Innherji

ÍL-sjóður tapaði nærri 14 milljörðum króna í fyrra

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
7V0A6835
VÍSIR/VILHELM

ÍL-sjóður tapaði 13,9 milljörðum króna á síðasta ári samkvæmt nýbirtum ársreikningi sjóðsins og eigið féð var í árslok neikvætt um 196,6 milljarða króna.

Sjóðurinn varð til við uppskiptingu gamla Íbúðalánasjóðsins. Hann heldur utan um lánasafn Íbúðalánasjóðs en stofnunin sjálf sameinaðist Mannvirkjastofnun í Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Lækkun vaxta á síðustu árum hefur leitt til mikilla uppgreiðslna á útlánum ÍL-sjóðs. Þar sem sjóðurinn er hættur útlánastarfsemi er uppgreiðslum ráðstafað í innlán og skuldabréf sem bera í dag lægri vexti en eru á skuldum sjóðsins.

Uppgreiðslur héldu áfram á útlánasafni á árinu þrátt fyrir að aðeins hafi hægt á vexti þeirra frá árinu á undan. Uppgreiðslur útlána umfram samningsbundnar afborganir námu 49,4 milljörðum króna á árinu 2021 samanborið við 92,5 milljarða árið 2020.

Ríkisábyrgð er á skuldum sjóðsins og er gert ráð fyrir að reyna muni á þá ábyrgð á komandi árum. Fram kemur í fjármálaáætlun 2023-2027 að verði sjóðurinn rekinn út líftíma skulda, og að gefnum forsendum um þróun vaxta og verðbólgu, megi gera ráð fyrir að núvirt framtíðartap geti verið um 230 milljarðar króna. Sjóðurinn á nægt laust fé til að mæta afborgunum skulda samkvæmt áætlunum til 2034.

ÍL-sjóður hefur veitt ríkissjóði lán að fjárhæð 190 milljarðar króna frá upphafi árs 2020. Verulega hefur dregið úr lánsfjárþörf ríkissjóðs og ekki er gert ráð fyrir frekari lánveitingum úr ÍL-sjóði.

Rekstrarkostnaður ársins nam 193 milljónum króna. Hann samanstendur að mestu af greiðslum til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar vegna umsýslu lánasafnsins sem og annarri aðkeyptri þjónustu, auk framlaga til Umboðsmanns skuldara og kostnaðar sem tengist verðbréfaútgáfu sjóðsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×