Innherji

Lífeyrissjóðir minnka enn við sig í Skel en sjóðir Stefnis kaupa fyrir 700 milljónir

Hörður Ægisson skrifar
Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Skel fjárfestingafélags, en miklar breytingar hafa orðið á hluthafahóp félagsins frá áramótum samhliða því að þrír lífeyrissjóðir hafa selt samanlagt meira en 15 prósenta hlut.
Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Skel fjárfestingafélags, en miklar breytingar hafa orðið á hluthafahóp félagsins frá áramótum samhliða því að þrír lífeyrissjóðir hafa selt samanlagt meira en 15 prósenta hlut.

Íslensku lífeyrissjóðirnir halda áfram að losa um stóran hluta bréfa sinna í Skel fjárfestingafélagi, sem áður hét Skeljungur, en Gildi og Lífsverk seldu samanlagt um þriggja prósenta eignarhlut í fyrirtækinu í síðasta mánuði. Á sama tíma komu tveir hlutabréfasjóðir í stýringu Stefnis nýir inn í hlutahafahóp Skel með kaupum á tæplega 2,2 prósenta hlut sem má ætla að þeir hafi greitt tæplega 700 milljónir fyrir.

Þetta má lesa út úr uppfærðum lista yfir helstu hluthafa félagsins en hlutabréfaverð Skel hefur verið á talsverðri siglingu að undanförnu og hækkað um 20 prósent frá áramótum. Á sama tíma hefur Úrvalsvísitalan lækkað um rúmlega 6 prósent.

Lífeyrissjóðurinn Lífsverk, sem átti fyrir söluna í marsmánuði 2,72 prósenta hlut og var fimmti stærsti hluthafi félagsins, seldi megnið af sínum bréfum og heldur núna á aðeins tæplega 0,5 prósenta eignarhlut. Gildi lífeyrissjóður, sem var um tíma næst stærsti hluthafi Skel með yfir 10 prósenta hlut í byrjun þess árs, losaði um nærri helming þeirra bréfa sem hann átti eftir og fer núna með 0,63 prósenta hlut. Ætla má að söluandvirði hlutanna sem Gildi og Lífsverk seldu í síðasta mánuði – gengi bréfa Skeljungs var þá að jafnaði í kringum 16 krónur á hlut – hafi numið samanlagt yfir 900 milljónum króna.

Eftir kaup sjóða Stefnis – Innlend hlutabréf hs. og ÍS 5 hs. – er sjóðastýringarfyrirtækið orðið sjöundi stærsti hluthafi Skel fjárfestingafélags.

Miklar breytingar hafa orðið á hluthafahópi félagsins á undanförnum mánuðum. Mikil viðskipti voru með bréf Skel, sem er í dag með markaðsvirði upp tæplega 33 milljarða króna, í byrjun þessa árs þegar lífeyrisjóðirnir Gildi, Birta og Lífsverk seldu samtals um 13,6 prósenta hlut í félaginu fyrir um fjóra milljarða króna á tímabilinu 6. til 10. janúar. Samanlagður eignarhlutur íslenskra lífeyrissjóða hefur farið ört minnkandi frá árinu 2020 – Frjálsi er í dag stærstur sjóðanna með 8,4 prósenta hlut og þar á eftir kemur Birta með 4,5 prósent – og nemur nú um 16 prósentum.

Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar Gildis, sagði við Innherja á þeim tíma að miklar breytingar hjá Skel og óljós vegferð félagsins hefðu verið á meðal þeirra þátta sem höfðu áhrif á ákvörðun sjóðsins að selja megnið af bréfum sínum en hlutur hans minnkaði þá úr 10,4 prósentum í tæplega 2 prósent.

„Við vorum sátt við að innleysa stóran hluta af okkar fjárfestingu í félaginu á þessum tímapunkti, töluverð hækkun sem orðið hefur á genginu á undanförnum mánuðum og söluverð okkar umtalsvert hærra en yfirtökutilboðið sem okkur stóð til boða fyrir liðlega ári síðan,“ útskýrði Davíð.

Fjárfestingafélagið Strengur, sem hjónin Ingibjörg Pálmadóttur og Jón Ásgeir Jóhannesson og Sigurður Bollason fara meðal annars fyrir, er sem kunnugt er með rúmlega 50 prósenta hlut í Skel eftir að hafa fjármagnað skuldsetta yfirtöku á félaginu í ársbyrjun 2021.

