. Sum eru lík okkar að uppbyggingu og önnur ólík. Sum þessara sveitarfélaga vilja eflaust sameinast Flóahreppi og önnur kannski ekki. En í öllu falli þarf að hefja vinnuna og tryggja þátttöku allra íbúa í ferlinu.

Tækifærin eru óþrjótandi

Það skiptir geysilega miklu máli hvernig haldið er á málum í Flóahreppi á næstu árum. Tækifærin sem eru að opnast fyrir okkur hér á þessu svæði eru óþrjótandi. Það er stöðugt að verða eftirsóknarverðara að búa og starfa í friðsælli sveit sem er í armslengd frá höfuðborgarsvæðinu - við erum í dauðafæri. Á næstu árum þarf að vinna eftir skýrri framtíðarsýn og tryggja að hagsmunir Flóahrepps gangi fyrir þannig að lífsgæði okkar verði stöðugt betri.

Höfundur skipar fyrsta sæti á XT listanum í Flóahreppi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×