Innherji

Harður tónn í Seðla­bankanum bendir til tölu­verðra vaxta­hækkana í sumar

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Frá kynningarfundi peningastefnunefndar í morgun. 
Frá kynningarfundi peningastefnunefndar í morgun.  VÍSIR/VILHELM

Tónninn í yfirlýsingu peningastefnunefndar í morgun var harðari en hann hefur verið að undanförnu að sögn sérfræðinga á skuldabréfamarkaði. Hann gefur til kynna að bankinn ætli sér að hækka vexti töluvert í sumar. 

„Við erum nú að sjá mestu verðbólgu frá því í maí 2010 og mátti því búast við sterkum skilaboðum frá Seðlabankanum,“ segir Ingólfur Snorri Kristjánsson, forstöðumaður skuldabréfastýringar hjá Íslandssjóðum. „Tónninn í yfirlýsingunni er harðari en við höfum séð á undanförnum mánuðum og ljóst að bankinn mun hækka vexti enn frekar á komandi mánuðum.“

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar, sem ákvað að hækka vexti um eina prósentu, kom fram að nefndin teldi líklegt að herða þyrfti taumhald peningastefnunnar enn frekar á næstu mánuðum til að tryggja að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma. Eftir ákvörðunina eru meginvextir bankans 3,75 prósent.

„Tónninn í yfirlýsingunnni var töluvert harðari en undanfarna fundi þar sem peningastefnunefndin gott sem lofaði frekari vaxtahækkunum í sumar,“ segir Birgir Haraldsson, sjóðstjóri hjá Akta.

„Það má því gera ráð fyrir að stýrivextir verði orðnir nær 6 prósent í lok sumars miðað við þessa framsýnu leiðsögn og stöðu efnahagsmála í dag.“

Á kynningarfundi peningastefnunefndar var tónninn þó mýkri og að því leyti fór hljóð og mynd ekki alveg saman að sögn Birgis.

Birgir Haraldsson

„Hins vegar skipta aðgerðirnar og tónninn í yfirlýsingunni meira máli á þessu stigi í vaxtahækkunarferlinu og það er ljóst að Seðlabankinn vill fara sjá mun harðara taumhald í peningastefnunni á síðari helming þessa árs,“ segir Birgir.

Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að verðbólga verði að meðaltali 8,1 prósent á þriðja ársfjórðungi, sem er 2,8 prósentustigum meiri verðbólga en spáð var í febrúar, og um 8 prósent á fjórða ársfjórðungi, sem er um 3,3 prósentustigum hærra en febrúarspáin. Ekki er talið að verðbólga verði komin undir 3 prósent fyrr en seint árið 2024.

Það má því gera ráð fyrir að stýrivextir verði orðnir nær 6 prósent í lok sumars miðað við þessa framsýnu leiðsögn og stöðu efnahagsmála í dag

Jafnframt kom fram í yfirlýsingunni að ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum myndu skipta miklu um hversu hátt vextir þyrftu að fara. 

„Verðbólgan mælist á breiðum grunni og flestir liðir eru að hækka. Margir hverjir eru liðir sem Seðlabankinn hefur lítil áhrif á eins og erlendar hrávöruverðshækkanir og beina þeir því spjótum sínum að ríkisstjórninni og aðilum vinnumarkaðarins vegna komandi kjaraviðræðna,“ segir Ingólfur Snorri.

Verðbólga mældist 7,2 prósent í apríl og sem fyrr var hækkun húsnæðisverðs fyrirferðarmikil í mælingunni. Á kynningarfundi peningastefnunefndar í morgun sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri vonbrigði að hert lánþegaskilyrði hefðu ekki enn haft tilætluð áhrif á fasteignamarkaðinn.

Ingólfur Snorri Kristjánsson

Seðlabankinn ákvað í fyrra að beita tveimur þjóðhagsvarúðartækjum í því skyni að koma böndum á fasteignaverð sem hefur hækkað um 22,5 prósent á síðustu 12 mánuðum. Bankinn kynnti meðal annars nýjar reglur um hámark greiðslubyrðar en eins og Innherji hefur fjallað um eru miklar efasemdir um hvort þessi aðgerð hafi hamlandi áhrif á markaðinn.

„Það hefur valdið mér vonbrigðum að þessi skilyrði hafi ekki haldið meira aftur af fasteignamarkaðinum,“ sagði Ásgeir, spurður hvort Seðlabankinn teldi að herða þyrfti skilyrðin enn frekar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.