Körfubolti

Nikola Jokic valinn sá mikilvægasti í NBA annað tímabilið í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikola Jokic átti frábært tímabil með Denver Nuggets en liðið var án tveggja lykilmanna nær allt tímabilið.
Nikola Jokic átti frábært tímabil með Denver Nuggets en liðið var án tveggja lykilmanna nær allt tímabilið. AP/David Zalubowski

Serbneski miðherjinn Nikola Jokic var kosinn mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar annað árið í röð en nokkrir bandarískir fjölmiðlar hafa heimildir fyrir þessu.

Jokic átti frábært og í raun einstakt tímabil með Denver Nuggets liðinu. Hann endaði með 27,1 stig, 13,8 fráköst og 7,9 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Hann hafði betur í baráttunni við Giannis Antetokounmpo og Joel Embiid sem voru einnig tilnefndir.

Jokic varð sá fyrsti í NBA-sögunni til að vera með meira en tvö þúsund stig, meira en þúsund fráköst og meira en fimm hundrað stoðsendingar á einu tímabili.

Jokic skilaði þessum frábæru tölum á sama tíma og Denver liðið þurfti að spila án tveggja af sínum bestu mönnum. Leikstjórnandinn Jamal Murray missti af öllu tímabilinu eftir krossbandsslit og Michael Porter Jr. lék aðeins níu leiki vegna bakmeiðsla.

Þrátt fyrir þetta náði Nuggets liðið fimmta besta árangrinum í Vesturdeildinni og sú staðreynd auk tölfræðinnar er að skila Jokic þessum eftirsóttu verðlaunum annað árið í röð.

Jokic er fimmtándi leikmaðurinn í sögunni til að vinna þessi verðlaun oftar en einu sinni. Hann er sá annar í röð til að vinna tvö ár í röð en Giannis Antetokounmpo gerði það á undan honum 2018-19 og 2019-20.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.