Skoðun

Hækkum þjónustu­stigið og tökum aftur for­ystu í Garða­bæ

Sara Dögg Svanhildardóttir, Guðlaugur Kristmundsson og Rakel Steinberg Sölvadóttir skrifa

Við í Viðreisn viljum sjá Garðabæ taka forystu á ný í leikskólamálum og vera leiðandi í umhverfisvænum áherslum og grænni fjármálastjórn. Við viljum einnig vanda betur til verka og beita faglegri stjórnun fjàrmagns með því að fylgja alltaf lögum um opinber innkaup þegar það á við og fara vel með fjármuni þegar kemur að innkaupum á vöru og þjónustu.

Fjárhagslega svigrúmið

Gott skuldahlutfall og hátt sjóðstreymishlutfall er ekkert til að hrósa sér fyrir þegar uppbygging innviða hefur brugðist. Ánægja með þjónustu við íbúa er í sögulegu lágmarki í þjónustuþáttum sem skipta íbúa hvað mestu máli eins og raunin er með skort á leikskólaplássum og þjónustu við fatlað fólk. Lágt skuldahlutfall er mælikvarði sem segir okkur lítið þegar skuldin í innviða byggingunni er há.

Í Garðabæ stöndum við frammi fyrir stórum og krefjandi verkefnum á næsta kjörtímabili alveg sama hvar stigið er niður fæti. Í skólamálum, uppbyggingu nýrra hverfa og samgöngum, hvort heldur sem snýr að almenningssamgöngum eða öruggum ferðamöguleikum gangandi og hjólandi. Því skiptir máli að hafa góða yfirsýn, geta horft til framtíðar með velferð fólksins okkar að leiðarljósi. Þannig sköpum við samfélag fyrir okkur öll.

Framtíðin og frjálslyndið í Garðabæ

Við þurfum að hafa kjark og þor til þess að rýna til gagns og taka àkvarðanir byggðar á veruleika þess Garðabæjar sem nú er en ekki þess Garðabæjar sem einu sinni var. Sá tími er liðinn. Fjölbreyttari Garðabær er tekinn við. Fjölbreytt íbúasamsetning kallar einfaldlega ekki bara á víðari sýn, heldur frjálslyndari sýnar og vandaðri vinnubragða. Vanda þarf til verka og setja sig í spor íbúa og horfa til þess að í samfélagi fjölbreytileikans þarf að taka mið af ólíkum þörfum.

Við í Viðreisn stöndum með fjölbreytileikanum með frjálslyndið að leiðarljósi því við viljum sanngjarnt samfélag fyrir okkur öll. Við gerum okkur grein fyrir því að fjölbreytileika þarf að mæta með fjölbreyttri þjónustu. Við þurfum alvöru valfrelsi i leikskólum, grunnskólum og búsetu á sama tíma og við viljum raunverulegt val um umhverfisvænan lífsstíl þar sem fjölbreyttar samgöngur er raunverulegt val. Við viljum veita framúrskarandi þjónustu á öllum sviðum.

Við í Viðreisn viljum gera betur og vanda til verka í þágu allra Garðbæinga.

Sara Dögg Svanhildardóttir oddviti Viðreisnar í Garðabæ

Guðlaugur Kristmundsson skipar 2. sæti í á lista Viðreisnar í Garðabæ

Rakel Steinberg Sölvadóttir skipar 3. sæti á lista Viðreisnar í GarðabæAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.