Innherji

„Krefjandi tímar framundan hjá Play“ þótt ferðaviljinn virðist mikill

Hörður Ægisson skrifar
Verðmatsgengi Play er nú 21,8 krónur á hlut, eða sem jafngildir markaðsvirði upp á 15,2 milljarða króna, og lækkar það um 15 prósent fyrra mati Jakobsson Capital.
Verðmatsgengi Play er nú 21,8 krónur á hlut, eða sem jafngildir markaðsvirði upp á 15,2 milljarða króna, og lækkar það um 15 prósent fyrra mati Jakobsson Capital. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Með olíuverð í hæstu hæðum og gengi krónunnar gagnvart evru að nálgast það gildi sem það var í fyrir upphaf farsóttarinnar þá er „ljóst að það eru krefjandi tímar framundan hjá Play,“ að mati greinenda Jakobsson Capital.

Í nýju verðmati, sem kom út síðasta föstudag og Innherji hefur undir höndum, segir að þrátt fyrir að ferðavilji Íslendinga sé mikill er meiri óvissa með erlendu ferðamennina. „Eftirspurn eftir flugferðum innanlands er mikil en kostnaðarliðir keyra fram úr áætlun og samkeppnisstaðan er þung sérstaklega gagnvart öðrum lággjaldaflugfélögum í Evrópu,“ segir í greiningu Jakobsson.

Við þessar aðstæður sé erfitt að ná rekstrarhagnaði þótt að tekjur séu „oft þokkalegar“. Það séu þó ljósir punktar og átökin í Úkraínu virðast lítið hafa dregið úr ferðavilja til Íslands og veturinn í ferðaþjónustu hefur verið góður miðað við aðstæður. Tölur um fjölda farþega og nýtingu flugsæta lofa einnig góðu hjá Play en nýtingin var tæplega 67 prósent í síðasta mánuði.

Verðmatsgengi Play er nú 21,8 krónur á hlut, eða sem jafngildir markaðsvirði upp á 15,2 milljarða króna, og lækkar það um 15 prósent fyrra mati Jakobsson Capital. Þá er nýja verðmatsgengið sömuleiðis um 13 prósentum lægra en núverandi markaðsgengi flugfélagsins sem stendur í 25 krónum á hlut.

Eftirspurn eftir flugferðum innanlands er mikil en kostnaðarliðir keyra fram úr áætlun og samkeppnisstaðan er þung sérstaklega gagnvart öðrum lággjaldaflugfélögum í Evrópu.

Rekstrartap Play á liðnu ári nam samtals 24,7 milljónum dollara. „Almennt má segja að flugbrautin hafi verið nokkuð lengri en reiknað var með í upphafi. Fjöldi farþega var nokkuð undir væntingum fyrsta árið. Sömuleiðis virðist kostnaður við stofnun meiri. Sú verkfræðilega nákvæmni á kostnaðarliðum sem kynnt var í upphafi virðist eitthvað hafa klikkað. Á móti má segja að þær forsendur sem voru kynntar fyrir útboð voru brattar enda tók Jakobsson Capital þeim með ögn af salti og var sú sviðsmynd sem Jakobsson dró upp nokkuð dekkri,“ segir í verðmatinu.

Tekjur Play námu 16,4 milljónum dollara árið 2021. Töluverð tekjuaukning var á milli ársfjórðunga og fóru rekstrartekjur úr 6,7 milljónum dollara á þriðja fjórðungi í 9,6 milljónir dollara á síðasta ársfjórðungi.

Fram kemur í verðmatinu að hærra olíuverð muni hafa óveruleg áhrif á eftirspurn eftir ferðum til Íslands. Landið sé dýr áfangastaður og „nokkrir þúsundkallar til eða frá“ muni hafa óveruleg áhrif á eftirspurn á slíka áfangastaði. Fyrr á þessu ári tilkynnti Play að félagið hefði mætt hækkun olíuverðs með sérstöku olíugjaldi ofan á miðaverð, líkt og Icelandair gerði sömuleiðis.

„Hins vegar hefur Jakobsson Capital meiri áhyggjur af kostnaðarliðum, sérstaklega eldsneytiskostnaði,“ segir í greiningunni, en árið 2022 er gert ráð fyrir að tekjur Play nemi 142,1 milljónum dollara. Þær fari þannig úr um 3,3 milljónum dollara á mánuði í 11,8 milljónir dollara og meira en þrefaldist milli ára samhliða því að flugflotinn tvöfaldast milli ára.

