Viðskipti innlent

Greiða sér út rúma tvo milljarða í arð en vara við enn meiri verð­hækkunum

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Matur og drykkjarvara hefur hækkað um 5,2% á einu ári .
Matur og drykkjarvara hefur hækkað um 5,2% á einu ári . vísir/vilhelm

ASÍ segir það skjóta skökku við að mat­vöru­verslanir hækki verð á vörum sínum á sama tíma og þær skili inn margra milljarða króna hagnaði. Eig­endur Haga stefna að því að greiða sér út tvo milljarða í arð í ár.

Á sama tíma og verð­bólga hefur hækkað upp í 7,2 prósent, það mesta sem mælst hefur í tólf ár, eykst hagnaður stærstu mat­vöru­verslana gríðar­lega.

„Við erum að sjá margra milljarða króna hagnað hjá þessum stærstu mat­vöru­verslana­keðjum; bæði hjá Högum og Festi og eins var góð af­koma hjá Sam­kaupum. Og þetta eru svona þessir þrír stærstu turnar,“ segir Auður Alfa Ólafs­dóttir, verk­efna­stjóri verð­lags­eftir­lits ASÍ.

Finnur Oddsson, forstjóri Haga, sagði á uppgjörskynningu Haga síðasta föstudag að fyrirtækið hefði ekki val um annað en að hækka smásöluverð í ljósi aðstæðna. „Ef við myndum ekki bregðast við yrðum við fljótt komin í þá stöðu að vera á skjön við lög, við megum ekki selja vörur undir kostnaðarverði og verðhækkanirnar eru bara það miklar að framlegðin hefur ekki undan,“ sagði Finnur.

Í ný­út­gefnum árs­reikningi Haga, sem á Bónus, Hag­kaup og Olís kemur til dæmis fram að hagnaður þeirra hafi numið fjórum milljörðum króna og að í ár verði greiddur út rúm­lega tveggja milljarða króna arður til hluthafa fyrir­tækisins.

„Maður auð­vitað bara furðar sig á þessu og það er ekki langt síðan að for­stjórar þessara fyrir­tækja eða mat­vöru­verslana­keðja stigu fram og héldu því fram að verð­hækkanir væru ó­hjá­kvæmi­legar,“ segir Auður Alfa.

Þessar verð­hækkanir eru gríðar­legar og hafa ó­lík­lega farið fram hjá nokkrum síðustu mánuði.

Á einu ári hefur matur og drykkjar­vara hækkað um 5,2 prósent og bú­vara án græn­metis mest, eða um 7,7 prósent.

Ef spár bankanna ganga eftir gætu stýri­vextir svo hækkað um allt að eitt prósentu­stig í vikunni.

Hagar eiga Hagkaup, Bónus, Olís, Banana ehf., Aðföng og Zöru.vísir/vilhelm

Auður Alfa segir að taka verði um­ræðu um það hér á landi hvað stór fyrir­tæki geta gert til að stemma stigu við verð­bólgunni.

„Við þurfum auð­vitað að skapa hérna um­hverfi, og það er að mörgu leyti stjórn­valda að gera það, að skapa sam­keppnis­um­hverfi og ég held að það sé nokkuð aug­ljóst að mat­vöru­markaðurinn á Ís­landi beri mörg ein­kenni fá­keppni,“ segir Auður Alfa.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×