Stærstu kaupendur að þeim bréfum sem lífeyrissjóðirnir seldu í ársbyrjun, eins og Innherji hefur áður fjallað um, voru bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital, sem var áður stærsti hluthafi Arion banka um nokkurt skeið, og félagið GE Capital sem er í eigu Guðna Rafns Eiríkssonar, fjárfestis og eigenda Apple umboðsins á Íslandi. Taconic og Guðni Rafn keyptu hvor um sig rétt rúmlega fimm prósenta hlut og var gengið í viðskiptunum 14,7 krónur á hlut.

Síðar í þeim mánuði bættust tvö félög á vegum Jakobs Valgeirs Flosasonar, útgerðarmanns og fjárfestis, við hluthafahópinn þegar þau keyptu samanlagt um 1,55 prósenta hlut sem skilar honum í hóp tíu stærstu eigenda fyrirtækisins. Á sama tíma kom Helgi Magnússon, fjárfestir og aðaleigandi útgáfufélags Fréttablaðsins, DV og Hringbrautar, einnig nýr inn í eigendahópinn í gegnum eignarhaldsfélag sitt Hofgarðar. Félagið fer í dag með rúmlega 0,7 prósenta eignarhlut, sem gerir það að tólfta stærsta hluthafa Skel.

Verulegar breytingar hafa orðið á starfsemi Skel að undanförnu þar sem eignir hafa verið seldar, reksturinn stokkaður upp með stofnun nýrra dótturfélaga og tilgangi félagsins breytt þannig að megintilgangur þess verði fjárfestingastarfsemi. Samhliða því var nafni þess breytt úr Skeljungi í Skel fjárfestingafélag. Þá hafa stjórnendur hætt við fyrri áform sín um afskráningu heldur er nú horft til þess að starfrækja fjárfestingafélag sem verður skráð á hlutabréfamarkað.

Töluverð umbreyting varð á efnahagi Skel, sem rekur um 60 bensínstöðvar undir merkjum Orkunnar, á síðasta ári. Í lok árs var gengið frá sölu á hinu færeyska Magni til Sp/f Orkufélagsins fyrir 12,2 milljarða króna en skuldbatt sig jafnframt til að endurfjárfesta 2,8 milljörðum króna í Orkufélaginu gegn því að eignast ríflega 48 prósenta hlut. Þá skrifaði Skel undir viljayfirlýsingu um sölu fasteigna fyrir 5,9 milljarða króna til fasteignaþróunarfélagsins Kaldalóns og var kaupsamningur vegna viðskiptanna kláraður í síðustu viku.

Á síðasta ári nam hagnaður Skel samtals 6,1 milljarði króna en afkoman skýrðist einkum vegna söluhagnaðar á P/F Magn. Velta félagsins jókst um 32 prósent í fyrra og var samtals tæplega 34 milljarðar króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 2 milljarðar og hækkaði um 800 milljónir á milli ára.

Félagið áætlar að afkoma samstæðunnar – sem samanstendur af dótturfélögunum Orkan IS, Skeljungur IS og Gallon – verði jákvæð um 7,6 til 8,3 milljarða að teknu tilliti til vænts söluhagnaðar af fasteignum að fjárhæð 5 milljarðar. Gert er ráð fyrir að afkoma af áframhaldandi starfsemi og fjárfestingastarfsemi verði á bilinu 2,6 til 3,3 milljarðar króna.

Hlutabréfaverð Skeljungs stóð í 17 krónum á hlut við lokun markaða í dag og hefur hækkað um 62 prósent á undanförnum tólf mánuðum.


Tengdar fréttir

SKEL, Stálskip og BYGG meðal stórra fjárfesta í útboði Íslandsbanka

Í hópi þeirra 140 einkafjárfesta sem tóku þátt í útboði ríkissjóðs á stórum hlut í Íslandsbanka og keyptu hvað mest, eða fyrir á bilinu um 200 til 500 milljónir hvor um sig, voru meðal annars Ólafur D. Torfason, aðaleigandi Íslandshótela, Byggingarfélag Gylfa og Gunnars (BYGG), fjárfestingafélagið Stálskip, útgerðarfélagið Jakob Valgeir, Hannes Hilmarsson, stjórnarformaður Air Atlanta, og eignarhaldsfélagið Kadúseus sem er í meirihlutaeigu Sveins Valfells.

Ekki skýrt á hvaða vegferð Skeljungur er að mati Gildis

Miklar breytingar hjá Skeljungi og óljós vegferð félagsins voru á meðal þeirra þátta sem höfðu áhrif á ákvörðun Gildis lífeyrissjóðs um að selja megnið af eignarhlutum sínum Skeljungi. Þetta segir Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar Gildis.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×