„Það er því gert ráð fyrir mun betri nýtingu og hærra verði flugfargjalda samfara hærra olíuverði. Á móti kemur að Play er ennþá í vaxtarfasa og óhagstæð rekstrarskilyrði munu koma sérstaklega illa við flugfélagið. Play hefur ekki ennþá náð þeirri stærð og þeim fjölda áfangastaða að margir munu nýta sér tengiflug yfir Atlantshafið. Að auki eru verð enn frekar há samanborið við önnur lággjaldaflugfélög. Styrking krónunnar frá síðasta ári mun verða fjötur um fót í ár,“ segir í verðmatinu.

Þá er bent á að þegar litið sé til tekna þá verði Play á svipuðum stað og Wow air var árið 2015. Hins vegar sé Play á allt öðrum stað í þroskaferlinu og ytri skilyrði eru nú óhagstæðari en þau voru á þeim tíma.

„Það er gert ráð fyrir að rekstrartap (EBIT) nemi 22,5 milljón dollara. Í ljósi olíuverðs og tekjuspár er erfitt að sjá að Play muni ná rekstrarhagnaði á þriðja ársfjórðungi. Tekjur þyrftu að vera umtalsvert hærri. Greinandi Jakobsson Capital er ekki já-maður og þykir forsvarsmenn Play vera nokkuð bjartsýnir er varðar mögulegan rekstrarhagnað. Það er ekki hlutverk greinanda að koma með bjartsýnustu spá, heldur þá spá sem hann telur líklegasta. Play verður þó líklega ekki langt frá því að ná rekstrarhagnaði á þriðja ársfjórðungi. Forsendur gera ráð fyrir að EBITDA verði jákvætt í ár eða upp á 7,5 milljónir dollara,“ að því er fram kemur í verðmatinu.

Á næsta ári er útlit fyrir mikinn tekjuvöxt þegar Play mun bæta við vélum og verður flotinn kominn upp í um 10 flugvélar. Í forsendum verðmatsins er áætlað að olíuverð verði hagstæðara en nú og sömuleiðis að sú fjárfesting sem Play hefur verið að ráðast í, eins og í bókunarkerfum og fleiri áfangastöðum, muni byrja að skila félaginu betri nýtingu. Það verði því 110 milljón dollara tekjuvöxtur milli ára og félagið skili rekstrarhagnaði upp á rúmlega 15 milljónir dollara.

Play hefur ekki ennþá náð þeirri stærð og þeim fjölda áfangastaða að margir munu nýta sér tengiflug yfir Atlantshafið. Að auki eru verð enn frekar há samanborið við önnur lággjaldaflugfélög.

Þótt Jakobsson Capital geri ráð fyrir tapi að fjárhæð 25,5 milljónir dollara á þessu ári þá er staða handbærs fjár Play góð og var hún tæplega 52 milljónir dollara í lok síðasta árs.

„Samkvæmt áætlun mun eiginfjárhlutfall Play fara lægst í rúmlega 14 prósent og staða handbærs fjár lægst í um 25 milljón dollara í lok þessa árs. Eins og ávallt þegar farið er í flug er rétt að benda á að björgunarvestin eru undir sætunum. Fjárfestum er bent á að óvissan er mjög mikil í flugrekstri og sérstaklega í nýstofnuðu flugfélagi,“ að sögn greinenda Jakobsson.

Fyrsta flug Play til Bandaríkjanna var í síðustu viku til Washington DC. Á næstu vikum mun félagið síðan einnig hefja áætlunarflug til Boston og New York. Tengiflugsbókanir frá Evrópu og Bandaríkjunum eru sagðar hafa styrkst statt og stöðugt að undanförnu sem auki tekjur og nýtingu félagsins.

„Eftir því sem sætanýtingin verður sífellt betri finnum við á okkur að nýr og spennandi kafli er að hefjast hjá PLAY. Bókanir hafa flætt vel á undanförnum mánuðum og við erum í heilbrigðum vexti frá vori og inn í sumarið,“ sagði Birgir Jónsson, forstjóri Play, í tilkynningu frá félaginu fyrr í þessum mánuði.

Hlutabréfaverð Play hefur hækkað um 7,8 prósent frá áramótum en til samanburðar hefur gengi bréfa Icelandair hækkað litlu meira, eða um 11,5 prósent.


Tengdar fréttir

2,9 milljarða tap en gera ráð fyrir hagnaði á síðari hluta ársins

Tekjur flugfélagsins Play námu 16,4 milljónum Bandaríkjadala á árinu 2021 en tap ársins nam 22,5 milljónum dala, eða um 2,9 milljörðum íslenskra króna. Tekjur voru lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir vegna neikvæðra áhrifa Covid-19 en kostnaður var samkvæmt áætlunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×