Bankastjóri segir góðan vöxt vera í tekjum bankans af kjarnastarfsemi, ekki síst vaxtatekjum sem aukist hafa um 9% frá síðasta ársfjórðungi. Alls jukust lán til viðskiptavina um 4,3% frá áramótum.
Von er á því að helmingur hagnaðarins, um 2,9 milljarðar króna, verði greiddur út sem arður í samræmi við arðgreiðslustefnu bankans. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka en hækkun heildareigna er sögð skýrist aðallega af lánum til fyrirtækja sem hækkuðu um 8% frá árslokum seinasta árs.

Heildar eigið fé Arion banka nam 173 milljörðum króna í lok mars. Lækkaði það vegna arðgreiðslu og endurkaupa á hlutabréfum bankans, samtals að fjárhæð 26,8 milljarðar króna, en afkoma tímabilsins kemur til hækkunar á eigin fé.
Tekjur af kjarnastarfsemi jukust um 15,9% samanborið við fyrsta ársfjórðung 2021. Hreinn vaxtamunur var 3,1%, samanborið við 2,7% á sama tímabili í fyrra. Kostnaðarhlutfallið á fyrsta ársfjórðungi var 42,7% samanborið við 46,2% í fyrra. Arðgreiðsla og endurkaup á hlutabréfum bankans námu 26,8 milljörðum króna.
Góður gangur í efnahagslífinu
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir afkomu bankans vera góða á fyrsta ársfjórðungi og í takti við fjárhagsleg markmið.
„Við finnum vel að það er góður gangur í íslensku efnahagslífi og eru fjölmörg spennandi verkefni í pípunum. Útlánavöxtur var umtalsverður á fjórðungnum og þá sérstaklega þegar kemur að lánum til fyrirtækja. Við höldum ótrauð áfram á þeirri braut að styrkja okkur sem millilið á markaði. Á síðustu tveimur árum hefur Arion banki veitt um 36 milljörðum króna í lán til fyrirtækja sem síðar hafa verið seld til stofnanafjárfesta eins og lífeyrissjóða.“
Slíkt gefi bankanum aukið svigrúm til frekari lánveitinga til fyrirtækja og auki fjölbreytileika í eignasafni lífeyrissjóða. Benedikt segir það sömuleiðis vera ánægjulegt að sjá umsvif bankans á Norðurslóðum aukast verulega á milli ára, eða um 87%.
„Við ætlum að auka þessi umsvif enn frekar og leggjum sérstaka áherslu á atvinnugreinar þar sem við höfum á undanförnum árum byggt upp góða þekkingu á og reynslu af,“ er haft eftir Benedikt í tilkynningu.
Aðalfundur Arion banka, sem haldinn var í mars síðastliðnum, samþykkti arðgreiðslu að fjárhæð 22,5 milljarðar króna. Að auki keypti bankinn eigin bréf fyrir um 4,3 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi.
Samningur um sölu á Valitor til Rapyd hefur verið framlengdur til 1. júní næstkomandi. Vegna þeirra tafa sem orðið hafa á samþykki Samkeppniseftirlitsins og lúkningu viðskiptanna hefur Rapyd greitt Arion banka 10 milljónir Bandaríkjadala í viðbótargreiðslu, sem færð verður til tekna við samningslok
Benedikt segir stjórnendur sjá góðan vöxt í iðgjöldum hjá tryggingafélaginu Verði, dótturfélags Arion banka. Afkoma félagsins beri þess merki að veturinn hafi verið þungur hvað veðurfar varðar og hafi leitt til aukningar í fjölda tjóna.