Viðskipti innlent

Skellir í lás eftir 35 ára rekstur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Pjetur Sævar Hallgrímsson hefur staðið vaktina í Tónspili síðan 1987.
Pjetur Sævar Hallgrímsson hefur staðið vaktina í Tónspili síðan 1987. Vísir/Egill

Versluninni Tónspil í Neskaupstað verður skellt í lás á næstu vikum eftir 35 ára rekstur. Eigandinn segir blendnar tilfinningar einkenna tímamótin en fagnar því að áfram verði tónlistartengd starfsemi í húsinu.

Það var Pjetur Sævar Hallgrímsson sem opnaði Tónspil þann 16. október 1987 við Hafnarbraut í Neskaupstað. Og hann sat enn við afgreiðsluborðið þegar fréttastofa leit nýlega í heimsókn. En nú segir Pétur komið gott, þrátt fyrir að sárt sé.

„Jú, þetta er mjög skrýtið. Og maður er kannski ekki hlaupandi hérna út með bros á vör. En jæja, svona er lífið bara,“ segir Pjetur.

Tónspil hefur fyrst og fremst verið plötubúð í gegnum tíðina og viðskiptin glæddust iðulega mjög í kringum tónlistarhátíðina Eistnaflug - eða alveg þar til eftirspurn eftir geisladisknum snarminnkaði skyndilega. Pjetur segir huggun fólgna í því, nú þegar endalokin blasa við, að Blús, rokk og djassklúbburinn á Nesi verði með starfsemi í húsinu.

Þannig að þetta er áfram tónlistarhús? 

„Já.“ 

Og þú ert væntanlega ánægður með það?

„Mjög svo, mjög svo.“

Og Pjetur stendur fyrir brunaútsölu nú í vikunni áður en hann skellir í lás; þar verða til að mynda geisladiskar á allt að 95 prósent afslætti.

„Ég þakka náttúrulega kærlega fyrir þau viðskipti sem hafa farið fram síðustu 35 árin. Og er náttúrulega hugsað með söknuði til þess að loka þessu en því miður verður það að gerast núna.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×