Skoðun

Óhagnaðardrifin ævintýraheimur

Ómar Már Jónsson skrifar

Í ævintýrasögum þarf enginn að taka upp peninga og aldrei er talað um skatta og gjöld, hvað þá rekstur. Þar býr fólk í höllum og hlustar á fagra tóna innan um mikilfengleg listaverk. En þetta eru ævintýri, ekki alvöru heimur með alvöru fólki.

Meirihlutaflokkarnir í Reykjavík boða húsnæðisstefnu sem miðar að óhagnaði. Með öðrum orðum, enginn á að hagnast á húsnæði. Enginn á að græða og allir eru glaðir og hamingjusamir! Því þetta er svo flott orð. „Óhagnaðardrifið.“

En þegar meirihlutinn er beðinn um að útskýra hvað í þessu orði felst vandast málið og þá kemur einhver óskiljanlegur orðaflaumur sem enginn skilur.

Það munu vera dæmi þess að einhver félagasamtök hafi fengið afslætti frá gjöldum og niðurfelld lóðagjöld og geti fyrir vikið afhent húsnæði til sinna félaga án þess að hagnast á því. Félagið græðir á því að hafa fullt af meðlimum sem vonast til að fá ódýrt húsnæði og mest þeir félagsmenn sem vinna í happadrættinu um húsnæði. Þegar dregið er í happdrættinu mætir borgarstjóri með blóm og fjölmiðlar fagna.

Við hin horfum á fréttirnar með börnum og barnabörnum og veltum fyrir okkur í hvaða félag eigi að skrá þau svo þau fari á réttan biðlista.

Raunveruleiki eða ævintýri

Svo er annar valkostur. Hann er sá að hætta að horfa á ævintýramyndir og horfast í augu við raunveruleikann. Raunveruleikinn felst í að úthluta lóðum og byggja hús á lóðinni. Miðflokkurinn ætlar að gera það. Við í Miðflokknum ætlum að auka lóðaframboð hratt í Reykjavík og skipuleggja hratt ný hverfi og höfum rakið hvernig við ætlum að gera það.

Úthlutum lóðum og það nægjanlega mörgum til að hægt sé að fullnægi þeirri þörf sem borgarbúar hafa. Önnur verkefni þarf svo að leysa. Eins og að reisa leikskóla, grunnskóla, vegi, afla vatns og rafmagns og tryggja að frárennsli sé í lagi. Alvöru verkefni sem eru verkefni borgarstjórnar og i þágu íbúa.

Það er ekki okkar kjörinna fulltrúa að segja fólki hvernig það á að búa og hvar eða hvaða farartæki það á að nota. Það þarf að gera fólki kleift að búa, vinna og ferðast í borginni sem það vill búa í.

Þannig búum við X-Meiri borg.

Höfundur er oddviti lista Miðflokksins til borgarstjórnar og fyrrverandi sveitarstjóri



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×