Innherji

Stjórnvöld halda því opnu hvort kröfur neytenda á ÍL-sjóð fyrnist

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Lækkun vaxta á síðustu árum hefur leitt til mikilla uppgreiðslna á útlánum ÍL-sjóðs.
Lækkun vaxta á síðustu árum hefur leitt til mikilla uppgreiðslna á útlánum ÍL-sjóðs. VÍSIR/HANNA

„Ég get ekki séð annað en að íslenska ríkið hafi dregið til baka skýra yfirlýsingu um að það muni ekki bera fyrir sig fyrningu gagnvart neytendum verði uppgreiðslugjald dæmt ólögmætt. Nú virðist ríkið ætla að halda því opnu hvort það beri fyrir sig fyrningu,“ segir Jónas Friðrik Jónsson hæstaréttarlögmaður, sem fer með mál sambúðarfólks gegn ÍL-sjóði, áður Íbúðarlánasjóði, sem varðar lögmæti uppgreiðslugjalds.

Í tveimur málum sem héraðsdómur tók fyrir í fyrra var niðurstaðan sú að svokölluð uppgreiðsluþóknun ÍL-sjóða hefði verið ólögmæt. Málunum tveimur var áfrýjað og fengu þau bæði beina áfrýjun til Hæstaréttar.

Hæstiréttur sýknaði sjóðinn í öðru málinu en ómerkti héraðsdóminn í hinu og vísaði því til meðferðar í héraði á nýjan leik. Héraðsdómur sýknaði ÍL-sjóð í september síðastliðnum og hefur málinu nú verið áfrýjað til Landsréttar. Enn er því óvissa um hluta af þeim lánum sjóðsins sem bera uppgreiðsluákvæði, en munur var á lánaskilmálum í þeim tveimur málum sem fóru fyrir Hæstarétt.

Áður en málin voru tekin fyrir í Hæstarétti höfðu stjórnvöld gefið út þá yfirlýsingu að þau myndu ekki bera fyrir sig fyrningu vegna þeirra krafna sem myndu fyrnast á tímabilinu 4. desember 2020 til þess tíma að dómur félli. Þessi yfirlýsing átti að gilda um bæði málin.

Nú lítur fjármála- og efnahagsráðuneytið svo á að eftir dóma Hæstaréttar í maí á þessu taki yfirlýsingin ekki til þeirra krafna sem fyrnast eftir dóminn og miða beri fyrningarfrest við lög um fyrningu kröfuréttinda, þ.e. fjögur ár frá greiðsludegi uppgreiðslugjaldsins, þrátt fyrir að annað málið sé enn til meðferðar í dómskerfinu.

„Staðfesti Landsréttur niðurstöðu héraðsdóms mun ekki reyna á yfirlýsinguna en verði niðurstaðan hins vegar sú að ÍL-sjóði beri að endurgreiða uppgreiðslugjaldið vegna ágalla í skilmálum veðbréfsins þá kemur yfirlýsing ráðuneytisins til skoðunar við uppgjör þeirra krafna,“ segir í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Innherja. Ráðuneytið telur sig hins vegar ekki hafa afturkallað eða breytt afstöðu sinni til fyrningar.

„Að mínum mati eru það ekki góðir stjórnsýsluhættir hjá ríkinu að ætla að bera kápuna á báðum öxlum. Ef eitthvað er, þá getur þetta afstöðuleysi ýtt undir dómsmál að þarflausu,“ segir Jónas. 

Jónas Friðrik Jónsson hæstaréttarlögmaður. VÍSIR/VILHELM

„Þá eru það bæði óvandaðir stjórnsýsluhættir og viðskiptahættir, því Íbúðalánasjóður var lánastofnun, að eiga ekki frumkvæði að því að upplýsa neytendur um breytta, opna og óljósa afstöðu ríkisvaldsins til fyrningar krafna vegna uppgreiðslugjalds í ljósi fyrri yfirlýsingar stjórnvalda um málið.“

Lækkun vaxta á síðustu árum hefur leitt til mikilla uppgreiðslna á útlánum ÍL-sjóðs. Þar sem sjóðurinn er hættur útlánastarfsemi er uppgreiðslum ráðstafað í innlán og skuldabréf sem bera í dag lægri vexti en eru á skuldum sjóðsins. Vænt tap ÍL-sjóðs út líftíma skulda nemur á bilinu 220 til 230 milljörðum króna.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×