Innherji

BlueBay keypti ríkisbréf fyrir 20 milljarða og sér Ísland verða „Sviss norðursins“

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
BlueBay var stærsti erlendi eigandi íslenskra ríkisskuldabréfa um nokkurra ára skeið. 
BlueBay var stærsti erlendi eigandi íslenskra ríkisskuldabréfa um nokkurra ára skeið.  VÍSIR/VILHELM

BlueBay Asset Management, eitt stærsta sérhæfða skuldabréfastýringarfélag Evrópu, telur að Ísland geti í framtíðinni orðið þekkt sem „Sviss norðursins“. Þetta kemur fram í fréttabréfi sem Mark Dowding, yfirfjárfestingastjóri BlueBay, sendi á viðskiptavini félagsins í síðustu viku og Innherji hefur undir höndum.

„Horft fram á veginn sjáum við Ísland sem AAA land og, með því að skoða sparnaðarþróun og fjölda annarra mælikvarða, setjum við fram þá skoðun að landið geti í framtíðinni orðið þekkt sem Sviss norðursins,“ segir í fréttabréfinu.

Samkvæmt heimildum Innherja keypti BlueBay 20 ára löng óverðtryggð ríkisskuldabréf í útboði Lánamála ríkisins þann 8. apríl fyrir 20 milljarða króna. Kaupin knúðu Seðlabanka Íslands til þess að stíga inn á gjaldeyrismarkaðinn og kaupa gjaldeyri fyrir álíka upphæð. 

Markmiðið með gjaldeyrisinngripastefnu Seðlabankans er að leitast við að mýkja sveiflurnar á gengi krónunnar, hvort sem er vegna hækkunar eða lækkunar, bæði til skemmri og meðallangs tíma.

„Ferðaþjónustan er að koma sterk til baka og landið býr einnig yfir hræódýrri orku gegnum endurnýjanlega orkugjafa, sem gagnast iðnaði og laðar að fjárfestingu,“ segir í fréttabréfinu.

„Það þýðir einnig að Ísland er einangraðra fyrir hreyfingum á orkuverðum á heimsvísu og þótt landið flytji inn olíu hefur verð á útflutningsvörum, svo sem fiski og áli, í það minnsta hækkað jafn hratt sem ver landið fyrir viðskiptakjarahöggi (e. terms-of-trade shock).“

Verðbólga mældist 7,2 prósent í apríl og samkvæmt nýrri spá Seðlabankans er gert ráð fyrir að verðbólgan muni mælast í kringum átta prósent á þriðja og fjórða ársfjórðungi – sem er um 2,8 prósentum meiri verðbólga var spáð í febrúar. Yfirfjárfestingastjóri BlueBay telur hins vegar að verðbólgan kunni að vera ofmetin.

„Mikla verðbólgu má að mestu leyti rekja til innlendra þátta, svo sem óvenjulegrar meðtalningu húsnæðisverðs í verðbólgumælingum. Seðlabankinn hækkaði vexti um 100 punkta upp í 3,75 prósent í þessari viku og búist er við frekari hækkun í júní, en þó hníga rök að því að verðbólgan sé ofmetin eins og staðan er í dag,“ segir Dowding.

Þó hníga rök að því að verðbólgan sé ofmetin eins og staðan er í dag.

BlueBay hóf innreið sína á íslenska skuldabréfamarkaðinn árið 2015 og var um tíma stærsti erlendi eigandi íslenskra ríkisskuldabréfa. Á seinni hluta árs 2020 seldi fyrirtækið allar ríkisbréfaeignir sínar á Íslandi fyrir nærri 50 milljarða króna. Salan, sem náði yfir liðlega þriggja mánaða tímabil, knúði fram umfangsmestu gjaldeyrissölu Seðlabanka Íslands á einni viku frá fjármálahruninu.

„Við sjáum fram á bata í ríkisfjármálum og spáum viðskiptaafgangi síðar á þessu ári. Þar af leiðandi sjáum við virði í löngum skuldabréfum með yfir 5 prósenta ávöxtun og gjaldmiðillinn er sömuleiðis lokkandi,“ segir Dowding.

Innherji hafði áður greint frá fréttabréfi sem BlueBay sendi á viðskiptavini snemma í apríl en þar kom fram að sjóðastýringarfélagið teldi að Ísland væri að verða áhugaverður kostur á ný fyrir skuldabréfafjárfesta „eftir nokkur ár á hliðarlínunni“.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.