Skoðun

Hús­næðiskrísa!

Alexandra Briem skrifar

Það er mikill skortur á húsnæði, það dylst engum. Það er ólíðandi ástand, ekki síst vegna þess að það er helsta ástæðan fyrir því að húsnæðisverð hækkar, hvort sem er til kaupa eða leigu.

Það er ekki þar með sagt að ekki hafi verið byggt. Raunar hefur aldrei verið skipulagt eða byggt meira af húsnæði í Reykjavík en á kjörtímabilinu sem er að ljúka. Þörfin er bara mun meiri. Bæði vegna fjölgunar í borginni, og vegna uppsafnaðrar þarfar sem hefur verið að safnast upp síðan uppbygging botnfraus á árunum eftir hrun.

Ein lausnin er að halda áfram að byggja. Byggja meira, af betri gæðum og byggja hraðar. Til þess að byggja hraðar þurfum við að finna flöskuhálsana og víkka þá.

Það eru tveir flöskuhálsar í kerfinu. Annar er til að gera einfaldur og felst í því að það þarf að einfalda skipulagsferla borgarinnar og gera þá stafræna. Sú vinna er þegar í gangi.

Hinn flöskuhálsinn er alvarlegri, og er á fjármögnunarhliðinni. Þar er uppi alvarlegur markaðsbrestur, sem er þegar aðstæður myndast á markaði sem koma í veg fyrir að hann leysi vandamál sjálfur eins og staðráðnustu hægrimenn trúa, en markaðsbrestir eru staðreynd. Það getur t.d. verið þegar kostnaður sem myndast af starfsemi lendir ekki á þeim sem stundar starfsemina, t.d. mengun, en hún lendir á öllu samfélaginu, meðan sá sem býr hana til upplifir bara lítinn hluta, en hirðir mest allan ágóðan af starfseminni.

Sá markaðsbrestur sem um ræðir hér er að þeir aðilar sem fjármagna mest af uppbyggingu húsnæðis, bankarnir, eiga orðið stór eignasöfn af húsnæði, sem þeir hafa hagsmuni af að missi ekki verðgildi sitt, og raunar hafa hagsmuni af því að verðið haldi áfram að hækka.

Og hegðun bæði banka og stórra fasteignafélaga á kjörtímabilinu hefur passað við þessa greiningu. Árið 2019 fór að bera á fréttum um að uppbygging í borginni hefði verið of hröð, íbúðir seldust ekki og stæðu auðar og það þyrfti að hægja á uppbyggingu. Auðvitað voru þessar fréttir drifnar af hagsmunum, eignirnar sérvaldar til að segja tiltekna sögu. Uppsafnaður skortur var enn mikill og verð há, en menn vonuðust til að geta selt eignirnar á því háa verði en neyðast ekki til að gefa afslætti.

Í faraldrinum gerðist það svo að mörg misstu vinnuna. En þau sem héldu henni höfðu minna að gera við launin, gátu ekki ferðast, farið í bíó eða út að borða. Á sama tíma voru stýrivextir lækkaðir og húsnæðislán urðu ódýr. Þetta gerði það að verkum að fólk fór að kaupa það sem hafði verið byggt upp. Á sama tíma fóru bankarnir að halda að sér höndum með að veita lán til uppbyggingar. Sérstaklega lán á uppbyggingartíma, en það getur haft mjög mikil áhrif á hraða uppbyggingar í stórum verkefnum, og þessi aðgerð hafði sannarlega áhrif til að hægja á. Og ekki hjálpaði faraldurinn sjálfur, með veikindum starfsfólks, samkomutakmörkunum og mjög miklum áhrifum á birgðakeðjur og aðfangaverð fyrir áframhaldandi uppbyggingu.

Áhrifin af þessu öllu urðu slík að það framboð sem var til þurrkaðist upp á örskotsstundu, og það hægðist á frekari uppbyggingu. Þá verður skortur, eftirspurn eftir húsnæði á þessum hagstæðu lánum var miklu meiri en framboðið og verðið fór aftur á flug. Og þar með líka stóru eignasöfnin.

Hér er ekki um að ræða einhvers konar samsæri, heldur bara að aðilar á markaði haga sér á þann hátt sem hagnast þeim. En þarna eru hagsmunir komnir í hnút, og í sambland við heimsfaraldur varð þetta mjög slæmt.

Og það er flókið að víkka þennan flöskuháls. Sennilega þarf fjármögnunarsjóð til uppbyggingar sem er óháður þessum hagsmunum. Þá mætti til dæmis sjá fyrir sér samfélagsbanka, en það getur ekki talist sennilegt miðað við núverandi ríkisstjórn.

Það sem þarf er að óhagnaðardrifnir aðilar þurfa að byggja af meiri krafti. Við viljum styðja betur við þá og hjálpa þeim til þess. Það þarf að dreifa eignarhaldi betur, semja um smærri uppbyggingarsvæði og afgreiða lóðir í smærri einingum, svo þær endi ekki allar hjá nokkrum stórum aðilum. Ríkið og borgin gætu jafnvel byggt eitthvað sjálf, annað hvort beint eða gegnum samninga við þessa aðila, eða gengið í ábyrgð fyrir framkvæmdalán til óhagnaðardrifinna aðila. En það þarf líka að fjölga íbúðum félagsbústaða.

Í mörgum löndum evrópu eru lífeyrissjóðir stór aðili á leigumarkaði og það er eiginlega stórfurðulegt að slík þróun hafi ekki orðið á Íslandi, og það væri mjög áhugavert að ná saman við þá um að koma að meiri uppbyggingu.

Því miður hafa viðbrögð ríkisins um of einbeist að því að styðja við eftirspurn eftir húsnæði. Lækka kostnað af lántöku til húsnæðiskaupa, gera fólki kleift að nýta lífeyrissparnað til húsnæðiskaupa og fleira slíkt. Að vissu leiti eru það skiljanleg viðbrögð þegar verð er hátt og fólk í vandræðum, en það eykur líka rýmið fyrir verð til að hækka enn meira. Það eru skammtímalausnir sem gera hlutina verri til lengri tíma. Það sem við þurfum að gera er að róa að því öllum árum að auka framboð, lána meira til uppbyggingar, byggja meira sjálf.

Þetta er vegna þess að húsnæði er mannréttindi. En við getum ekki búið til ný hús með pennastriki, við getum ekki ákveðið húsnæðisverð með valdboði, við þurfum að leysa vandann. Við þurfum að byggja og við þurfum að styðja aðra í að byggja.

Höfundur er í öðru sæti á lista Pírata í Reykjavík.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×