Óskar Sigvaldason, framkvæmdastjóri Borgarverks, og Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri handsala ríflega 1,2 milljarða króna verksamning að lokinni undirritun.Vegagerðin/G. Pétur Matthíasson
Vegagerðin og Borgarverk undirrituðu í gær verksamning um lagningu ellefu kílómetra kafla um Teigsskóg. Borgarverk átti lægsta boð í verkið, upp á 1.235 milljónir króna, sem reyndist um tvöhundruð milljónum króna undir kostnaðaráætlun.
„Við byrjum á að koma okkur fyrir, mæta með tæki og búnað á staðinn, í síðustu viku maímánaðar. Okkar áætlun miðar við að byrja á því 24. maí,“ sagði Óskar Sigvaldason, framkvæmdastjóri Borgarverks, í dag.
Úr Teigsskógi við Þorskafjörð. Þar er nú þegar gamall vegslóði.KMU
Sjálf vegavinnan hefst þó ekki fyrr en í annarri viku júnímánaðar, að sögn Óskars. Byrjað verður á því að taka upp torf og gróður úr vegstæðinu og leggja það hliðar til síðari nota til að þekja jarðvegssárin.
„Það verður svo um miðjan júní sem við byrjum að sprengja og keyra út efni,“ sagði Óskar.
Hér sést hvernig fyrirhugaður vegur mun liggja út með Þorskafirði. Til hægri sést hvar núverandi vegur hlykkjast upp á Hjallaháls.Vegagerðin
Þessi áfangi endurbóta Vestfjarðavegar um Gufudalssveit nær milli Hallsteinsness og Þórisstaða í utanverðum Þorskafirði og á hann að klárast haustið 2023. Óskar gerir ráð fyrir að vera með 15 til 20 manns að jafnaði í verkinu og að vinnubúðir verði á Hallsteinsnesi.
Tilboðin í verkið voru opnuð þann 22. mars og þá var rætt við framkvæmdastjóra Borgarverks í þessari frétt Stöðvar 2:
Tilboð í umdeilda vegagerð um Teigsskóg voru opnuð í dag. Lægsta boð reyndist um tvöhundruð milljónum króna undir kostnaðaráætlun, kom frá Borgarverki og hljóðar upp á ríflega 1,2 milljarða króna.
Verkefnisstjóri Vegagerðarinnar í Gufudalssveit býst ekki við að mótmælendur hlekki sig við jarðýtur þegar vegagerð hefst um Teigsskóg. Búið sé að fara vel yfir málið og verkið verði unnið í nánu samráði við Náttúrustofu Vestfjarða og sveitarfélagið Reykhólahrepp.
Vegagerðin hefur formlega birt útboðsauglýsingu um nýbyggingu Vestfjarðavegar um Gufudalssveit á kaflanum millli Þórisstaða og Hallsteinsness. Þetta er sá kafli sem liggur um hinn umdeilda Teigsskóg í utanverðum Þorskafirði.
Það vakti athygli margra síðdegis í gær að á meðan löngum ríkisstjórnarfundi um minnisblað sóttvarnalæknis stóð greindi samgönguráðherra frá langþráðum áfanga í vegagerð hér á landi. Vegalagning um Gufudalssveit væri fram undan en deilur um svæðið og nýjan veg þar um hafa staðið í tvo áratugi. Sagan endalausa virðist ætla að enda eftir allt saman.
Miklar sprengingar og drynjandi hávaði vinnuvéla í brúargerð í Þorskafirði hafa ekki fælt haferni frá vinnusvæðinu. Þeir fljúga yfir á hverjum degi til að forvitnast um framvindu verksins, að sögn verkstjóra Suðurverks.
Vinna er hafin við sjö kílómetra vegagerð í Gufudalssveit en þetta er fyrsti áfangi hins umdeilda Teigsskógarvegar. Í sveitinni er því fagnað að verkið skuli hafið. Myndir frá vegagerðinni mátti sjá í fréttum Stöðvar 2.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.