Innherji

Spár um vaxta­hækkun: Markaðurinn klofinn milli 75 og 100 punkta

Ríflega helmingur markaðsaðila gerir ráð fyrir því, samkvæmt könnun Innherja, að Seðlabanki Íslands hækki vexti um 100 punkta á miðvikudaginn. Laust taumhald peningastefnu, mjög lágir raunstýrivextir og vaxandi verðbólguþrýstingur eru meginstef í þeim svörum sem bárust.

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. VÍSIR/VILHELM

Ríflega helmingur markaðsaðila gerir ráð fyrir því, samkvæmt könnun Innherja, að Seðlabanki Íslands hækki vexti um 100 punkta á miðvikudaginn. Laust taumhald peningastefnu, mjög lágir raunstýrivextir og vaxandi verðbólguþrýstingur eru meginstef í þeim svörum sem bárust.

„Verðbólguálag heldur áfram að aukast og ljóst að Seðlabankinn þarf að bregðast almennilega við“, segir í einu svari en Innherji leitaði til alls sautján greinenda á fjármálamarkaði, sjóðstjóra og hagfræðinga, og spurði hvað þeir teldu að Seðlabankinn tæki til bragðs á fundinum.

Niðurstaða könnunarinnar, sem var gerð á dögunum 28. til 29. apríl, var sú að níu töldu að vextir yrðu hækkaðir um 100 punkta en samkvæmt því myndu vextir hækka úr 2,75 prósentum í 3,75 prósent. Sjö spáðu 75 punkta hækkun og aðeins einn sagði að Seðlabankinn myndi hækka vexti um 50 punkta.

„Ásgeir þarf að fara að sýna að honum sé alvara. Markaðurinn er farinn að missa trúna á peningastefnunefnd,“ segir einn viðmælandi sem spáir 100 punkta hækkun. Hann bendir á að framvirkt verðbólguálag sé í kringum 3,5 prósent og langtímaverðbólguvæntingar séu í kringum 4,2 prósent.

„Íslenska hagkerfið er á fullri siglingu með ágætar horfur, vextir enn sögulega lágir og verðbólguvæntingar við það að fara úr böndunum á alla mælikvarða,“ segir annar viðmælandi sem telur að einnig að Seðlabankinn þurfi að hækka vexti um 100 punkta til þess að viðhalda trúverðugleika.

Enn annar sem hallast að 100 punkta hækkun segist halda að peningastefnunefnd óttist að 75 punkta hækkun sé of lítið skref. Hann telur að Seðlabankinn hafi dregið lærdóm af viðbrögðum markaðarins við síðustu vaxtahækkunum sem leiddu til hækkunar á verðbólguvæntingum.

Markaðurinn er farinn að missa trúna á peningastefnunefnd

Hagstofa Íslands birti mælingu á vísitölu neysluverðs í síðustu viku sem sýndi 7,2 prósenta verðbólgu. Mælingin var aftur hærri en opinberar spár sem lágu á bilinu 6,7 til 6,8 prósent og að mati viðmælenda Innherja þýðir það að Seðlabankinn þurfi að grípa fast um taumana. Það er „raunhæfur möguleiki“, fullyrðir einn þeirra, að verðbólga mælist í tveggja stafa tölu á næstu mánuðum.

„Seðlabankinn mun hækka vexti um 1,5 prósentur á næstu tveimur fundum í maí og júní, spurning er hvernig það skiptist. Eftir verðbólgutöluna [í síðustu viku] þá eru meiri líkur á því að hann hækki um 1 prósentu núna og 0,5 prósentu aftur í júní. Það er góður hagvöxtur í kortunum og umsvif í hagkerfinu eru að aukast mikið, og miðað við svona háa verðbólgu þá þarf Seðlabankinn að fara vel yfir jafnvægisvextina,“ segir í rökstuðningi annars.

Rökin fyrir því að Seðlabankinn hækki vexti einungis um 75 punkta eru meðal annars þau að stutt sé í þarnæsta vaxtaákvörðunarfund í júní. Auk þess sé verðbólga að miklu leyti knúin af hækkun húsnæðisverðs og því sé „gáfulegra að beita öðrum stjórntækjum ásamt vaxtahækkunum til að kæla markaðinn, frekar en að horfa aðeins til vaxta,“ eins og einn viðmælandi kemst að orði.

