Skoðun

Langþráðir samningar í höfn

Ágúst Bjarni Garðarsson skrifar

Loksins hafa náðst langtímasamningar milli Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og Sjúkratrygginga Íslands um rekstur hjúkrunarheimila. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra birti tilkynningu þess efnis í dag. Um er að ræða samninga til þriggja ára og er heildarupphæð þeirra tæpir 130 milljarðar. Þetta eru svo sannarlega góðar fréttir.

Nauðsynlegar aðgerðir

Samningarnir kveða á um að auka á fjármagn til hjúkrunarheimila og bæta þjónustu við íbúa. Hér er um að ræða brýnt verkefni til þess að bæta þjónustu og tryggja öryggi íbúa. Auk þess á að efla þjónustu við þá einstaklinga sem þurfa hvað mesta umönnun með auknum framlögum í útlagasjóð. Í samningunum er einnig kveðið á um að styrkja úrræði fyrir yngri einstaklinga sem þurfa á þjónustu hjúkrunarheimila að halda og þá sem glíma við geð- og fíknisjúkdóma. Þá er í samningunum tryggð aukafjárveiting til lítilla hjúkrunarheimila.

Samningarnir eru við rekstraraðila allra þeirra 45 hjúkrunarheimila sem starfa víðs vegar um landið samkvæmt samningum við Sjúkratryggingar Íslands og eru unnir í sátt. Næstu misseri verður síðan áfram unnið að skilgreindum verkefnum sem miða að því að bæta rekstrarumhverfi heimilanna og efla gæðastarf.

Hjúkrunarheimili framtíðarinnar

Samkvæmt samningunum á að vinna að verkefnum sem bæta rekstrarumhverfi hjúkrunarheimilanna til framtíðar. Samhliða samningnum hafa samningsaðilar samþykkt að setjast að borðinu með heilbrigðisráðuneytinu til að ræða þróun starfsemi hjúkrunarheimila með vinnuhópnum um endurskoðun á mats- og greiðslukerfi til hjúkrunarheimila. Þar er verið að horfa til lengri tíma varðandi þá þjónustu sem veitt er á hjúkrunarheimilum og hvernig sú þjónusta muni þróast til framtíðar. Breyttar kröfur eru um gæði og þjónustu og greiðslur þurfa að vera í samræmi við það.

Þá ætlar heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir því að settur verði á fót vinnuhópur undir stjórn fjármálaráðuneytis um fyrirkomulag húsnæðismála hjúkrunarheimila í samvinnu við Heilbrigðisráðuneyti, Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Áfram veginn

Þá er það er skýr vilji allra þeirra sem koma að samningsborðinu að bæta rekstrarumhverfi heimilanna til framtíðar, það horfir til bjartari tíma í málefnum hjúkrunarheimila. Með þessum langþráðu samningum hafa náðst þýðingarmikil markmið um stöðugleika og fyrirsjánleika í rekstri hjúkrunarheimila næstu árin. Þetta eru ánægjulegar fréttir.

Höfundur er þingmaður Framsóknarflokksins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×