Rafíþróttir

Vallea komið í undanúrslit Stórmeistaramótsins

Snorri Rafn Hallsson skrifar
Stórmeistara bikar

Vallea og Ten5ion mættust í 8 liða úrslitum Stórmeistaramótsins í CS:GO í gærkvöldi.

Það var þriðja sætis lið Vallea sem tók á móti Ten5ion í fyrsta einvígi gærkvöldsins í 8 liða úrslitum Stórmeistaramótsins. Ten5ion léku vel á Áskorendamótinu fyrr í mánuðinum og höfðu þar á undan unnið Fylki í umspili um sæti í Ljósleiðaradeildinni.

Liðin

Lið Vallea skipuðu Stalz, Minidegreez, Goa7er, Spike og Narfi, sá hópur sem náði góðum árangri í Ljósleiðaradeildinni á tímabilinu. Toppmaður Tomma var Stalz.

Lið Ten5ion skipuðu Tight, Vikki, Capping, Sveittur og Hugo en Toppmaður Tomma var Capping.

Kortaval

Liðin skiptust á að velja og hafna kortum og fór kortavalið þannig fram:

  • Ten5ion bannaði Mirage
  • Vallea bannaði Ancient
  • Ten5ion valdi Vertigo 
  • Vallea valdi Inferno 
  • Ten5ion bannaði Overpass
  • Vallea bannaði Dust 2
  • Úrslitakort: Nuke 
Þeir Kristján Einar, Tommi og Dói spáðu mikið í liðin.

Leikur 1: Vertigo

Ten5ion valdi kortið svo Vallea fékk að byrja í vörn.

Ten5ion fór vel af stað og vann fyrstu tvær loturnar í sókninni en þreföld fella frá Stalz skilaði Vallea fyrsta stiginu og góðum vopnum. Ten5ion þurfti þá að spara við sig í vopnakaupum og var sópað hratt upp í kjölfarið. Var staðan því jöfn eftir fyrstu fjórar loturnar en Vallea komst yfir í þeirri fimmtu.

Deiglurnar fengu að syngja þegar Ten5ion jafnaði leikinn aftur með örfáum vel völdum skotum. Náði Ten5ion ekki að gera sér mat úr lotunni þar á undan og voru Stalz og Narfi að vanda atkvæðamiklir fyrir Vallea í upphafi leiks. Nýtti Vallea ýmis konar búnað gríðarlega vel til að halda aftur af tilburðum Ten5ion en engu að síður skiptust liðin á lotum og leikurinn var jafn.

Þegar komið var inn í níundu lotu skipti miklu máli fyrir bæði lið að vinna til þess að brjóta efnahag hins liðsins á bak aftur. Þar mættu Ten5ion af miklum krafti á sprengjusvæðið og hafði Vallea ekki burði til að bregðast við því og vann Ten5ion lotuna og átti auðvelt með að fylgja því eftir í þeirri næstu gegn blönkum Valleamönnum. Þegar Vallea vopnaðist aftur vel sneri liðið vörn í sókn og jafnaði á ný með því að nýta sér skipulagsleysi Ten5ion.

Fjórföld fella frá Spike í lotu sem spilaðist algjörlega eftir bókinni kom Vallea yfir. Góðar staðsetningar Vallea stöðvuðu hraða sókn Ten5ion í síðustu lotu hálfleiksins, en Ten5ion hægði þá á leik sínum og kláraði lotuna.

Staða í hálfleik: Vallea 8 – 7 Ten5ion

Capping átti stórkostlega skammbyssulotu og felldi fjóra leikmenn Vallea til að jafna aftur í upphafi síðari hálfleiks. Þreföld fella frá Hugo bjargaði næstu lotu fyrir horn og þurfti Vallea að reiða sig á skammbyssur. Handsprengjur Ten5ion ullu miklum skaða og skyndilega var Ten5ion komið með þriggja lotu forskot án þess að missa marga leikmenn.

Vallea sótti mikið á B-svæðið sem Ten5ion hafði algjörlega á valdi sínu og átti auðvelt með að aftengja sprengjuna og fella andstæðingana. Vallea nýtti búnaðinn ekki eins vel og í fyrri hálfleik en náði að veita nokkra viðspyrnu undir lok leiksins. Ten5ion var komið í sigurstigið en vantaði herslumuninn til að sigla sigrinum heim og komst Vallea því ansi nálægt þeim. Vallea fór hægt um kortið í upphafi þrítugustu lotu þegar staðan var 15–14 fyrir Ten5ion og kom sprengjunni fyrir án þess að finna fyrir mikilli mótstöðu. Endurtaka Ten5ion var hins vegar öflug en Minidegreez bjargaði lotunni fyrir horn á síðustu sekúndu og því fór leikurinn í framlengingu.