Seðlabankinn ákvað í fyrra að beita tveimur þjóðhagsvarúðartækjum í því skyni að koma böndum á fasteignaverð sem hefur hækkað um 22,5 prósent á síðustu 12 mánuðum. Bankinn kynnti meðal annars nýjar reglur um hámark greiðslubyrðar en eins og Innherji hefur fjallað um eru miklar efasemdir um hvort þessi aðgerð hafi hamlandi áhrif á markaðinn sem stendur.

„Spurning hvort Seðlabankinn grípi til einhverja frekari aðgerða en vaxtahækkana til að sporna við áframhaldandi hækkun húsnæðisverðs, sem er þó aðallega drifin af litlu framboði eins og er. Lausnin er ekki fólgin að þyngja fjármögnun byggingaframkvæmda. Þetta er snúin og ekki öfundsverð staða fyrir SÍ,” segir annar viðmælandi.

Þá var bent á útlánavöxt sem ástæðu fyrir Seðlabankann til að senda skýr skilaboð á miðvikudaginn. Samkvæmt nýjum tölum fyrir mars hafa hrein ný útlán íslenskra innlánsstofnana aldrei verið jafnmikil í einum mánuði frá því bankinn byrjaði að halda utan um tölurnar í byrjun árs 2013. 

Lausnin er ekki fólgin að þyngja fjármögnun byggingaframkvæmda. Þetta er snúin og ekki öfundsverð staða fyrir SÍ

Komandi kjarasamningar eru önnur ástæða en mikilvægt er, segir einn hagfræðingur, að háar verðbólguvæntingar skapi ekki grundvöll launahækkana sem eru umfram það sem samrýmist verðbólgumarkmiði bankans.

Verðbólguþrýstingur vegna hækkana á innfluttum vörum fer vaxandi en hann er að vissu leyti utan áhrifasviðs Seðlabankans. Til að mynda hækkaði vísitalan fyrir innflutt byggingarefni um 5,5 prósent í apríl en ekki hefur sést viðlíka hækkun á verði innflutts byggingarefnis frá því að Hagstofan byrjaði að birta sundurliðun byggingarvísitölunnar í byrjun árs 2010.

„Þrátt fyrir verðbólgumarkmið Seðlabankans erum við þó efins um að bankinn muni í reynd leitast við að stuðla að því að verðbólga verði mikið minni hérlendis en er í helstu viðskiptalöndum þar sem verðbólgumarkmið er jafnvel enn lægra,“ segir í einum rökstuðningi. Verðbólga mælist 7,5 prósent á evrusvæðinu og 8,5 prósent í Bandaríkjunum.

Allir nefndarmenn peningastefnunefndar studdu tillögu Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra um að vextir yrðu hækkaðir úr 2 prósentum í 2,75 prósent á síðasta vaxtaákvörðunarfundi í febrúar. Verðbólguhorfur höfðu þá versnað töluvert frá nóvemberfundi hennar og mældist verðbólga 5,7 prósent í janúar.

Helstu rök nefndarinnar fyrir því að taka stærra skref í vaxtahækkun voru þau að verðbólguhorfur væru dekkri og útlit fyrir að verðbólga myndi hjaðna hægar í 2,5 prósenta markmið bankans en áður var búist við.

Eðlilegt væri að nú þegar efnahagsbati væri hafinn, framleiðsluslaki líklega horfinn og útlit fyrir að atvinnuleysi héldi áfram að minnka að þá yrði stigið fastar til jarðar til að bregðast við þrálátri aukningu verðbólgu, versnandi verðbólguhorfum og hækkun verðbólguvæntinga. Raunvextir hefðu þar að auki lækkað töluvert milli funda nefndarinnar og nauðsynlegt væri að hækka vexti nokkuð til að auka aðhaldsstig peningastefnunnar,“ sagði í fundargerð nefndarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×