Viðskipti innlent

Hagnaður Landsbankans helmingast milli ára

Eiður Þór Árnason skrifar
Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri og hennar fólk í Landsbankanum birtu uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung í dag, 
Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri og hennar fólk í Landsbankanum birtu uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung í dag,  Vísir/Vilhelm

Landbankinn hagnaðist um 3,2 milljarða króna eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi þessa árs samanborið við 7,6 milljarða króna á sama tímabili árið 2021. 

Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 4,7% á ársgrundvelli, samanborið við 11,7% á sama tímabili 2021. Bankinn hyggst alls greiða 20,6 milljarða króna í arð á þessu ári og hefur þegar greitt út um 13,5 milljarða króna. Ríkissjóður á 98,2% hlut í bankanum.

Hreinar vaxtatekjur jukust um 19% og hreinar þjónustutekjur um 28%. Heildareignir Landsbankans jukust um 3,8 milljarða króna á tímabilinu og námu 1.734 milljörðum króna í lok fyrsta ársfjórðungs. Þetta kemur fram í fjárhagsuppgjöri Landsbankans.

Útlán jukust um 29 milljarða króna á fyrstu þremur mánuðum ársins 2022, en útlánaaukninguna má bæði rekja til aukningar á lánum til einstaklinga og fyrirtækja. Í lok fyrsta ársfjórðungs voru innlán frá viðskiptavinum 922,6 milljarðar króna, samanborið við 900,1 milljarð króna í árslok 2021 og höfðu því aukist um 22,5 milljarða króna.

Dregið hefur úr vexti íbúðalána en útlán til fyrirtækja jukust um 20,7 milljarða króna, ef gengisáhrifa hefði ekki gætt. Um 90% af nýjum íbúðalánum á fyrsta ársfjórðungi voru óverðtryggð og 58% lánanna voru með fasta vexti, í flestum tilvikum til þriggja ára.

Markaðshlutdeild eykst

Eigið fé Landsbankans var 265,3 milljarðar króna þann 31. mars síðastliðinn og eiginfjárhlutfallið var 24,3%. Markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði mældist 38,7% í lok tímabilsins, heldur meiri en á sama tíma í fyrra.

„Uppgjörið endurspeglar góða byrjun á árinu hjá Landsbankanum og sýnir stöðugan rekstur og sterka markaðsstöðu bankans. Hreinar vaxtatekjur jukust um 19% og hreinar þjónustutekjur um 28% og er árangurinn einkum vegna aukinnar markaðshlutdeildar og góðs árangur í eignastýringu og markaðsviðskipum,“ segir Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, í tilkynningu.

Lausafjár- og eiginfjárstaða sé enn töluvert umfram kröfur eftirlitsaðila og áfram gríðarsterk miðað við banka í Evrópu. Eftir vel heppnaðar skuldabréfaútgáfur fyrr á þessu ári sé fjármögnunarþörf bankans á næstunni tiltölulega lítil.

Vilja ýta undir aukna sjálfbærni

Lilja Björk segir að bankinn hafi byrjað að þinglýsa endurfjármögnuðum íbúðalánum rafrænt í febrúar og stefnt sé að því að ljúka innleiðingu í þessum mánuði. 

„Við höfum lengi lagt mikla áherslu á sjálfbærni og það er afar ánægjulegt hversu mikil eftirspurn er eftir sjálfbærri fjármögnun bankans. Ellefu fyrirtæki og verkefni hafa nú hlotið sjálfbærnimerki Landsbankans sem er til marks um að þau uppfylla skilyrði í sjálfbærri fjármálaumgjörð bankans. Árangursríkasta leiðin fyrir banka til að stuðla að sjálfbærni er að ýta undir og styðja við aukna sjálfbærni hjá viðskiptavinum – og þar ætlum við áfram að skara fram úr.“

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Arion banki skilaði 5,8 milljarða hagnaði á fyrsta árs­fjórðungi

Arion banki hagnaðist um 5.818 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi 2022, samanborið við 6.039 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. Var arðsemi eiginfjár 12,7% á fyrstu þremur mánuðum þessa árs og námu heildareignir 1.341 milljörðum króna í lok mars, samanborið við 1.314 milljarða króna í árslok 2021.

Lands­bankinn hagnaðist um 28,9 milljarða króna í fyrra

Landsbankinn hagnaðist um 28,9 milljarða króna eftir skatta í fyrra, samanborið við 10,5 milljarða króna árið 2020. Arðsemi eigin fjár var 10,8% árið 2021 eftir skatta, samanborið við 4,3% arðsemi árið áður.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.