Körfubolti

Grímuklæddi maðurinn gjörbreytti einvíginu

Sindri Sverrisson skrifar
Joel Embiid hefur getað spilað með grímu síðustu tvo leiki og Philadelphia 76ers hafa unnið báða.
Joel Embiid hefur getað spilað með grímu síðustu tvo leiki og Philadelphia 76ers hafa unnið báða. Getty/Mitchell Leff

James Harden og Joel Embiid voru í aðalhlutverkunum þegar Philadelphia 76ers jöfnuðu einvígið við Miami Heat, 2-2, í NBA-deildinni í nótt með 116-108 sigri.

Embiid missti af fyrstu tveimur leikjunum eftir að hafa fengið vægan heilahristing og brákað bein við hægra auga. Miami vann þá leiki, báða á heimavelli, en Philadelphia hefur nú svarað með tveimur heimasigrum þar sem Embiid hefur verið með, með hlífðargrímu á andlitinu.

Harden kallaði Embiid „verðmætasta leikmann deildarinnar (e. MVP)“ þegar hann lýsti mikilvægi hans í síðustu tveimur leikjum og nú er að sjá hvernig Embiid spilar í fyrsta leik sínum í Miami, annað kvöld.

„Við höfum ekki enn séð Joel sýna sitt besta í þessu einvígi. Hann er enn að reyna að átta sig á því hvernig hann getur spilað án þess að gríman sé að renna til á andlitinu,“ sagði Doc Rivers, þjálfari Philadelphia.

Embiid skoraði 24 stig og tók 11 fráköst í nótt og maðurinn með skeggið, Harden, var stigahæstur í liðinu með 31 stig. Jimmy Butler skoraði 40 fyrir Miami. Harden skoraði 16 af stigum sínum í fjórða leikhluta.

Eftir jafnan fyrri hálfleik náði Philadelphia að búa sér til forskot í seinni hálfleiknum en gestirnir voru aldrei mjög langt undan. Þeim tókst að minnka muninn í fimm stig áður en Harden setti niður fimmta þristinn sinn í leiknum þegar þrjár mínútur voru eftir. Hann endaði með sex þrista, níu stoðsendingar og sjö fráköst.

Fyrr í gær jöfnuðu Dallas Mavericks einvígi sitt við Phoenix Suns í 2-2 með 111-101 sigri.

Átta liða úrslitin halda áfram í kvöld þegar Milwaukee Bucks taka á móti Boston Celtics, og Golden State Warriors og Memphis Grizzlies mætast.  Milwaukee og Golden State eru 2-1 yfir í þeim einvígum.

Bein útsending frá leik Milwaukee og Boston hefst klukkan 23.30 í kvöld á Stöð 2 Sport 2.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.