Staða eftir venjulegan leiktíma: Vallea 15 – 15 Ten5ion

Í framlengingu eru leiknar sex lotur og þarf lið að hafa betur fjórum þeirra til að vinna leikinn. 

Fyrsta lotan var gríðarlega jöfn og lauk með einvígi á milli Minidegreez og Vikka þar sem Minidegreez hafði betur. Var Vallea því komið yfir í fyrsta sinn í langan tíma en enn var allt í járnum og Ten5ion jafnaði um hæl. Fjórföld fella frá Stalz eftir að sprengjan fór niður styrkti stöðu Vallea og brekkan farin að verða brött fyrir Ten5ion. Vallea vann fyrstu lotuna í vörninni þegar liðin skiptu um hlið og lauk þessum æsispennandi og jafna leik með sigri Vallea þegar Minidegreez sá við Capping og Goa7er aftengdi sprengjuna. Með því að knýja fram framlengingu og ljúka leiknum með sigri sýndi Vallea hvers vegna það er eitt besta lið landsins.

Lokatölur: Vallea 19 – 16 Ten5ion

Leikur 2: Inferno

Eftir fyrsta leikinn sem virtist vera í höndunum á Ten5ion lá leið liðanna í Inferno. Vallea valdi Inferno kortið svo Ten5ion fékk að velja hlið í fyrri hálfleik og byrjaði í vörn. Skammbyssulotan fór þannig að Spike og Minidegreez enduðu tveir gegn fjórum leikmönnum Ten5ion og náðu að koma sprengjunni niður, en Capping sá við þeim og aftengdi sprengjuna. Vörn Ten5ion var þétt í upphafi leiks þar sem Ten5ion las leik Vallea vel og krækti í fyrstu sex loturnar gegn svifaseinum leikmönnum Vallea.

Það var loks í sjöundu lotu sem eitthvað gekk upp í sókn Vallea en því var svarað um hæl af Ten5ion sem sýndu mikla þolinmæði og aga í leik sínum. Vallea flækti leik sinn um of og komst því ekki almennilega á skrið fyrr en Narfi náði að kreista fram annað stig Vallea í tíundu lotu. Mikilvæg fella frá Spike opnaði þá elleftu upp á gátt fyrir Vallea sem nýtti sér tækifærið og tengdi saman tvær lotur. Ten5ion brá á það ráð að verjast árásargjarnt en það gekk ekki eftir.

Vallea hafði fundið taktinn og Minidegreez var heldur betur kominn í gang og farinn að hitta kærulausa leikmenn Ten5ion. Ten5ion náði þó síðustu lotunni áður en liðin skiptu um hlið og hélt því einhverju eftir af stóru forskotinu inn í síðari hálfleik.

Staða í hálfleik: Vallea 6 – 9 Ten5ion

Vallea fór létt með skammbyssulotuna og næstu tvær til að jafna. Mögulega háði það Ten5ion að liðið hefur ekki spilað lengi saman og hugmyndabankinn því örlítið minni en hjá Vallea. Fjórföld fella frá Spike kom Vallea yfir í fyrsta sinn í leiknum og var því komin mikil pressa á Ten5ion að vinna næstu lotu til að missa Vallea ekki of langt fram úr sér. Sjötta skilningarvitið hjá Hugo stöðvaði tilraun Stalz til koma í bakið á þeim og aftur var orðið hnífjafnt.

Liðin skiptust svo á lotum en Ten5ion kastaði frá sér 23. lotu þar sem Vallea vann erfiða endurtöku með vappa og reyndist það Ten5ion dýrt. Eftir að Vallea vann tvær lotur til viðbótar og var komið í stöðuna 14–11 eftir að hafa veið 8–1 undir tók Ten5ion leikhlé til að stilla saman strengi sína. Eftir mikið mannfall náði Vikki að koma sprengjunni fyrir og sá við Minidegreez til að minnka muninn örlítið. Minidegreez var fljótur að fella Vikka í upphafi næstu lotu og fóru Vallea hratt fram til að koma sér í sigurstöðu. Eftirleikurinn var auðveldur og komst Vallea í yfirtölu í 28. lotu og gátu einungis Tight og Hugo staðið í vegi fyrir því að Vallea tryggði sér miða á úrslitahelgina. Tight kom sprengjunni fyrir en Narfi tók hann út í gegnum reykjarmökk og lauk þessum æsispennandi leik með sigri Vallea.

Lokatölur: Vallea 16 – 12

Það er gömul saga og ný að þegar Vallea komast í gang þá mallar vélin bara og ekkert sem getur stöðvað liðið. Vallea er því komið í undanúrslit á Stórmeistaramótinu með 2–0 sigri í einvíginu. Föstudaginn 29. apríl mætir liðið sigurvegaranum úr viðureign Þórs og XY klukkan 21:00. Sýnt verður frá leiknum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×